Ingveldur Geirsdóttir
ingveldur@mbl.is
Sláturtíðin er nú í hámarki og gengur vel. Fallþungi dilka er þó ívið lakari en á sama tíma í fyrra hjá flestum sláturstöðvum. Kalt vor um allt land og eldgos á Suðurlandi eru taldir helstu orsakavaldar þess. Hvít jörð á Norðurlandi í gærmorgun á heldur ekki eftir að hjálpa til, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar, vinnslustjóra starfsstöðvar Norðlenska á Húsavík.
„Efst í Bárðardal og í Mývatnssveit var 10-12 cm snjólag í morgun sem þýðir að beit er lítil. Féð er úti en það stendur bara og gerir ekki neitt,“ sagði Sigmundur síðdegis í gær. „Bændur eru að ýta á að komast fyrr að með féð en áætlunin er mjög þétt hjá okkur og erfitt að bæta í hvern dag. Það var vitað að fallþunginn myndi minnka er liði á sláturtíðina en þetta veðurfar hjálpar ekki til.“
Fallþungi dilka á Húsavík er rétt um 16 kg núna en var í fyrra rúm 16 kg. Sigmundur gerir ráð fyrir að meðalviktin minnki um 500 g milli ára. Eftir gærdaginn var búið að slátra 45.000 dilkum og er búist við að 32.000 verði slátrað til viðbótar.
Lítið af Íslendingum í sláturtíð
Hjá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi var búið að slátra 45 þúsund dilkum eftir gærdaginn. Einar Hjálmarsson stöðvarstjóri segir lömbin koma ljómandi vel út. „Meðaltalsþunginn er 15,7 kg. Það er aðeins lakara en á sama tíma í fyrra. Bændur senda alltaf vænstu lömbin fyrst svo við eigum líklega eftir að sjá þessa tölu fara eitthvað niður.“Einar segir svolítið af Íslendingum starfa við sláturtíðina en annars séu níu Nýsjálendingar við störf og þrjátíu og tveir Pólverjar, sumir að koma í fjórða og fimmta skipti.
Það er aðeins hjá SAH afurðum á Blönduósi sem meðalfallþunginn er meiri en í fyrra. Er nú 16,5 kg en endaði í 16,1 í fyrra. Búið var að slátra 58.000 fjár eftir daginn í gær, að sögn Gísla Garðarssonar sláturhússtjóra. Býst hann við að heildartalan fari í um 100.000 sem er aukning um sjö til átta þúsund fjár frá því í fyrra. Í sauðfjárslátruninni á Blönduósi vinna aðallega Pólverjar og Nýsjálendingar.
Hjá Sláturfélagi Vopnfirðinga er búið að slátra um 17 þúsundum fjár það sem af er sláturtíð en búist er við að talan endi í 29 þúsundum. Þórður Pálsson, framkvæmdastjóri sláturhússins, segir lömbin vera aðeins léttari en í fyrra. „Meðalfallþungi er um 15,8 kg sem er um 200 g minna en í fyrra. Kalt vor hefur sitt að segja, sérstaklega hvað lömbin eru misjöfn á milli framleiðenda, enda fengu bæir misjafnt á sig af snjó og krapa í vor,“ segir Þórður.
Tólf útlendingar vinna við sauðfjárslátrunina á Vopnafirði, frá Svíþjóð, Lettlandi og Nýja-Sjálandi.
Lambakjöt
» Meðalfallþungi dilka er nú, á hámarki sláturtíðar, 15,7-16,5 kg. Hjá flestum er það aðeins lakara en á sama tíma í fyrra.
» Hjá Norðlenska gengur salan á fersku lambakjöti mjög vel og er mun meiri en í fyrra.