Björn Thomas Valgeirsson fæddist í Reykjavík 14. september 1933. Hann lést á Landakotsspítala 19. september 2011.

Útför Björns fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 30. september 2011.

Fáir menn voru flottari en Bjössi frændi eins og hann var ávallt kallaður í fjölskyldunni. Sannkallað glæsimenni, herðabreiður, hár og grannur. Þrátt fyrir að vera að nálgast áttrætt bar hann sig ákaflega vel.

Dökkt hárið silfurskotið og krullað og alltaf var hann flottur í tauinu og skórnir vel pússaðir.

Bjössi spilaði svo vel á píanó að hrein unun var að. Hvort sem hann lék dinnertónlist af bestu gerð við hátíðleg tilefni eða þegar hann spilaði jólalögin fyrir okkur krakkana þegar við dönsuðum kringum jólatréð á Laufásveginum hjá ömmu og afa fyrir margt löngu.

Þótt hægt sé að segja að hann hafi verið frekar dulur var hann velviljaður og góður maður sem bjó yfir listrænum hæfileikum.

Komu þeir skýrt í ljós í þeim ótal ljósmyndum sem hann tók alveg frá unga aldri. Ljósmyndir þar sem auga listamanns kom við sögu.

Ljósmyndir sem margar eru í miklu uppáhaldi í fjölskyldunni.

Kveð ég föðurbróður minn með þökk fyrir allt og allt.

Rannveig Hallvarðsdóttir.