Ragnar Önundarson hefur á síðustu fjórum vikum skrifað að minnsta kosti þrjár greinar í Morgunblaðið um aðkomu okkar undirritaðra að Húsasmiðjunni fyrir tæpum 10 árum. Að auki ber hann þungar sakir á konu annars okkar, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa.
Skrif Ragnars byggjast á miklum misskilningi. Í þeim fullyrðir Ragnar að við, sem hluthafar í Húsasmiðjunni, höfum tekið fé út úr fyrirtækinu með ólögmætum og refsiverðum hætti.
Samkvæmt frásögn Ragnars keyptum við Húsasmiðjuna með engu eiginfjárframlagi og seldum síðan út allar fasteignir félagsins á miklu yfirverði með fulltingi vitorðsmanna í bönkum. Ragnar segir síðan „...andvirði eignanna notuðu þeir strax til að greiða sjálfum sér stórfelldan arð“. Þetta olli því að Húsasmiðjan sligaðist undan skuldum og „féll í faðm“ Landsbankans skv. kenningu Ragnars.
Þetta er allt saman rangt.
Fasteignir Húsasmiðjunnar voru seldar árið 2002 á markaðsverði að fengnum tilboðum frá stærstu fasteignafélögum landsins. Allt söluandvirðið var nýtt til að greiða niður skuldir Húsasmiðjunnar. Enginn arður var greiddur út til okkar eins og Ragnar lýsir enda var slíkt óleyfilegt samkvæmt lánasamningum félagsins. Þetta má glöggt sjá í ársreikningi Húsasmiðjunnar fyrir árið 2002.
Ragnar furðar sig á því af hverju Landsbankinn hafi ekki kært okkur til lögreglu fyrir meðferð okkar á Húsasmiðjunni. Á því er einföld skýring. Landsbankinn fjármagnaði ekki kaup okkar á Húsasmiðjunni og var ekki einu sinni viðskiptabanki félagsins þann tíma sem við vorum hluthafar. Hartnær fimm ár liðu frá því að okkar afskiptum af Húsasmiðjunni lauk að fullu þar til hún lenti „í faðmi“ bankans eins og Ragnar orðar það. Skuldir félagsins voru þá fjórfalt hærri en þegar við seldum það í ársbyrjun 2005. Í millitíðinni ráku aðrir félagið en við.
Engir opinberir sjóðir, eða nokkrir aðrir, hafa tapað fé vegna viðskipta okkar. Dylgjur Ragnars um að Þorbjörg Helga sé ,,...ekki eini stjórnmálamaðurinn sem hafi efnast vegna athafnasemi maka, á kostnað opinberra sjóða eru því ekki einungis ósmekklegar heldur algjörlega tilhæfulausar. Ragnar gerir bæði stjórnmálastörf hennar og launalaust leyfi tengt fæðingarorlofi tortryggilegt og skorar á landsfund Sjálfstæðisflokksins að taka hart á fólki af hennar sauðahúsi. Ragnar skuldar Þorbjörgu Helgu afsökunarbeiðni.
Ragnar Önundarson er annars helst þekktur fyrir að hafa endað tölvupósta sína til keppinauta með orðunum „delete samdægurs“ þegar hann var forstjóri Kreditkorta hf. Við hvetjum lesendur Morgunblaðsins til að fylgja þessum leiðbeiningum Ragnars þegar kemur að skrifum hans sjálfs.
Höfundar eru fjárfestar.