Það voru mikil tíðindi þegar ljóst varð að ekki einn einasti dómari af 15 í Landsdómi taldi að tvö veigamikil ákæruatriði Alþingis væru tæk til efnisdóms

Rannsóknarnefnd Alþingis heyktist á fyrirætlunum sínum um að veita Alþingi álit á því hvort efni stæðu til þess að draga rykfallin ákvæði um Landsdóm fram og ákæra ráðherra, einn eða fleiri, vegna meintrar hlutdeildar í falli íslenska bankakerfisins. Nefnd á vegum Alþingis fékk það verkefni að leggja mat á störf og niðurstöður fyrri nefndarinnar og skila frá sér niðurstöðum og tillögum. Sú nefnd reis ekki undir sínu verkefni og lét sér nægja að klippa til efni úr skýrslunni sem hún átti að skoða og skeyta því saman í langan texta, sem lítið gagn var að. Nefndarmenn töluðu í framhaldinu mjög um sína miklu vinnu við verkið, svo helst minnti á hinar hvimleiðu ræður Steingríms J. Sigfússonar um sig og sinn dugnað og þreytuna sem af honum hefur leitt.

En eina vinnan og eina sjálfstæða framtak meirihluta hinnar verklitlu nefndar þingsins beindist að því að draga tiltekna ráðherra fyrir Landsdóm. Þess var síðan gætt við framkvæmd atkvæðagreiðslu um það hugðarefni að telja sauði svo að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði örugglega einn látinn sitja uppi með Svarta Pétur þessa spilverks. Einkar ógeðfellt var að horfa á framgöngu einstakra þingmanna í því máli.

Nú hefur Landsdómurinn vísað frá, að kröfu lögmanns Geirs, tveimur veigamiklum liðum ákærunnar á hendur honum með vísun til þess að þeir væru ekki tækir til að hljóta þar efnislega meðferð. Nú er það svo að ástæður þess að Landsdómurinn tók þessa afstöðu eru ekki nýtilkomnar. Þær lágu allar fyrir og blöstu við öllum þegar hinir hatursfullu þingmenn, sem í hlut áttu, báru fram eða samþykktu ákæruliðina. Þetta voru ekki leyndir gallar. Og á þá var bent. Þess vegna er skömm þeirra sem skipuðu sér í sæti ákærandans í málinu svo mikil núna.

Ákæruliðir sem eru svo meingallaðir að þeir geta þegar af þeirri ástæðu ekki hlotið efnismeðferð mega aldrei leiða til ákæru. Í 15 manna dómi, langfjölmennasta dómstól sem nokkru sinni hefur fellt dóm eða úrskurð síðan landið fékk stjórn eigin mála í hendur, var ENGINN dómari sem taldi að ákæruliðirnir tveir fengju staðist. Sú niðurstaða er þungur áfellisdómur yfir ákærandanum, nafngreindum einstaklingum í meirihluta á Alþingi.

Við þetta bætist að þeir ákæruliðir sem eftir standa og geta gengið til efnismeðferðar virðast bera með sér að ekki sé hægt að vænta annars en sýknudóms vegna þeirra.

Flestum var löngu orðið ljóst að þessi málatilbúnaður allur á hendur Geir H. Haarde var af pólitískri rót runninn og sem slíkur lýðræðislegt feigðarflan. Þegar nú liggur fyrir til viðbótar hvert er álit 15 dómara í Landsdómi á drjúgum hluta á málatilbúnaðinum, þá ættu allir að geta stutt nú þegar ákvörðun um að skrípaleiknum linni.

Ákærandi máls getur hvenær sem er séð að sér og er í raun skyldugur til að gera það ef fram kemur að ákæra hans er gölluð, svo ekki sé talað um standi hún á brauðfótum. Dómstólar, og allra síst Landsdómur, eru ekki tilraunaeldhús hatursfullra stjórnmálamanna sem sjást ekki fyrir í ofsa sínum. Ákærandinn í Landsdómsmálinu, meirihluti alþingis, ætti því, eftir þau þáttaskil sem orðið hafa, að sjá sóma sinn í að hætta hinum ógeðfellda leik, sem skaðar ímynd laga og réttarfars í landinu.