Álögur Stjörnvöld hafa hækkað álögur á fjármálafyrirtæki á árunum eftir hrun.
Álögur Stjörnvöld hafa hækkað álögur á fjármálafyrirtæki á árunum eftir hrun. — Morgunblaðið/Ómar
Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Opinber gjöld á fjármálafyrirtæki hafa aukist mjög síðustu ár og eru nú hærri en árin 2006 og 2007, þegar bankakerfið var mun stærra í sniðum en það er núna.

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Opinber gjöld á fjármálafyrirtæki hafa aukist mjög síðustu ár og eru nú hærri en árin 2006 og 2007, þegar bankakerfið var mun stærra í sniðum en það er núna. Sem kunnugt er stendur til að leggja sérstakan skatt ofan á launagreiðslur fjármálafyrirtækja, en í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að hann verði 10,5%. Samkvæmt útreikningum Samtaka fjármálafyrirtækja myndi sá skattur auka gjöld aðildarfélaga samtakanna um 4,5 milljarða króna á næsta ári.

Eins og fram hefur komið hefur afkoma bankanna mjög litast af endurmati á útlánasöfnum undanfarin misseri. Samtals nam virðishækkun yfirtekinna útlána 78 milljörðum króna á síðasta ári, eða tæpum 40% af hreinum rekstrartekjum. Samkvæmt skýrslu Bankasýslunnar fyrir árið 2010 var arðsemi reglulegs rekstrar tveggja af þremur stóru bönkunum langt undir arðsemiskröfu stofnunarinnar; 7,3% hjá Arion banka og 5,3% hjá Landsbanka.

Því blasir við að ef rekstur bankanna stendur ekki undir auknum opinberum gjöldum mun áhrifa þeirra fyrst og fremst gæta í auknum vaxtamun í fjármálakerfinu – hærri útlánsvöxtum – eða harkalegri hagræðingu. 2