Nýstofnuð hljómsveit stígur á stokk í kvöld á Café Rósenberg kl. 20.30. Sveitin nefnist Blágresi og er skipuð Tinnu Marínu, Daníel Auðunssyni og Leifi Björnssyni. Plata er svo væntanleg í haust.
En föruneytið er stærra, því textahöfundur sveitarinnar er skáldið og rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson og verður hann með upplestur á milli laga. Þá stígur Bjartmar Guðlaugsson á stokk, tekur lagið og segir sögur.
„Þau flytja tónlistina og ég tala úr verkum mínum, flyt sögur og ljóð,“ sagði Einar Már er hópurinn kom saman á Hressó í gær. „Svo er Bjartmar líka með innslög, við víxlum þessu öllu og þetta er blandað á staðnum, eins og malbikið í gamla daga hjá Sverri.“
„Við vinnum úr þeim möguleikum sem eru fyrir hendi,“ bætti Bjartmar við.
„Augnablikið leiðir okkur í gegnum dagskrána, oftast þannig að hvorki við né áhorfendur rönkum við okkur fyrr en tveir tímar eru liðnir,“ heldur Einar Már áfram.
Fyrsta skífa Blágresis er væntanleg í haust, Hvað ef himinninn brotnar. pebl@mbl.is