Sigurður Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1951. Hann lést á líknardeild Landspítala – háskólasjúkrahúss í Kópavogi 29. september síðastliðinn.

Foreldrar hans eru Ásgeir Þorsteinsson sjómaður, f. 9.8. 1920, d. 9.8. 1996, og Ásta Sigurðardóttir, f. 26.9. 1921. Þau bjuggu lengst af í Skólagerði 6a í Kópavogi. Systkini Sigurðar eru Ragnar Örn, f. 9.1. 1946, d. 8.2. 2001, kona hans er Jónína Ágústsdóttir. Börn þeirra eru Berglind, Ágúst Þór og Svala. Barnabörnin eru fimm; Þorsteinn, f. 28.5. 1947, eiginkona hans er Ingibjörg Ásgrímsdóttir. Börn þeirra eru Ásta, Ásgrímur Smári og Ásgeir Örn. Barnabörn þeirra eru tíu; Helga, f. 7.2. 1950, eiginmaður hennar er Einar Thorlacius. Börn þeirra eru Nadine Guðrún, Þórdís Ásta og Steinunn Erla. Þau eiga þrjú barnabörn; Kristjana Laufey, f. 8.3. 1954, börn hennar eru Ásgeir Andri og Fanney Lára. Hún á eitt barnabarn; Ólafía, f. 2.9. 1963, eiginmaður hennar er Árni Rúnar Sverrisson. Börn þeirra eru Valgeir Gauti og Hugrún. Þau eiga eitt barnabarn. Sigurður kvæntist eiginkonu sinni, Guðrúnu Björt Zophaníasdóttur, 22. mars 1986. Þau hófu búskap sinn árið 1982 í Þjórsárgötu 1 í Skerjafirði. Þau byggðu sér hús í Dalhúsum 91, fluttu þangað árið 1990 og hafa búið þar síðan. Guðrún er fædd í Reykjavík 23.9. 1956. Foreldrar hennar eru Zophanías M. Márusson f. 23.12. 1919, og Sigríður Kristbjörnsdóttir, f. 31.8. 1917, d. 15.10. 2008. Börn Sigurðar og Guðrúnar eru Aldís Sigríður, f. 5.12. 1983, maki hennar er Ólafur Steingrímsson, f. 20.11. 1979; Ásta Fanney, f. 12.2. 1987 og Ívar Zophanías, f. 12.4. 1991. Börn Sigurðar af fyrra hjónabandi með Ingibjörgu Agnarsdóttur, f. 15.3. 1953, eru Heiða Lind, f. 19.9. 1976, eiginmaður hennar er Bjarni Ágúst Sigurðsson, f. 18.9. 1972. Þau eiga fimm börn, þau Glóbjörtu Líf, Hlyn Frey, Völu Ástrós, Ask Inga og Birki Hrafn; Hildur Eva, f. 8.3. 1978, maki hennar er Ásgeir Jóhann Ásgeirsson f. 30.6. 1981. Sigurður var framreiðslumaður og húsasmíðameistari að mennt. Hann vann víða við störf tengd iðn sinni. Meðal annars vann hann sem framreiðslumaður í Sigtúni, veitingastjóri á Hótel Sögu og aðstoðarhótelstjóri á Hótel Holti. Hin síðari ár vann hann þó lengst af sem húsasmíðameistari hjá eigin fyrirtæki.

Útför Sigurðar fer fram frá Grafarvogskirkju í Reykjavík í dag, fimmtudaginn 6. október 2011, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku pabbi.

