— Morgunblaðið/ÞÖK
Rio Tinto Alcan í Straumsvík skrifaði í gær undir kjarasamning við Verkamannafélagið Hlíf, VR, Rafiðnaðarsambandið, VM og Fit. Samkomulagið við stéttarfélögin var undirritað hjá ríkissáttasemjara og hefst kynning meðal rúmlega 400 starfsmanna í dag.

Rio Tinto Alcan í Straumsvík skrifaði í gær undir kjarasamning við Verkamannafélagið Hlíf, VR, Rafiðnaðarsambandið, VM og Fit. Samkomulagið við stéttarfélögin var undirritað hjá ríkissáttasemjara og hefst kynning meðal rúmlega 400 starfsmanna í dag.

Gylfi Ingvarsson, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna Alcan á Íslandi, vildi ekki tjá sig um einstök samningsatriði, en sagðist nokkuð ánægður með útkomuna. „Þetta er einn mesti jafnlaunasamningur sem til er í landinu, “ segir Gylfi.

Lögreglumenn óþreyjufullir

Steinar Adolfsson framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna, segir að ákveðið verði nú í morgunsárið hvort haldinn verði fundur um kjaramál lögreglumanna í dag. Annars verður næsti fundur á mánudaginn. „Þetta þokast áfram. En menn eru orðnir óþreyjufullir og vilja fara að sjá nýjan samning. Aðaláherslan hjá okkur núna er á launaþáttinn og útfærslu á honum,“ segir Steinar. Hann segir lögreglumenn hvergi hafa hvikað frá kröfum sínum. Mikill vilji sé meðal lögreglumanna um að fá verkfallsrétt á ný, en hann var afnuminn árið 1986.