Michael Thomas Gaskell fæddist 7. febrúar 1931 í Brighton á Englandi og lést á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði 18. ágúst sl.

Thomas faðir hans var einn 13 systkina. Hann fæddist og ólst upp í Zimbabwe í í Afríku. Faðir hans, William Thomas Gaskell, var enskur, en móðirin, Hanna van der Westhuizen, var frá Hollandi. Thomas flutti til Englands sem ungur maður og vann fyrir sér sem bryti á stóru sveitaheimili. Þar kynntist hann Winifred Maude Compton heimilisþernu. Michael var elstur sex barna þeirra og eru nú þrjú þeirra á lífi, Peter sem býr í Manchester, Roger og Jean, búsett í Leicester.

Michael Thomas lætur eftir sig tvær dætur. Þær eru:

a) María er fyrrverandi organisti og tónlistarkennari á Seyðisfirði en kennir nú við International School í Genf í Sviss, gift Jóhanni Frey Aðalsteinssyni, starfsmanni EFTA í Genf. Börn þeirra eru Freyja María og Thomas Freyr. Jóhann á fyrir Orra Frey og Bárð Jökul.

b) Michelle, fyrrverandi tónlistarkennari í Vestmannaeyjum, búsett á Englandi.

Michael flutti með fjölskyldu sinni frá Brighton til Leicester í East Midlands þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst. Michael lauk grunnskólanámi 16 ára og hóf nám í rafmagnsverkfræði. Hann var kallaður til tveggja ára þjónustu í National Service innan breska hersins en allir ungir karlar urðu að hlýða því kalli á þeim árum. Hann var sendur í herstöð Konunglega flughersins í heimalandinu þar sem hann hlaut þjálfun í flughermum. Seinna var hann við störf í Egyptalandi og á Möltu. Eftir að stríðinu lauk sneri hann aftur heim og starfaði sem tækniteiknari hjá ýmsum verkfræðistofum í Leicester. Árið 1960 gekk hann í hjónaband með samstarfskonu sinni, June Christine Appleby. Þau bjuggu lengst af í Oakham í Rutland-sýslu.

Michael vann árum saman hjá fyrirtæki sem framleiddi rafala. Hann sneri sér svo að hönnum vindhverfla en starfaði því næst við tækniteiknum fyrir ýmis fyrirtæki.

Meðfram þessu starfaði hann sem kirkjuorganisti í 25 ár en hann hafði lært á píanó sem drengur.

Árið 1994 flutti María dóttir hans til Íslands og vann sem tónlistarkennari á Seyðisfirði. Michelle systir hennar flutti líka til Íslands og eftir að June móðir þeirra lést flutti Michael einnig til Íslands og settist að á Seyðisfirði árið 2000. Hann keypti sér hús á Seyðisfirði, átti þar marga góða daga og fylgdist með barnabörnum sínum vaxa úr grasi. Hann lærði ekki að tala íslensku en gat samt tjáð sig við vini og nágranna og tekið þátt í félagsstarfi fyrir austan. Hann veiktist í mars, skömmu eftir áttræðisafmælið, og var lagður inn á sjúkrahús Seyðisfjarðar þar sem hann lést hinn 18. ágúst.

Minningarathöfn um hann fer fram í Oakham Congregational Church í Rutland í dag, 6. október 2011 og hefst athöfnin kl. 11.30 að staðartíma.

Glöggt er gests augað, segir máltækið og það átti vissulega við um Michael sem heillaðist af Íslandi eftir að hann hafði heimsótt það ásamt June konu sinni á síðasta áratug liðinnar aldar. Fljótlega eftir að June féll frá 1998 flutti hann til Seyðisfjarðar til að vera nálægt Maríu dóttur sinni, Jóhanni Frey tengdasyni sínum – og fóstursyni mínum – og börnum þeirra Freyju Maríu og Tómasi Frey. Hann var í daglegu sambandi við þau í bænum fagra undir háum hlíðum austfirskra fjalla. Honum leið vel á Seyðis eins og hann kallaði staðinn. Honum fannst allt best á Íslandi, loft og vatn, land og fólk.

Hann fór í heimsókn til Englands fyrir nokkrum árum og lenti þá á sjúkrahúsi og þar minnti hann gesti og gangandi á að Ísland væri framar öllum löndum á svo mörgum sviðum.

Hann komst upp á lag með það að nota tölvu á áttræðisaldri og tala við Michelle dóttur sína á Englandi á Skæpinu og þegar María og Jóhann fluttu til Genfar ásamt börnum sínum, hélt hann sambandi við þau með sama hætti. Hann fylgdist líka með flugvélum og skipum á netinu, las fréttir að heiman og horfði á sjónvarpsútsendingar.

Ástríða hans var að hafa reglu á sínu lífi. Hann var bæði rafvirki og tækniteiknari að mennt og í þeim greinum þarf allt að vera nákvæmt og samkvæmt reglum. Tónlistin var honum mikilvæg og árum saman lék hann á orgelið við messur í heimakirkju sinni ytra. Tónlistin krefst nákvæmni og hún féll því vel að karakter hans.

Skömmu áður en hann dó sagði hann mér að hann hefði gengið til altaris vikulega í áratugi þangað til hann kom til Íslands. Íslensk sveitakristni hefur um langan aldur verið fremur sparsöm á kvöldmáltíðarsakramentið en kirkjur á höfuðborgarsvæðinu hafa sumar tekið upp að syngja messu hvern helgan dag og hafa um hönd hið helga sakramenti samstöðunnar þar sem allir taka þátt í veislu himins og eru við sama borð.

Michael var hógvær maður og lét lítið fyrir sér fara en var ávallt glaður og reifur er ég hitti hann eða heyrði í honum í síma eða á Skæpinu. Þegar hann heimsótti okkur Fríðu í Reykjavík gat hann setið tímunum saman við stofugluggann og horft á sjóinn og himininn. Birtan heillaði hann, litirnir og lífríkið. Hann var jafnan til í að spjalla og segja sögur, ríkulega skreyttar smáatriðum og nákvæmum lýsingum.

Hann bar sig vel enda þótt hann sæti einn eftir fyrir austan meðan seyðfirska fjölskyldan hans var að störfum í Genf. Seyðfirðingar voru honum góðir og þjónustan sem hann naut á sjúkrahúsinu þar og hér í borginni síðustu lífdagana var til fyrirmyndar. Hann var Íslendingum og Íslandi þakklátur og dó eftir að dætur hans höfðu vitjað hans á dánarbeði fyrir austan. Fjöllin og fjörðurinn héldu utan um hann síðustu æviárin svo og fólkið fyrir austan og ástvinir hans. Hann var í góðum höndum lands og fólks – og Guðs sem hann treysti.

Guð blessi minningu hans og leiði fólkið hans og verndi um ár og eilífð.

Örn Bárður Jónsson.