Á þessum erfiðu tímum eru mér gleði, bros og hlátur ofarlega í huga enda hellast minningarnar yfir mig þessa dagana. Allar þær minningar sem ég á af þér eru góðar og fullar af gleði, kærleika og hlátri. Ég viðurkenni þó fúslega að yfir þeim flestum felli ég tár enda er sárt til þess að hugsa að ég muni ekki fá fleiri slíkar minningar af þér og með þér. Sorgin er þung og missirinn stór að miklum manni. Minningarnar koma mér þó einnig til að brosa og hlæja enda var gleði þín og hlátur alltaf smitandi. Það er skrítið að hlæja í sorg og brosa í söknuði en á einstaklega vel við þegar maður syrgir mann sem lifði lífinu alltaf til fulls, með bros á vör, hlátur í hjarta og fyndna sögu á takteinunum. Kraftmikinn og lífsglaðan mann sem tókst á við erfiðleika með gleði, styrk og æðruleysi og hafði alltaf traust ráð við öllu sem upp gat komið.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa tekið mér tíma þessa síðustu daga til að segja þér svo margt af því sem býr í hjarta mér og höfði. Til að segja þér undir lokin að hafa ekki áhyggjur af okkur krökkunum og Gunnu okkar. Þú tryggðir það með þínu viðhorfi til lífsins að við höldum áfram í þínum anda. Glöð, sterk, saman og samrýmd. Það er samt svo margt sem ég á enn eftir að segja þér og mun líklega eyða allri ævinni í að reyna að koma til skila. Ég læt því duga í bili fá orð og stutta kveðju sem þér finnst líklega nokkuð úr takti við málglöðu mig. En stundum koma orðin illa eða ekki. Sumt verður ekki sagt og stundum duga engin orð.

Hildur Eva.

Þetta leit ekki vel út í fyrstu. Óharðnaður, ómenntaður og síðhærður ungur drengur hafði nælt í elstu dóttur hans. Og rúmu ári síðar voru þau að gifta sig og komin með eitt barn – og dóttir hans ekki orðin tvítug. En hann Sigurður gaf aldrei í skyn vantraust sitt vegna þessa ráðahags okkar. Þannig var hann; tók mér vel frá upphafi innkomu minnar í fjölskylduna. Nú, rúmum sextán árum síðar er hár tengdasonarins stuttklippt, menntun er lokið og hann í ábyrgðarstöðu í traustu ríkisstarfi. Og börnin eru orðin fimm. Hann hlýtur að hafa verið orðinn sáttur.

Sigurður, þú varst mér góður tengdafaðir og frábær afi barnanna fimm. Allar góðu stundirnar ylja okkur nú. Þín verður sárt saknað.

Heyr, himna smiður,

hvers skáldið biður,

komi mjúk til mín

miskunnin þín.

(Kolbeinn Tumason.)

Hvíl í friði.

Þinn tengdasonur,

Bjarni Ágúst

Sigurðsson.

Siggi bróðir er látinn, þó svo að maður hafi gert ráð fyrir því að svona færi að lokum þá er höggið alltaf sárt þegar kallið kemur. Siggi var ljúfmenni mikið og mikill fjörkálfur á mannamótum, sérstaklega þegar við systkinin hittumst. Alltaf með hnyttin tilsvör og brandara.

Siggi ólst upp í stórum systkinahópi í Skólagerði 6a í Kópavogi og þar var oft þröng á þingi þegar allur vinahópurinn var þar samankominn. Það sést best á léttleikanum í Sigga að á meðan ég ætlaði að slá í gegn sem þunglamalegur trommu-leikari fékk hann sér saxófón og blés af hjartans lyst. Hann hefði áreiðanlega slegið í gegn ef hann hefði lagt það fyrir sig.

Siggi var í sveit í Hreppunum eins og við flest systkinin og stóð sig þar með sóma eins og alls staðar þar sem hann kom að. Hann var auðvitað gallharður Bliki eins og allir Kópavogsbúar voru þá og töluvert í boltanum. Hann var forfallinn golfari og bara þónokkuð góður. Ég held að kúlusukkið eins og við kölluðum það hafi byrjað í krikketinum heima á lóðinni í Skólagerðinu. Siggi var fjórum árum yngri en ég svo vinahópurinn var annar, en hann náði því þó að komast með okkur Skýjaglópum í Þórsmörk í denn, þá bara 16 ára að mig minnir.

Það er nú alltaf svo að þegar langt er á milli þá losnar um böndin, og þegar maður hugsar til baka þá finnst manni að við hefðum átt að hittast oftar. En hver reiknar með að menn fari svona ungir. Tíminn átti að vera nógur!

