[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú eðla hljómsveit Greifarnir heldur afmælis- og útgáfutónleika í Austurbæ í kvöld. Sveitin verður 25 ára og sendir frá sér þriggja diska safnplötu.

Sú eðla hljómsveit Greifarnir heldur afmælis- og útgáfutónleika í Austurbæ í kvöld. Sveitin verður 25 ára og sendir frá sér þriggja diska safnplötu.

Forsprakki sveitarinnar Kristján Viðar Haraldsson, eða Viddi eins og hann er yfirleitt kallaður, settist niður og deildi nokkrum leyndarmálum með lesendum

1. Uppáhaldsstaður minn á Íslandi er Ásbyrgi. Kom þar í fyrstu skiptin mjög ungur með foreldrum mínum og langar alltaf þangað aftur. Þar hef ég alltaf fundið mikla kyrrð og innri frið.

2. Ég kynntist konunni minni á blindu stefnumóti á Austur-Indíafélaginu 18. júlí árið 2000. Við förum þangað að borða á þessum degi á hverju sumri ef þess er kostur.

3. Mestu áhrifavaldar mínir í tónlist eru án efa Bítlarnir.

4. Ég hef alltaf haft mjög gaman af íþróttum og spila í dag fótbolta tvisvar í viku. Mín aðalíþrótt hefur samt lengst af verið borðtennis. Unnið til fjölda verðlauna í þeirri íþrótt, spilað 20 landsleiki og þjálfað mörg félagslið og flest landslið Íslands í borðtennis.

5. Ég veiktist árið 2004 en ekkert fannst að mér þó svo að einkennin væru miður skemmtileg. Eftir erfiðan tíma endaði ég í mjög krefjandi og dýru fjögurra ára námi í Barbara Brennan School of Healing í Flórída í Bandaríkjunum og starfa nú sem Brennan-heilari.

6. Ég hef samið lög og tónlist frá því ég var 10-11 ára gamall. Í mörg ár samdi ég minnst tíu lög á dag.

7. Ég hef mjög gaman af því að ferðast og elska að koma á framandi staði, komast í kynni við framandi mannlíf og menningu.

8. Ég hef farið tvisvar sinnum með íslenska hópnum í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva sem bakraddasöngvari. Það var mjög gaman og hefur það verið á stefnuskránni síðan að taka þátt sem lagahöfundur en hef ekki gert það ennþá.

9. Það rómantískasta sem ég veit er að horfa á sólarlagið og þá helst með einhverjum sem mér þykir vænt um. Sólarlagið er óvíða fallegra en á Húsavík þar sem ég ólst upp.

10. Ég kann ekkert að spila á gítar þó svo að það hafi verið lengi á stefnuskránni að læra á það skemmtilega hljóðfæri.

11. Fyrstu árin með Greifunum var ég mjög óstyrkur og kvíðinn áður en ég fór á svið. Ég var oft með svo mikinn hnút í maganum að ég varð að passa mig að borða ekkert eða mjög lítið svona klukkutíma áður því annars ældi ég.

12. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ræktun. Ég held að það sé vegna áhrifa frá móðurbróður mínum sem átti mikinn og fallegan garð í Garðabænum þar sem hann ræktaði allskonar jurtir.

13. Ég er afskaplega mikill matmaður. Mér þykir gaman og gott að borða góðan mat. Ég er nú samt frekar viðkvæmur fyrir sumum mat og verð oft að passa mig hvað ég læt ofan í mig.

14. Þegar ég var nýbyrjaður í skóla vildu skólayfirvöld að mamma færi með mig til læknis vegna þess að röddin mín var svo djúp og hás. Læknirinn fann auðvitað ekkert að röddinni en sagði að einhver yrði að syngja bassann.

15. Ein mín besta æskuminning er að liggja uppi í rúmi að fara að sofa og hlusta pabba spila á harmonikkuna á neðri hæðinni. Pabbi var mjög góður harmonikkuleikari og hafði án efa mikil áhrif á það að ég varð tónlistarmaður. Pabbi féll frá þegar ég var 25 ára gamall. Sú lífsreynsla var erfið en ákaflega dýrmæt um leið.

ai@mbl.is