[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórnendur Toyota eru um þessar mundir að stokka spilin og hyggjast fara nýjar leiðir í hönnun bíla sinna.

Stjórnendur Toyota eru um þessar mundir að stokka spilin og hyggjast fara nýjar leiðir í hönnun bíla sinna. Nýr yfirhönnuður Toyota lét hafa eftir sér á bílasýningunni í Frankfurt í Þýskalandi á dögunum að látið yrði af næsta afturhaldssamri og dirfskulausri stefnu í hönnun bíla. Nú tæki við ágengari og framúrstefnulegri lína. Margir munu líklega fagna þessari stefnubreytingu sem yfirhönnuðurinn nýi, Dezi Nagaya, kynnti og fáir munu líklega sjá eftir svipleysinu sem hefur einkennt þessa bíla undanfarin ár.

Kraftur og sport

Dezi boðaði sterkari línur, kraftalegri og sportlegri og mikla djörfung. „Við höfum undanfarið drepið niður tilfinningar í hönnun Toyota, en það mun breytast,“ sagði Dezi. „Hönnun okkar hefur vantað spennu, bílarnir hafa eiginlega verið vöðvalausir og tæplegast runnið í þeim blóð. Hönnunin hefur í besta falli flokkast sem vingjarnleg og sannarlega hófsamleg.“

Það kemur kannski ekki á óvart að þessi orð komi frá manni með sítt hár og klæddum eins og hann sé á leiðinni á rapptónleika með hinum unglingunum. Dezi, bara með útliti sínu, markar nýja stefnu í því hvernig Toyota vill að heimsbyggðin sjái fyrirtækið. Nú skal látið af látleysinu. Hann nefndi að fyrsta dæmið um nýja tíma væri FT-86 sportbíll Toyota sem fyrirtækið setur á markað á næsta ári.

Halda heildareinkennum

Dazi gerir sér grein fyrir að erfitt verði fyrir suma trygga kaupendur að samþykkja djarfari hönnun. Nefnir hann þar sem dæmi Camry- og Prius-bíla en við hönnun þeirra var farin hófsamleg skynsemisleið. Þessum kaupendum gæti reynst erfitt að samþykkja nýtt útlit en á móti væri Toyota að draga að aðra kaupendur sem líkar djörf hönnun. Toyota mun engu að síður leitast við að halda heildareinkennum á bílum sínum og spennandi verður að sjá hvaða einkenni mun halda bílunum saman sem einni fjölskyldu. Skyldi það verða fólgið í útfærslunni á grillum þeirra eins og svo algengt er í bílaheiminum? Eða, eins og Dazi orðar það: „Ef fimm atriði eru sameiginleg í útliti Prius, Camry, Land Cruiser og FT-86 getur útlit þeirra að öðru leyti verið gjörólíkt.“

Stöðugar endurbætur

„Það er rétt að Toyota hefur farið rólega í útlitsbreytingar og verið að því leyti íhaldssamt. Breytingar hafa ekki verið gerðar breytinganna vegna og við sjáum bíla eins og Land Cruiser ekki taka neinum stökkbreytingum í útliti þó að stöðugt sé verið að endurbæta bílinn,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota.

„Það er rétt að nú sjáum við meiri dirfsku framundan í hönnun nýrra bíla og FT-86 er gott dæmi um það. Við bíðum spennt eftir þessum bíl sem væntanlegur er í byrjun næsta sumars og raunar eru margar fleiri nýjungar væntanlegar frá Toyota á ári komanda.“

finnurorri@gmail.com/ sbs@mbl.is