Það er stórt skarð höggvið í systkinahópinn, tveir bræður á burt á besta aldri. Ragnar dó 2001 þá 55 ára og nú Siggi rétt tæplega 60 ára. Hvernig stendur á þessu? Hver ræður þessu?

Gunna mín, fjölskylda ykkar öll, elsku mamma. Guð gefi ykkur styrk og trú í sorg ykkar.

Minningin lifir um góðan dreng sem fallinn er frá langt um aldur fram.

Hans Sigga bróður sárt er saknað

svefninn hefur líknað kvöl.

Harmur hefur í hjörtum vaknað

horfinn er úr Jarðardvöl.

Ljúfur drengur og vel liðinn

lipur var með káta lund.

Sár er treginn og hjarta sviðinn

sem þú ferð á drottins fund.

Nú er komið að kveðju stundu

kæri bróðir segi hér.

Skarð er fyrir skildi en mundu

að skála mun ég fyrir þér.

Þorsteinn Ásgeirsson

(Steini bróðir.)

Hann Siggi mágur hefur kvatt alltof fljótt. Hann var búinn að glíma við

erfið og ströng veikindi í nokkur ár. Hann var svo vongóður um bata eftir að hann fór í geisla hér heima og eins út í Svíþjóð í vor, en alltaf kom eitthvað upp á sem hindraði bata hjá honum. En alltaf var hann hress og bar sig vel.

Okkur Steina fannst mjög gott þegar hann kom í sumar til okkar til Ólafsfjarðar og var í nokkra daga og þeir bræður gátu spjallað saman og farið í pílukeppni úti á palli, en Siggi hafði þá getu til þess og ekki vantaði keppnisskapið hjá bræðrunum að vanda. Siggi var 17 ára þegar ég sá hann fyrst óþroskaður ungur maður, en alltaf hress og kátur. Honum fannst mjög gaman að sprella í systrum sínum og þá aðallega henni Kiddu systur sinni.

Hann bauðst til að hjálpa mér að taka upp úr kössunum þegar við Steini fluttum á Tómasarhagann 1970 og það var alveg sama hvað tekið var upp alltaf fannst Sigga allt alveg æðislegt en dótið sem var fengið hingað og þangað fékk þá nýja merkingu hjá ungu hjónunum sem voru að byrja búskap og áttu nú ekki mikið til búsins. Hann Siggi hafði Klettinn sinn við hlið sér í veikindunum hana Gunnu sína sem er búin að vera ótrúlega dugleg og hefur stutt hann í einu og öllu. Mikill harmur er nú kveðinn að fjölskyldunni allri og vona ég að þeim auðnist að fá kraft til að hjálpa þeim í gegnum þessa miklu erfiðleika.

Líta má langt til baka,

lífs yfir gengin stig.

Kominn er tími að kveðja

kvöldið svo blátt og hljótt.

Minningar gærdagsins gleðja.

Góða og friðsæla nótt.

(H.J.)

Elsku Gunna mín, Ívar, Ásta, Aldís, Hildur, Heiða, barnabörn, tengdabörn og Ásta móðir hans og systkini sem sjá nú á bak öðrum syni og bróður á besta aldri. Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingibjörg Ásgrímsdóttir.

Nú er langri og strangri þrautagöngu lokið hjá kærum mági mínum. Börnunum mínum fannst stundum gott að vita að Siggi föðurbróðir væri ekki langt undan, eftir að pabbi þeirra féll frá. Það var líka alltaf hægt að fá góð ráð og hjálp hjá Sigga ef dytta þurfti að einhverju heima fyrir.

