[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónatan Þór Magnússon var markahæstur hjá Kristiansund með sjö mörk þegar liðið tapaði fyrir Falk Horten, 24:17, á útivelli í næst efstu deild norska handknattleiksins. Ragnar Hjaltested var ekki í leikmannahópi Kristiansund að þessu sinni.
J ónatan Þór Magnússon var markahæstur hjá Kristiansund með sjö mörk þegar liðið tapaði fyrir Falk Horten, 24:17, á útivelli í næst efstu deild norska handknattleiksins. Ragnar Hjaltested var ekki í leikmannahópi Kristiansund að þessu sinni. Sigurgeir Árni Ægisson var fastur fyrir í vörn liðsins sem Gunnar Magnússon þjálfar. Liðið hefur tvö stig að loknum tveimur leikjum.

Kristján Halldórsson verður eftirlitsmaður á leik Eskilstuna Guif og Ska Minsk í EHF keppni karla í handknattleik en leikurinn fer fram á sunnudaginn í Eskilstuna. Kristján Andrésson er þjálfari Guif og Haukur bróðir hans er einn leikmanna liðsins.

Franski körfuknattleiksmaðurinn Tony Parker hefur ákveðið að leika með Asvel Villeurbanne-Lyon næstu vikurnar hið minnsta eða á meðan ekki verður séð fyrir endann á deilu í NBA-deildinni. Fulltrúar leikmanna og stjórnenda NBA-deildarinnar hittust í fyrrakvöld en ekkert þokaðist í átt til samkomulags á þeim fundi.

G areth Bale , kantmaðurinn öflugi hjá Tottenham, hefur verið útnefndur knattspyrnumaður ársins í Wales og er þetta annað árið í röð sem hann hlýtur þessa viðurkenningu. Bale er 22 ára gamall og hefur leikið 30 landsleiki fyrir þjóð sína en hann hefur verið í stóru hlutverki í leikjum Walesbúa ásamt því að vera lykilmaður hjá Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.

Sven-Göran Eriksson , knattspyrnustjóri Leicester City og fyrrum landsliðsþjálfari Englands, kveðst vongóður um að fá David Beckham til félagsins þegar samningur hans við LA Galaxy í Bandaríkjunum rennur út í næsta mánuði. Eriksson hefur rætt við Beckham. Fleiri félög eru hinsvegar um hituna, jafnt á Englandi sem og á meginlandi Evrópu.

J osé Mourinho , þjálfari Real Madrid, hefir verið úrskurðaður í tveggja leikja bann í spænsku knattspyrnuunni vegna þess að hann potaði í augað á Francesc „Tito“ Vilanova , aðstoðarþjálfara Barcelona, þegar upp úr sauð í viðureign liðanna í meistarakeppninni á Spáni við upphaf leiktíðar. Vilanova var úrskurðaður í eins leiks bann fyrir að snúast til varnar við árás Mourinho . Þá voru hvor þjálfari og félag hans sektuð um 690 evrur, jafnvirði 110 þúsund króna.

Þýska handknattleikskonan Grit Jurack hefur ákveðið að leika ekki með landsliðinu á heimsmeistaramóti í Brasilíu í desember. Jurack , sem er 33 ára gömul, er leikreyndasta handknattleikskona Þýskalands og á að baki 305 landsleiki sem hún hefur skorað í 1.579 mörk. Hún hefur m.a. fimm sinnum verið valin handknattleikskona ársins í heimalandi sínu. Þýska landsliðið verður með íslenska landsliðinu í riðli á heimsmeistaramótinu.