Í Ford Explorer heyrist stundum blásturspíp-hljóð sem er eins og þvingaður útblástur
Í Ford Explorer heyrist stundum blásturspíp-hljóð sem er eins og þvingaður útblástur
Suzuki Grand Vitara: Óstöðvandi titringur Spurt: Þetta er árg. '99 á 35 tommu dekkjum. Skyndilega kom í hann titringur sem erfitt hefur reynst að uppræta: Á sléttu malbiki nötrar bíllinn eins og á þvottabretti.

Suzuki Grand Vitara: Óstöðvandi titringur

Spurt: Þetta er árg. '99 á 35 tommu dekkjum. Skyndilega kom í hann titringur sem erfitt hefur reynst að uppræta: Á sléttu malbiki nötrar bíllinn eins og á þvottabretti. Eftirfarandi er á meðal þess sem búið er að reyna: Önnur dekk sett undir án árangurs. Afturskaftið var tekið undan og skipt um krossa. Bíllinn lagaðist nokkuð en titraði eftir sem áður. Skipt um þreyttan gírkassapúða og þriðji dekkjagangurinn reyndur. Engin breyting. Skipt um neðri stífur á afturhásingu. Breytti engu varðandi titringinn en bíllinn varð mun stöðugri á malbiki og hætti að elta hjólför (rása). Afturskaftið var tekið undan og keyrt í framdrifinu. Það breytti heldur engu. Kíkt var inn í drifhúsið að aftan, allt virðist eðlilegt og ekkert slag í neinu og ekkert svarf í olíu. Bremsuborðar að aftan eru heilir og í góðu standi. Skipt um hjólalegur að aftan. Breytti engu. Og nú er ég strandaður!

Svar: Mér sýnist þú vera búinn að útiloka allt nema bogna afturhásingu. Láttu mæla hjólastöðu afturhjóla hjá Birni B Steffensen uppi á Ártúnshöfða.

Ford Explorer: 20+ lítrar

Spurt: Ford Explorer xlt 4.0 árg. '04. Stundum heyrist blásturspíp-hljóð í bílnum eins og þvingaður útblástur. Veistu hvað það eru margir hvarfakútar/skynjarar í bílnum og er einhver möguleiki á að breyta pústkerfinu? Ég veit að margir með eldri en '94 hafa fjarlægt hvarfakúta til að minnka eyðsluna. Hvað má gera í því efni með minn bíl? Bensíneyðslan mælist rúmlega 20 lítrar/100 km í borgarakstri.

Svar : Svona píphljóð í bensínbíl er oft vegna þess að leirkaka í hvarfakút hefur hrunið saman, gat myndast í útblásturskerfinu eða óþétt flans-pakkning. Í Ford Explorer '04 eru 2 hvarfar og 4 súrefnisskynjarar. Þekkt aðferð til að minnka eyðslu er að hreinsa skemmda leirköku innan úr hvörfum. Um dieselbíla gildir að hvarfakútur/ar eiga að vera í þeim frá og með árgerð 2005. Þú færð frekari ráðleggingar, hvarfa og skoðun á kerfinu á hagkvæmu verði hjá BJB-þjónustunni í Hjallahrauni í Hafnarfirði.

Korando: Aflvana á 33“

Spurt: Ég á SsangYong Korando, handskiptan, 2.9 diesel (án túrbínu), árg. '98, ekinn 130 þús. Dekk eru 33“ og drifhlutfall óbreytt. Þetta er góður, sparneytinn og gangviss jeppi. En hann vantar tilfinnanlega meira vélarafl, þó ekki væri nema til að geta haldið viðunandi hraða á þjóðvegi, t.d. í brekkum eða mótvindi. Vélin hefur líka átt það til að drepa á sér í bröttum brekkum á hálendinu. Nú er ég að leita að hagkvæmustu leiðinni til að bæta úr þessu, ef hún er til. Þvermálið á púströrinu er ca. 45 mm, hefði það einhver merkjanleg áhrif væri það sverara?

Svar: Án forþjöppu missir þessi vél of mikið afl og tog þegar dekkin eru stækkuð úr upprunalegum tæpum 29“ í 33“ án þess að lækka drifhlutfall á móti. Jeppinn yrði miklu sprækari með pústþjöppu og millikæli. Talaðu við Musso-parta í Hafnarfirði um það mál. Stærri dekkin valda því að vélin nær ekki hámarkstogi við hámarksálag í háa drifinu. 2,5“ púst (64 mm) skilar árangri. Ráðlegg þér að láta yfirfara eldsneytiskerfið hjá Framtaki/Blossa í Garðabæ.

Ábending

Varðandi Chevrolet Captiva Diesel

Fyrri pistill fjallaði m.a. um lagfæringu á pústþjöppugátt í Captiva. Losa þurfti fastan arm sem tengist sogmótor og stjórnar gáttinni. Eins og tekið er fram neðanmáls eru fyrirspurnir og svör stytt en birt í fullri lengd á Vefsíðu Leós. Sé þessi armur svo fastur að liðka þurfi með hitun á að losa hann frá sogmótornum (vacuum-rofanum) – annars getur dýr búnaður skemmst. Þennan arm ætti að smyrja sem lið í reglulegri smurþjónustu!

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)

Höf.: Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar, ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)