Það sem ég mun varðveita sem sérstaka minningu um Sigga er þegar hann kom til mín vordag einn, við annan mann stuttu eftir andlát Ragnars míns. Þá tók hann að sér ásamt félögum Ragnars það óeingjarna, mikla verk að gerast verkstjóri yfir glæsilegri pallasmíð í illa löskuðum bakgarði mínum. Verkinu luku þeir mánuði síðar. Flest kvöld og helgar mætti hann, ásamt þeim félögum, þegar tími gafst til eftir langa vinnudaga og helgarnar voru líka nýttar til hins ýtrasta. Þetta gerðu þeir til þess að heiðra minningu kærs vinar og bróður, nokkuð sem mér hefur ævinlega þótt mjög vænt um.

Það sem hefur einkennt Sigga og Gunnu var bjartsýni á lífið og tilveruna. Oft þurfti að takast á við erfiða hluti og leysa þá, en ég tel að viðhorfið hjá þeim hjónum hafi ávallt verið að allt mætti leysa með jákvæðni og bros á vör. Þau voru einstök saman.

Ég veit innst í hjarta mínu að Ragnar minn mun taka vel á móti Sigga og þá munu þeir bræður sameinast á ný. Síðustu ár hafa verið erfið hjá ykkur elsku tengdamamma, Gunna, Heiða Lind, Hildur Eva, Aldís, Ásta Fanney og Ívar. Nú er komið að leiðarlokum en minning um góðan mann lifir. Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni. Siggi mun ávallt skipa sérstakan sess í hjörtum okkar allra sem yndislegur mágur, félagi og föðurbróðir.

Jónína mágkona

og fjölskylda.

Um leið og ég kveð kæran vin og frænda, Sigurð Ásgeirsson, sem lést langt um aldur fram, langar mig að þakka honum allar þær skemmtilegu stundir sem við áttum saman. Af mörgu er að taka. Ofarlega er mér í minni þegar við 12 ára drengir sigldum kvöld eitt niður Stóru-Laxá í Hreppum, á ísjökum í svarta myrkri. Þá var frændi minn í essinu sínu, enda þrælvanur siglingum á ísjökum í Nauthólsvíkinni, enda alinn upp í Kópavoginum þar sem leiksvæði barnanna þá var aðeins öðruvísi en leiksvæði barna er í dag. Úr þessari svaðilför komumst við heilir heim til Steinu frænku á Sólareyjarbakka og sofnuðum þreyttir og sælir.

Undir tvítugt vorum við nokkur saman í mjög góðum vinahópi sem heldur enn. Við spiluðum saman fótbolta og var fjörið slíkt að enginn lét sig vanta í þá tíma. Þá var oft hart barist en alltaf skildu menn sáttir. Siggi var mikill keppnismaður og vildi alltaf keppa hvort sem var í fótbolta eða golfi sem hann einnig hafði mikla ástríðu fyrir. Oft leitaði ég til Sigga um golfreglur, eða til að fá leiðsögn með sveifluna og kom ég þá aldrei að tómum kofunum. Nokkrar ferðir fór Siggi utan til að spila golf og hafði mjög gaman af því. Hér á árum áður hittist vinahópurinn oft til að fara út að skemmta sér eða til að fara í ferðalög og var þá ómissandi að hafa Sigga með. Hann var alltaf sá kátasti, söng mest og kunni alla texta manna best. Ég man vel eina útileguna sem við félagarnir fórum í austur í Þjórsárdal. Siggi kátur eins og vanalega og lítið stress með farangurinn. En þegar á tjaldsvæðið kom kom í ljós að hann hafði gleymt svefnpokanum en bætti það upp með kassa af 500 tannstönglum. Oft hefur verið hlegið að þessu.

Siggi var bæði lærður þjónn og húsasmiður og nutum við vinir hans þess í ríkum mæli. Hann gat alltaf reddað okkur inn á böll í gamla daga, þegar biðraðir voru langar eins og oft gerðist þá. Eins kenndi hann okkur borðsiði þegar við fórum út að borða. Ekki hefur það komið sér illa að þekkja hann sem smið. Hann veiti okkur hjónum ómetanlega hjálp þegar við breyttum húsinu okkar og var alltaf boðinn og búinn til að hjálpa og veit ég að allir úr okkar vinahópi hafa sömu sögu að segja.

