Helgi Seljan sendir kveðju til Vísnahornsins: „Eftir útvarpsumræður: Undanvillingar voru þau lömb sem villtust frá mæðrum sínum, þó ekki viljandi. Ég nota það orð um þá er viljandi yfirgáfu það fólk sem kaus þá.

Helgi Seljan sendir kveðju til Vísnahornsins: „Eftir útvarpsumræður: Undanvillingar voru þau lömb sem villtust frá mæðrum sínum, þó ekki viljandi.

Ég nota það orð um þá er viljandi yfirgáfu það fólk sem kaus þá.

Orðanna flóð af flestu bar,

flóði þó yfir barma.

Undanvillingar allir þar

ákaft fengu að jarma.

Töluvert hefur verið rætt og skrafað um gjá milli þings og þjóðar. Friðrik Steingrímsson orti:

Eflum bjartsýn okkar trú,

út á djúpið leggjum,

yfir gjána byggjum brú

úr brotnum hænueggjum.

Kristbjörg F. Steingrímsdóttir bætti við:

Þegar sett er þing á ný

þörf er fyllstu varúðar,

gæta skyldi grannt að því

hvort gjálífi er stundað þar.

Vésteinn Valgarðsson sá í fréttum „að heimskunnur bandarískur ofurhugi hefði svifið vængjum þöndum í gegn um gat í fjalli í Kína (nokkurs konar Dyrhólaey) fyrstur manna, og mun afrek það verða í minnum haft ef fréttamaðurinn var sannspár, en menn leggja jú mikið á sig til að gleymast ekki á endanum. Jæja:

Grimmir dómar gleymskunnar

glepja menn og brýna,

svífa hetjur heimskunnar

um holótt fjöll í Kína.“

Pétur Blöndal pebl@mbl.is