Skálmöld Húsvískur heiðingjametall fer nú sem eldur í sinu um Evrópu.
Skálmöld Húsvískur heiðingjametall fer nú sem eldur í sinu um Evrópu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Málmvíkingarnir í Skálmöld eru þessa dagana á þeysireið um Evrópu undir merkjum farandhátíðarinnar Heidenfest ásamt fimm öðrum málmböndum af áþekkum meiði.

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Málmvíkingarnir í Skálmöld eru þessa dagana á þeysireið um Evrópu undir merkjum farandhátíðarinnar Heidenfest ásamt fimm öðrum málmböndum af áþekkum meiði. Þrjár sveitir til viðbótar slást svo í hópinn um helgar en flösu verður feykt daglega til 23. þessa mánaðar.

Leikar hófust í Geiselwind og Gießen í Þýskalandi en þaðan lá leiðin til Berlínar og pólsku borganna Varsjár og Krakár, þar sem Skálmöld var niðurkomin þegar Morgunblaðið náði tali af Snæbirni Ragnarssyni bassaleikara.

„Það eru fjögur gigg að baki og þetta hefur gengið vonum framar, fullt út úr dyrum og við merkjum ekki annað en fólk fíli okkur ágætlega,“ segir Snæbjörn og bætir við að ljúft hafi verið að heyra í lýðnum þegar stigið var af sviði í Varsjá – „Skolmúld! Skolmúld!“

„Við erum ekki stærsta númerið hérna en það er alltaf gaman að sjá einn og einn í Skálmaldarbol í mannfjöldanum. Tæknimennirnir, sem fylgja okkur, hafa líka verið mjög jákvæðir í okkar garð. Enginn okkar hefur tekið þátt í tónleikaferð af þessu kaliberi og við erum staðráðnir í að skemmta okkur.“

Skálmöld fer á svið um klukkan þrjú síðdegis um helgar en sex síðdegis á virkum dögum, eigi að síður eru málmþyrstir áhorfendur löngu búnir að taka sér stöðu. „Hér mæta menn á réttum tíma og halda hvergi aftur af sér enda þótt það sé mánudagur,“ segir Snæbjörn en þúsund manns að meðaltali hafa hlýtt á Skálmöld leika til þessa.

Hvað er eiginlega í matinn?

Hann segir lítinn mun á því að standa á sviði í Þýskalandi og Póllandi en á hinn bóginn sé umgjörðin svolítið önnur. „Þó svo að við höfum ekki yfirgefið þessa einu byggingu og því ekki farið mikinn í að kynna okkur kúltúrinn finnum við mjög vel að við erum komnir austar en í gær. Dyraverðirnir líta út fyrir að vera hermenn frekar en dyraverðir, og eru það sennilega. Klósettin lykta mjög illa og sturturnar eins, maturinn var svo sundursoðinn að engin leið var að átta sig á hvað var hvað, og töluverða ölvun var að sjá á tónleikagestum enda þótt nú sé mánudagur. Mikill munur frá Excel-skipulögðu Þýskalandinu,“ svo vitnað sé beint í spriklandi fjöruga dagbók á heimasíðu sveitarinnar, skalmold.is.

Skálmöld er óðum að kynnast samreiðarsveinum sínum og -meyjum en rússneska bandið Arkona, sem deilir rútu með þeim, skartar söngkonu. Þriðja bandið í rútunni er Norðmennirnir í Trollfest og segir Snæbjörn samkomulagið prýðilegt. „Við tengdum strax við Norðmennina en Rússarnir voru svolítið þurrir á manninn til að byrja með. Við settum hins vegar aðeins brennivín í þá í gær og þá mýktust þeir allir upp. Eiginlega einum of, því faðmlög og kossar með blautum vörum eru heldur mikið af því góða fyrir Íslendinginn – alla vega svona við fyrstu kynni,“ segir hann hlæjandi.

Hlíft við óvæntum uppákomum

Framundan eru tónleikar í Hollandi, Bretlandi, Austurríki, Frakklandi og fleiri löndum. „Ég veit ekki hvaða víðáttubrjálæðingur skipulagði túrinn en hann er ekkert að spara bensínið, við þurfum að aka allt upp í 12 til 13 tíma á nóttu til að komast milli staða,“ segir Snæbjörn en bætir við að skipulagið sé til fyrirmyndar. „Sé okkur sagt að við verðum komin á áfangastað klukkan eitt erum við komin klukkan eitt, ekki klukkan fimm mínútur yfir eitt. Skipuleggjendur vita að álagið er mikið og böndunum er fyrir vikið hlíft við óvæntum uppákomum. Það er til fyrirmyndar.“

Framhaldið leggst vel í Snæbjörn en hann fæst ekki til að tala um væntingar. „Við rennum þannig lagað séð blint í sjóinn, höfum ekki hugmynd um hvaða þýðingu þessi túr kemur til með að hafa fyrir okkur. Ætli við gerum þetta ekki bara upp þegar við verðum komnir heim og búnir að kasta mæðinni.“

SKRAUTLEGAR SAMREIÐARSVEITIR

Stormur í ölglasi

Hin málmböndin sem flengjast með Skálmöld um Evrópu eru í meira lagi skrautleg. Nægir þar að nefna sjóræningjaþungarokkssveitina Alestorm (Stormur í ölglasi, í lauslegri þýðingu) sem er frá Skotlandi og Írlandi. Að sögn Snæbjarnar verður að segjast alveg eins og er að konseptið lítur ekki mjög vel út á pappírunum. Aðalsöngvarinn spilar á Keytar og textarnir fjalla allir um fjársjóði, staurfætur, romm og hreinar meyjar. „Í stuttu máli gengur þetta fullkomlega upp,“ segir í dagbókarfærslu. „Sennilega hefur það talsvert með færni og form að gera, bandið er þéttara en rasskinnarnar á íþróttaálfinum. Eftir tónleikana í gær kynntumst við þeim síðan svolítið og þeir eru bæði mjög skemmtilegir og vel hæfir til drykkju. Skárra væri það nú, sjóræningjasveit sem er á samningi hjá Captain Morgan, ekki væru þeir mjög sannfærandi ef þeir væru templarar.“