Tónlistarmaðurinn Glen Campbell hefur verið lengi að, hálf öld er frá því hann hóf upp raust sína. Nú er komið að leiðarlokum því hann hefur lýst því yfir að Ghost on the Canvas sé kveðjuskífan, enda hefur hann greinst með elliglöp.
Þó að byrjunin á Ghost on the Canvas sé lágstemmd, bara kassagítar og einlæg rödd er Campbell ekkert að breyta um stíl svona að skilnaði; strax í næsta lagi birtast fleiri hljóðfæri, syngjandi kántrígítarar og sykraðir strengir. Vindur svo fram út plötuna – víst er hann að kveðja, en hann gerir það á sama hátt og hann hefur skemmt aðdáendum sínum í gegnum árin. Það er helst í textunum sem Campbell veltir fyrir sér óminninu sem bíður hans, en það er svo sem ekki nýlunda heldur að hann syngi um dauðans óvissu tíma og breyskleika sinn, slíkt og þvílíkt hefur hann gert að segja út ferilinn og er líka til siðs í þeirri tónlistarhefð sem hann er sprottinn úr.
Árni Matthíasson