— Páll Ketilsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er erilsamt í starfi Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, enda margvísleg mál sem takast þarf á við á hverjum degi. Árni er ekki svartsýnn og telur að landið sé að byrja að rísa á ný suður með sjó þótt hægt gangi. Þegar Árni kemst úr vinnu er hann matgæðingur og sannur fjölskyldumaður.

Það er margt í gangi og í mörg horn að líta í mínu starfi. Vinnudagarnir eru oft langir og stundum renna saman dagur og nótt. Vinnan er þó skemmtileg að því leyti að maður horfir alltaf fram á að uppskera þótt það taki langan tíma. Sú tilhugsun er góð,“ segir Árni þegar hann er spurður um starfið. „Stundum finnst mér umræðan helst til svört sem stafar af því að þeir sem blogga um bæjarfélagið horfa mjög pólitískt á okkur. Ýmist vegna álversframkvæmda eða brotthvarfs hersins. Allt sem miður fer hér verður að versta máli en á öðrum stöðum væri því sýndur skilningur. Margt gott fólk hugsar þó vel til okkar og þess vegna höfum við ekki áhyggjur,“ segir Árni.

„Ég hef gaman af því að fást við mat og borða hann. Ég hef unun af íslenskum hefðbundnum mat og er í félagsskap sem heitir Hamsarnir með tilvísun í hamsatólg. Þetta er félagsskapur karla en fæstir okkar mega lengur háma í sig, enda komnir á virðulegan aldur. Nafnið á félagsskapnum er bæði viðvörun en um leið yfirlýsing um að við höfum ánægju af að borða sauðakjöt, síldarbollur, gellur í brúnni sósu með lauk, kinnfisk og að halda sviðaveislur. Við félagarnir hittumst mánaðarlega og höldum jafnvel neyðarfundi ef einhver er á leið til útlanda. Þessi félagsskapur höfðar ekki mikið til kvenna,“ segir Árni. „Bæði eiginkona mín og dætur eru miklir matargerðarsnillingar en þar er hollustan höfð í fyrirrúmi,“ bætir hann við.

Þegar Árni er spurður hvort hann eldi sjálfur svarar hann því til að ekki gefist mikill tími til þess. „Á meðan börnin voru heima lögðum við ríka áherslu á að hafa alltaf kvöldmat þar sem allir kæmu saman. Einnig vorum við með fjölskyldukvöld á þriðjudögum en þá hjálpuðust allir að í eldhúsinu. Það lukkaðist sérstaklega vel og hefur gert það að verkum að það er mikill áhugi á matargerð í fjölskyldunni. Yngsti sonurinn, Sigfús, er t.d. sérfræðingur í að gera Crème brûlée og stelpurnar eru afar snjallar í að gera tilraunir í eldhúsinu,“ segir Árni sem á fjögur uppkomin börn en þau hjónin eru tvö eftir á heimilinu. „Þegar fjölskyldan kemur saman taka allir þátt í matseldinni sem er virkilega skemmtilegt,“ segir hann.

Árni segir að eiginkonan, Bryndís Guðmundsdóttir, vinni einnig mikið og sé í stórum verkefnum á sínu sviði. „Þess vegna er ekki mikið um matarboð eða þess háttar nema með fjölskyldunni.“ Árni fer oft í innkaup fyrir heimilið, helst í Bónus eða Nettó en einnig í fiskbúðina við Hringbraut. „Þar fær maður nýjan fisk sem við erum oft með á borðum.“ Árni gefur hér uppskrift af sérstæðum lambakjötsrétti. elal@simnet.is

Íslenskt Lamb Shawarma

Shawarma er tyrkneska og þýðir „snúningur“. Lambið er marínerað í 24 klst. og svo hægeldað á snúningshjóli. Við höfum breytt þessari aðferð í ofnbakað íslenskt lamb. Ef heilt lambalæri er eldað þarf ad hægelda það á vægum hita í ca 4 til 5 klst.

Ef lambafille eða kássukjöt er notað er aðferðin mun fljótlegri. Þessi aðferð er frábær í pítu með tahini sósu (sesam paste).

Ca 900 g lambafille eða lambakjöt sem notað er í kássur, skorið í stóra teninga, ca 4-5 cm á báða vegu.

EÐA heilt lambalæri. (Passa að lambið sé á stofuhita þegar maríneringin hefst)

góð olífuolía

steinselja

salt og pipar

tabasco-sósa

Krydd og innihald fyrir marineringu (sjá að neðan)

Marínering

3 hvítlauksgeirar, pressaðir

½ teskeið cayenne pipar

½ teskeið paprikuduft

½ teskeið kanill

½ teskeið cumin

¾ teskeið mace (múskathýði, mjög mikilvægt)

¾ teskeið salt

½ sítróna, safi úr sítrónunni

½ – 1 bolli grísk jógúrt eða hrein jógurt.

Láta marínerast í kæli í 24 klst.

Sósan – Dressing

½ hvítlauksgeiri, pressaður

1 matskeið safi úr sítrónu

2 matskeiðar tahini-sósa (sesam pase)

2 matskeiðar vatn

smá salt

Blanda öllu vel saman og smakka til, það má mýkja sósuna með því að blanda smá jógúrt út í.

(Alltaf sama magn af vatni á móti tahini-sósunni)

Aðferð við lambabitana

Hita ofninn í 200°C. Leggið lambabitana á álpappír á ofnplötu og bakið ofarlega í 5 mínútur, snúa svo bitunum við og baka í aðrar 5 mínútur (fyrir lamb sem er bleikt). Láta lambið standa aðeins. Saxa bitana niður í „shreds“ (ræmur), setja í skál, salta og pipra örlítið, setja smá tabasco yfir, ef vill, handfylli af steinselju og 2 matskeiðar af góðri olífuolíu. Hita pönnu (án olíu) og þurrsteikja lambaræmurnar snögglega. Þetta ýtir undir öll kryddin. Berið fram í salati eða í pítubrauði með tahini sósunni (sjá aðferð að ofan)

Aðferð fyrir heilt læri;

Hitið ofninn í 120-130 gráður. Leggið lambið fyrir miðju og hægeldið það í 4-5 klst. eða eftir smekk.

Berið fram niðursneitt (sjá að ofan nr 3), eða heilt með hrísgrjónum, tahini sósunni og salati.

Innkaupakarfan

• Pepsi max

• Bananar

• Salat

• Létt AB-mjólk

• Múslí