Siggi átti frábæra konu hana Guðrúnu. Hún kom svo sannarlega sterk inn í hans líf og reyndist dætrum hans af fyrra hjónabandi afar vel. Í öllum hans veikindum sem hafa varað í nokkur ár hefur hún staðið sem klettur við hlið hans. Siggi var einhver jákvæðasti maður sem ég hef hitt og alltaf þegar ég spurði hann um líðan hans sagði hann ég hef það ágætt, alveg fram á síðustu stundu. Um leið og ég votta Guðrúnu, börnum þeirra, Ástu móður hans og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð vil ég þakka Sigga hans vináttu, kátínu og góðvild í gegnum okkar lífshlaup. Vertu sæll í bili, vinur.

Ólafur B. Bjarnason.

Elsku Siggi

Það er með trega gert að kveðja jafn glaðan og bjartan mann og þig. Þegar litið er yfir farinn veg hafið þið Gunna verið stór hluti af lífi okkar og við getum sannarlega talið okkur lánsamar að hafa átt ykkur að.

Það sem fyrst kemur í hugann þegar við hugsum til þín er hversu barngóður, glaður og brosmildur þú varst og hversu sérstakt lag þú hafðir á að draga fram bros hjá þeim sem hjá þér stóðu.

Það er erfitt að hugsa til þess að við fáum ekki að njóta nærveru þinnar í framtíðinni, en við yljum okkur við þær ótal mörgu og góðu minningar sem við eigum með þér. Við kveðjum þig með miklum söknuði um leið og við þökkum þér fyrir að hafa gætt lífi okkar þeirri gleði sem þú bjóst yfir. Þú átt sannarlega stað í hjörtum okkar. Elsku Gunna og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Katrín, Valgerður,

Íris og Lilja

Hann Siggi Ásgeirs vinur minn er fallinn frá eftir erfið veikindi.

Við Siggi kynntumst á vinnustað fyrir margt löngu og þrátt fyrir að vinnuumhverfi okkar breyttist héldum við ávallt góðu sambandi. Það má að vísu segja að upphaf samstarfs okkar hafi ekki verið eins farsælt og ég hélt í fyrstu, því Siggi trúði mér fyrir því síðar að honum hefði í raun ekkert litist á að fara að vinna með mér. En einhverja punkta hef ég náð að vinna mér inn hjá Sigga og vinátta okkar varð löng og traust.

Það er sannarlega mikill harmur þegar ungt fólk kveður þennan heim langt um aldur fram. Og maður spyr sig af hverju hann, af hverju er maður á besta aldri tekinn frá fjölskyldu sinni? Okkur er víst ekki ætlað að skilja af hverju miklar þjáningar og erfiði eru á suma lagðar. En minningarnar, þær verða ekki frá okkur teknar og þær eru eilífur vitnisburður um þann sem hefur verið frá okkur tekinn. Og í minningunum getum við aftur fundið til gleði þegar við upplifum aftur góðar stundir með fjölskyldu, ættingjum og vinum. Þegar ég hugsa um Sigga koma ótal gleði- og ánægjustundir upp í hugann og ætla ég að láta eina sögu fljóta hér með.

Eitt sinn fórum við félagar í golfferð til Cork á Írlandi. Það var eitt kvöldið að við ákváðum að finna alvöru írskan pöbb, með öllu sem því tilheyrði, dans, söng og skál. Við leituðum víða en alls staðar var sami doðinn og ekkert í líkingu við það sem við héldum að ætti að vera á alvöru írskum pöbb. Því var haldið heim á hótel og þar tók á móti okkur dillandi írsk tónlist, dansað uppi á borðum og mikið skálað. Og þegar við gengum í salinn heyrðum við síðustu lokatóna tónleikanna. Við höfðum eins og sagt er leitað langt yfir skammt og farið í stóran hring frá þeirri skemmtun sem við vorum að leita að. Þetta varð eftirminnileg ferð og við Siggi rifjuðum iðulega upp skemmtilegar stundir frá Eyjunni grænu.

