Taxtinn „Það varð ekki hjá því komist að hækka enda hafa bæði bílar og varahlutir tvöfaldast í verði, og svo auðvitað bensínið sem er okkar stærsti kostnaðarliður,“ segir Ástgeir. Vinnudagur bílstjóranna er oft æði langur.
Taxtinn „Það varð ekki hjá því komist að hækka enda hafa bæði bílar og varahlutir tvöfaldast í verði, og svo auðvitað bensínið sem er okkar stærsti kostnaðarliður,“ segir Ástgeir. Vinnudagur bílstjóranna er oft æði langur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Síðustu þrjú ár hafa ekki verið auðveld fyrir leigubílstjóra. Ástgeir Þorsteinsson, formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, segir eftirspurnina eftir þjónustu leigubíla hafa minnkað um 35% þegar verst lét.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Síðustu þrjú ár hafa ekki verið auðveld fyrir leigubílstjóra. Ástgeir Þorsteinsson, formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, segir eftirspurnina eftir þjónustu leigubíla hafa minnkað um 35% þegar verst lét. „Strax eftir bankahrun kom skörp dýfa og datt gjörsamlega allt niður. Svo skánaði smám saman og strax um sumarið 2009 var ástandið orðið ágætt. En haustið 2009 kom svo stærsti skellurinn. Þrátt fyrir hægfara aukningu er fjarri því jafnmikið að gera nú og var þegar best lét,“ segir hann.

Að sögn Ástgeirs var gott að vera leigubílstjóri árið 2007 og mikla vinnu að fá. Eftir að kreppan knúði dyra hafi bæði fyrirtæki og einstaklingar dregið saman notkun á leigubílum og til viðbótar við það eru fleiri um hituna. „Það eru ákveðnar takmarkanir á fjölda leigubifreiða á hverju svæði, en engu að síður fjölgaði bílum á götunni. Ástæðan var sú að margir höfðu misst fasta vinnu hjá fyrirtækjunum eftir hrun og komu inn á stöðvarnar í fullu starfi.“

Rólegt á virkum dögum

Samdrátturinn segir Ástgeir að sé mestur í akstri í miðri viku. Helgaraksturinn hafi haldið sér nokkuð vel. Fyrirtæki og stofnanir séu hins vegar með skýr fyrirmæli um að spara allan akstur og sendingar og gamla fólkið sem er áberandi kúnnahópur á virkum dögum heldur fastar í krónurnar en áður.

Ofan á allt þetta hafa kostnaðarliðir hækkað verulega og að hluta til skilað sér í hækkuðum taxta, en hjá hverri leigubílastöð starfar sérstök verðlagsnefnd skipuð almennum bílstjórum, sem ákvarða taxta fyrir alla stöðina. „Það varð ekki hjá því komist að hækka enda hafa bæði bílar og varahlutir tvöfaldast í verði, og svo auðvitað bensínið sem er okkar stærsti kostnaðarliður. Við sjáum t.d. að endurnýjun leigubílaflotans hefur dregist mikið saman og þó að eitthvað sé um nýja bíla er það ekkert í líkingu við það sem kalla mætti eðlilega endurnýjun.“

Langir vinnudagar

Kostnaðaraukninguna segir Ástgeir að leigubílstjórar hafi að stórum hluta tekið á sjálfa sig. „Menn vita að ef verðið hækkar of skarpt getur það einfaldlega þýtt minni viðskipti og minni vinnu. Í staðinn reynum við að bæta upp mismuninn með aukinni vinnu og lengri vöktum,“ segir Ástgeir og bætir við að það bjargi þó mörgum að leigubílastéttin sé ekki sett undir kvaðir um hámarksvinnutíma eða lágmarkshvíld. „Flestir ná að lifa af á tekjunum, en það er ekki hægt að segja að leigubílstjórar séu öfundsverðir af þeim kjörum sem þeir hafa um þessar mundir.“

Taxi stundum ódýrari kostur

Það kostar sitt að nota leigubíl en Ástgeir bendir á að þegar dæmið er reiknað til enda getur einkabíllinn líka kostað og komið mjög vel út að nota frekar leigubíl. „Það hefur t.d. verið reiknað út að fyrir dæmigerða fjölskyldu borgi sig betur að nota leigubíla oftar frekar en kaupa bíl númer tvö. En það getur líka verið hagkvæmt að hafa engan bíl á heimilinu, og ekki óalgengt að rekstrarkostnaður við meðaldýran bíl, með bensíni, tryggingu, afföllum og viðhaldi, sé á bilinu hálf til heil milljón á ári. Það má fara ansi margar ferðir með leigubíl fyrir þann pening og mikið hægt að spara ef fólk notar strætisvagna fyrir daglegar ferðir til og frá vinnu eða skóla, og svo leigubíl t.d. þegar helgarinnkaupin eru gerð.“

Á öllu von í bílnum

Starf leigubílstjórans er fjarri því hættulaust. Ástgeir segir að flestar helgar komi eitthvað upp á hjá einhverjum bílstjóra, þó að blessunarlega sé oftast ekki um alvarleg tilvik að ræða. Flestir leigubílar séu í dag útbúnir GPS-kerfi með neyðarhnappi og þarf leigubílstjórinn ekki annað en ýta á takka svo lítið beri á, og er þá von á bæði lögreglu og öðrum leigubílstjórum á staðinn til hjálpar.

„Það er ekki hægt að segja að farþegar hegði sér mikið verr eða betur núna en áður, en það var þó skárra í gamla daga þegar menn voru einfaldlega fullir. Það var þá yfirleitt hægt að tjónka við erfiða kúnna og tala við þá eins og menn. Í dag veit maður hins vegar aldrei í hvernig ástandi farþeginn í aftursætinu kann að vera því meira er um að fólk noti eiturlyf, og erfitt að sjá á einstaklingnum á hverju kann að vera von,“ segir Ástgeir. „Allur þorri farþega er upp til hópa fyrirtaksfólk og ekki með nein vandamál. Því miður virðast hins vegar vondu uppákomurnar, þegar þær henda á annað borð, verða ljótari og ljótari.