Vatnstjón Nokkurt tjón varð á gólfefnum í húsi Hólmars og fer hann fram á að Landspítali greiði kostnaðinn.
Vatnstjón Nokkurt tjón varð á gólfefnum í húsi Hólmars og fer hann fram á að Landspítali greiði kostnaðinn. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Nýrnaveikur maður, sem sér sjálfur um blóðskilun sína heima hjá sér með lánstækjum frá Landspítalanum, er ósáttur við viðbrögð sjúkrahússins eftir að tækjabúnaður bilaði með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á heimili hans. Hann vill að sjúkrahúsið greiði allan kostnað við tjónið, en fær þau svör að það sé á hans ábyrgð. Landspítalinn hefur engu að síður greitt honum bætur, en maðurinn er ósáttur við upphæðina og segir hana engan veginn standa undir kostnaði vegna tjónsins.

Hólmar Þór Stefánsson er með nýrnabilun og þarf að gangast undir blóðskilun þrisvar til fjórum sinnum í viku í fjórar klukkustundir í senn.

Í rúmt ár hefur hann séð sjálfur um meðferðina heima hjá sér. Í því skyni fékk hann lánaðar vélar hjá Landspítalanum. Um er að ræða tvær vélar; skilunarvélina sjálfa og svokallaða vatnsvél, sem notuð er til að hreinsa vatnið sem fer inn í skilunarvélina.

Ekki var farið fram á það við Hólmar að hann sinnti meðferðinni sjálfur í heimahúsum, heldur var þetta val hans og hann segist hafa þurft að hafa fyrir því að fá þetta fyrirkomulag samþykkt. „Ég varð að gera þetta sjálfur heima annars vegar vegna vinnu og hins vegar vegna þess að tímasetningarnar, sem ég fékk úthlutaðar á Landspítalanum, hentuðu mér ekki. Með því að gera þetta sjálfur hef ég líklega sparað spítalanum um þrjár milljónir á ári,“ segir Hólmar og segir vélarnar hafa verið tengdar og settar upp af sérfræðingi á vegum Landspítalans.

Var sagt að vélin væri í lagi

Hann segir vel hafa gengið að sjá sjálfur um meðferðina, fyrir utan einstaka byrjunarerfiðleika, en í mars síðastliðnum lak vatnsvélin. Hann hafði þegar samband við Landspítalann og fékk tæknimenn í heimsókn innan skamms, sem sögðu vélina vera í lagi. Í byrjun júlí lak hún aftur og þá urðu skemmdir á gólfefni á neðri hæð í húsi Hólmars.

„Þá fór ég með vélina á spítalann, þar var sérfræðingur sem leit á hana. Hann sagði að hún væri ónýt og ég fékk nýja vél. Hugsanlega var vélin á síðasta snúningi þegar ég fékk hana lánaða.“

Hólmar fór þegar fram á að tjónið yrði bætt, hann segist ekki vera með neinar tryggingar og ekki vera í aðstöðu til að kosta viðgerðina sjálfur, en hann á erfitt með að vera á vinnumarkaði vegna veikinda.

Lántaki ber ábyrgð á lánshlut

Krafan fór fyrir matsnefnd eignatjóna sjúkrahússins, sem komst að þeirri niðurstöðu að sjúkrahúsið væri ekki ábyrgt fyrir tjóninu. Málið var ennfremur yfirfarið af lögfræði- og kjaradeild spítalans, sem komst að sömu niðurstöðu. Hólmar segir að í svari spítalans til sín hafi komið fram að samkvæmt meginreglum íslensks réttar beri lántaki ábyrgð á lánshlut. Litið sé á bilunina sem óhapp, sem Landspítali sé ekki ábyrgur fyrir.

„Það kom einnig fram í svarinu að vegna sanngirnisástæðna yrði tjónið bætt um 321 þúsund krónur, sem dugar engan veginn til að bæta skaðann,“ segir Hólmar.

Landspítali getur ekki tjáð sig

„Ég mun halda áfram með þetta mál og hef farið fram á að það verði endurskoðað, segir Hólmar, sem telur sjónarmið sín ekki hafa komið nógu skýrt fram. „Ég var til dæmis aldrei boðaður á fund til að útskýra málsatvik,“ segir hann.

„Við könnumst við þetta mál,“ segir Vilhelmína Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Landspítalans. „En ég get ekki tjáð mig um málefni einstakra sjúklinga.“