Það var alltaf stutt í hláturinn og gamansemina hjá Sigga og það breyttist ekki þótt erfið veikindin settu mark sitt á hann. Hann vildi lítið tala um veikindin og var fljótur að breyta um umræðuefni ef maður spurði um þau. Hann tók veikindunum með ótrúlegu æðruleysi og reisn.

Nú þegar ég kveð Sigga er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri á að kynnast manninum og fyrir þær mörgu góðu stundir sem við áttum saman.

Ég sendi fjölskyldu og ástvinum samúðarkveðju með ósk um að þau nái að finna styrk til þess að komast í gegnum þessa erfiðu tíma.

Þorsteinn Gunnarsson.

Ekki er gefið að náið sambýli tveggja fjölskyldna gangi upp. Að ekki sé talað um þegar ekki er lokað á milli íbúðarhæða. Þannig var þetta á Þjórsárgötu 1, vorið 1983, við fluttum á neðri hæðina, Gunna og Siggi á þá efri.

Skemmst er frá því að segja að þarna hófst skemmtilegasta og þægilegasta sambýli sem sögur fara af. Þegar á reyndi urðum við samstiga um hvaðeina sem leysa þurfti. Með okkur tókst vinátta sem aldrei hefur brugðið skugga á. Dídí var fyrsta barnið okkar og litla telpan uppi skildi snemma að með því að bakka niður snarbrattan stigann komst hún í ágætisfélagskap. Svo kom lítill strákur á neðri hæðina og ástarsambandið Dídí + Hjörtur upphófst. Þau urðu óaðskiljanleg. Foreldraó-myndirnar lágu í hláturskasti þegar Dídí fattaði trixið að ýta Hirti um koll í snjóinn, alltaf stóð hann aftur upp en hún ýtti jafnharðan við honum og bæði skríktu.

Dídí ákvað strax að Ragnheiðarnafnið væri ekki brúklegt, Agga varð fyrir valinu. Fjölskylda Sigga og Gunnu er sú eina sem hefur fengið að halda því nafni til streitu.

Við bættist Ásta og síðasta sameiginlega Þjórsárgötubarnið var Sigga Lára. Ásta stóð alltaf sem fastast í pínkulitlu forstofunni kreppti og opnaði lófana og sagði, baddi, baddi. Ekki séns að koma henni upp fyrr en hún var búin að fá að strjúka baddanum.

Árin okkar sex á Þjórsárgötunni voru samfellt ævintýri, tvö pör sem voru að byggja upp líf sitt, eignast börn, framtíð, hamingju og ást. Þessi ár eru svo nátengd Sigga og Gunnu í okkar huga að það er eins og við höfum öll verið eitt.

Hjörtur var að farast úr sorg yfir að þurfa að flytja úr Litla-Skerjó. Þegar við komum aftur og hófum framkvæmdir við nýja húsið, tók hann til sinna ráða og flutti „heim“ til Gunnu og Sigga, við minnumst þess ekki að þau hafi kvartað.

Þegar við fluttum húsið út í Vatnsmýri kom náttúrlega enginn annar til greina sem meistari að því en Siggi. Hverjum treystir maður fyrir sjálfum sér og aleigu sinni? Hann var einstakur verkmaður, fljótur að átta sig á hlutunum, hraðvirkur og vandvirkur. Auk þess svo launfyndinn og skemmtilegur að andrúmsloftið varð alltaf þægilegt nálægt honum.

Siggi vann í gegnum tíðina jöfnum höndum sem smiður og þjónn. Þetta voru ólíkir heimar. Annars vegar grófur byggingarbransinn, hins vegar fáguð veitingahús með dúkuð borð og fína gesti.

Siggi var einstakt ljúfmenni, en þó skapmaður. Þegar hann vann sem yfirþjónn á Hótel Sögu kom einhver að honum þar sem hann kýldi óhreinatauspokann sem hékk starfsmannamegin við vængjahurðina. Viðkomandi horfði undrandi á þessar boxaraaðferðir og spurði hvers vegna í ósköpunum hann væri að þessu. „Nú, viltu heldur að ég lemji gestina?“ var svarið.

