Álftanes Skuldastaðan að skýrast.
Álftanes Skuldastaðan að skýrast. — Morgunblaðið/Ómar
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Útlit er fyrir að lausn á skuldastöðu Álftaness sé í sjónmáli. Sveitarfélagið hefur náð samningum við kröfuhafa um niðurfellingu skulda og ríkið um greiðslur úr jöfnunarsjóði.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Útlit er fyrir að lausn á skuldastöðu Álftaness sé í sjónmáli. Sveitarfélagið hefur náð samningum við kröfuhafa um niðurfellingu skulda og ríkið um greiðslur úr jöfnunarsjóði. Samningarnir verða undirritaðir á næstu dögum og í kjölfarið getur Álftanes haldið áfram sameiningarviðræðum við Garðabæ sem hafa staðið síðasta árið. Hlé hefur verið á þeim undanfarna mánuði á meðan beðið var eftir svari frá ríkinu.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að ekki sé búið að tilkynna þeim opinberlega hvaða stuðning ríkið kemur með inn í sameiningarviðræðurnar. „Við höfum verið að bíða eftir tölum sem eru greinilega á leiðinni. Ég á von á að það verði tilkynnt á næstu dögum. Þá munum við halda áfram viðræðum við Álftanes með þær tölur í farteskinu, máta þær inn í okkar áætlanir og taka ákvörðun í framhaldinu.“

Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi fær Álftanes milljarð úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, með því skilyrði að það sameinist öðru sveitarfélagi, og skuldir verða færðar niður um tæpa fjóra milljarða króna.

„Á þessum tímapunkti er ekki hægt að staðfesta nákvæmt innihald þessara samninga og ekki nákvæmar útlistanir á tölum en það verður skrifað undir á næstu dögum. Það er gríðarlegur léttir að það skuli vera að koma lausn í þessu máli,“ segir Pálmi Þór Másson, bæjarstjóri Álftaness.

Stefnt var að því að ná skuldunum niður í 250% af árlegum tekjum sveitarfélagsins. „Það liggur ljóst fyrir að heildarskuldir sveitarfélagsins hafa verið settar fram sem 7,2 milljarðar. Við höfum unnið að því að komast undir þetta 250% mark og til að svo megi verða verðum við að koma skuldunum niður í um það bil 3,2 milljarða. Það er það sem við höfum unnið að og mér sýnist á öllu að það sé að ganga eftir hjá okkur,“ segir Pálmi.