Innst inni dreymdi okkur fjögur alltaf um að flytja aftur saman, af því verður ekki úr þessu. Siggi vinur okkar er farinn, við kveðjum hann með söknuði og sorg í hjarta.

Elsku hjartans Gunna, Heiða, Hildur, Dídí, Ásta, Ívar, Ásta amma, Lóa, systkinin öll og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur,

Jón, Ragnheiður (Agga), Hjörtur og Sigríður Láretta.

Þar sem góðir menn ganga eru Guðs vegir. Þannig maður var Sigurður Ásgeirsson vinur okkar, því hann var einstaklega vandaður og heilsteyptur bæði til orðs og æðis. Við minnumst þess ekki að hafa séð hann skipta skapi í þau rúmlega fimmtíu ár sem við þekktum hann og var hann þó bæði kappsamur og fullur af heilbrigðum metnaði. Slíkt var jafnaðargeðið og skapfestan. Hann hafði sérstaklega þægilega nærveru og glaðværð og græskulaus glettni fylgdi honum og jafnan lagði hann gott eitt til málanna.

Siggi Ásgeirs eins og hann var kallaður af okkur æskufélögunum úr Kópavogi var fjórði í aldursröð sex samrýndra systkina sem ólust upp á Kársnesinu á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það voru forréttindi að fá að alast upp þarna og kynnast Sigga og fjölskyldu hans, en alla bernskuna og fram á fullorðinsár var heimili hans þungamiðja leikja og starfa hóps barna og ungmenna sem tengdust fjölskyldu hans vináttu- og tryggðaböndum. Þarna kom margt til, systkinin öll einstakir félagar og svo sýndu þau Ásta og Ásgeir foreldrar þeirra okkur vinum barnanna mikla velvild og vinsemd.

Sigurður nam til tveggja iðna, framreiðslu og húsasmíði og lengi framan af skipti hann vinnu sinni milli iðngreinanna eftir því úr hvorri Keflavíkinni var betra að róa. Stundum var unnin tvöfaldur vinnudagur þar sem aðalvinnutími þessara ólíku iðna skarast lítið. Á daginn var smíðað en á kvöldin þjónað til borðs. Það hefur þurft mikið þrek til að standa þannig að verki en Siggi var ekki einhamur maður og vann því oft tveggja manna störf. Svo fór að húsasmíðin höfðaði meira til hans og Sigurður menntaði sig frekar á því sviði og lauk meistaraprófi í iðninni og starfaði sem húsasmíðameistari síðan. Hann var vel liðinn, vandvirkur og farsæll meistari og starfaði bæði sem verkstjóri í stórum byggingafélögum og sem meistari með lítinn hóp iðnaðarmanna með sér. Alltaf var gott að leita til Sigga ef einhver mannvirki voru í hönnun eða smíðum og minnumst við félagarnir sérstaklega eins verkefnis þar sem vinátta og samhugur réði ferð en þeirri vinnu stjórnaði hann af ljúfmennsku, færni og festu og mikilli ósérhlífni eins og við mátti búast.

Andlátsfréttin kom ekki á óvart því Sigurður hafði glímt við mjög erfið veikindi af einstökum kjarki og þreki. Hann stóð meðan stætt var og lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi fimmtudaginn 29. september tæpum ellefu árum eftir að Ragnar Örn, elsti bróðir hans, lést þar úr svipuðu meini. Við trúum því staðfastlega að Raggi og Ásgeir faðir þeirra, sem einnig er látinn, hafi tekið vel á móti litla bróður og syni og að þeir æskuvinir okkar muni mæta þegar klukkan kallar okkur til að auðvelda vistaskiptin sem allra bíður.

Við sendum Guðrúnu konu Sigurðar, afkomendum og tengdabörnum svo og Ástu móður hans og hennar fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð vernda ykkur og styrkja.

Góður drengur er genginn en minning hans og orðstír lifir.

F.h. æskuvinanna

af Kársnesinu,

Arnór, Lárus og Ingi.