Mjúkar og ávalar línur einkenna bílinn sem er afskaplega nett smíði og falleg, að mati bílaáhugamanna.
Mjúkar og ávalar línur einkenna bílinn sem er afskaplega nett smíði og falleg, að mati bílaáhugamanna. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áður fyrr var lítil eyðsla tengd við kraftleysi, smæð bíla og leiðindi í akstri. Sú tenging á ekki lengur við, nú er runninn upp sá tími að njóta má bestu aksturseiginleika, krafts, stærðar, íburðar og lítillar eyðslu, alls í senn

Er hægt að kaupa lúxusbíl sem er 8,5 sekúndur í hundraðið, eyðir aðeins 4,9 lítrum í blönduðum akstri og mengar aðeins 136 g/km af Co2? Já, ef þú kaupir Mercedes Benz C-Class 220. Þessi bíll er gott dæmi um það hve metnaðarfullir bílaframleiðendur eru komnir langt í hönnun góðra bíla sem eru sérlega eyðslugrannir án þess að gefa eftir í afli, búnaði eða íburði.

C-Class bílar Mercedes Benz hafa verið óbreyttir frá 2007 þar til nýlega að Benz kynnti uppfært útlit hans og 2.000 breytta íhluti í hann. Engu að síður telst þetta ekki vera kynslóðarbreyting á bílnum, en breytingarnar eru umtalsverðar og góðar. Til að mynda er innréttingin algerlega nýhönnuð og þar hefur vel tekist til.

Fágun á alla kanta

Bíllinn hefur ekki mikið breyst í ytra útliti en framendinn er allur orðinn grimmari og fallegri og sver sig meira í ættina við aðrar gerðir Benz. Hann er nú kominn með LED lýsingu að framan og aftan eins og margir bílar í þessum verðklassa. Það vekur strax eftirtekt hversu lágur hann er til þaksins og bíllinn allur nettur. Hann er jú minnsti bíll Mercedes Benz sem ekki telst til smábíla fyrirtækisins eins og A- og B-línan. Samt er hann með sömu áherslu á íburð, aksturseiginleika og gæði og stærri gerðirnar, eins og E-Class millistærðin og S-Class forstjórabíllinn.

C-Class bíllinn er ámóta að stærð og BMW 3-línan, Audi A4 og Volvo S60 og keppir af krafti við þá á öllum mörkuðum og er á sambærilegu verði. Hann á sannarlega fullt erindi í þá samkeppni. Ekki þarf nema að setjast uppí, ræsa og leggja að baki fyrstu hundruð metrana til að átta sig á að setið er í lúxusbíl með öllum þeim gæðum sem þeim fylgja nú á dögum.

Það er alltaf dálítið sérstakt að aka Benz..... Mercedes Benz. Maður líður áfram sem í draumi og greinilegt að allt er smíðað til að auka akstursánægjuna og vellíðan þeirra sem í bílnum er. Þegar augun eru tekin af veginum og renna yfir innréttinguna blasir ekki við neinn áberandi íburður heldur mjög vandað og ígrundað innanrými með úthugsuðum stjórntækjum. Hrósa má fyrir upplýsandi, fallega og vel staðsetta mæla.

Sérlega einfalt var að tengja farsímann við BlueTooth tækni bílsins og akstursins notið þrátt fyrir símaspjall og augun fyrir vikið alltaf á veginum. Reynsluakstursbíllinn var langbakur, eða Estate eins og Benz kallar það og þannig er bíllinn bæði fallegri að mati akstursmanns og hentugri sem fjölskyldubíll sem tekur mikinn farangur.

Sparneytin en öflug díselvél

Vélin í 220 bílnum er eins og tölurnar gefa til kynna 2,2 lítra og skilar 170 hestöflum og brennir díselolíu. Þetta er ekki sérlega stór vél en hún svínvirkar og skilar til að mynda bílnum í hundraðið á 8,5 sekúndum og er frábær á öllum snúningi. Alltaf er nóg af afli og togi, enda 400 Nm tog í vélinni.

Ein af góðum nýjungum í C-Class bílnum er 7 gíra frábær sjálfskipting og á hún stóran þátt í því hversu eyðslugrannur bíllinn er. Að bíll af þessari stærðargráðu, troðfullur af lúxus skuli eyða aðeins 4,9 lítrum á hundraðið hefði fyrir örfáum árum verið alveg óhugsandi en er nú guðsgjöf ef tillit er tekið til eldsneytisverðs. Áður fyrr var lítil eyðsla tengd við kraftleysi, smæð bíla og leiðindi í akstri. Sú tenging á ekki lengur við, nú er runninn upp sá tími að njóta má bestu aksturseiginleika, krafts, stærðar, íburðar og lágrar eyðslu allt í senn. Stórt hrós til þýskra verkfræðinga.

Mercedes Benz fjöðrun

Fjöðrun bílsins er algerlega til fyrirmyndar, hann svínliggur við allar aðstæður sem hann er settur í og ójöfnur koma honum hreinlega ekki við. Það er þessi fjöðrun sem tryggir kaupendur Benz bíla sækjast eftir og geta ekki sagt skilið við. Bíllinn er útbúinn Start-Stop tækni sem reyndar gagnast meira á sumum þéttsetnari götum meginlands Evrópu en hérlendis, en hjálpar engu að síður við litla eyðslu hans.

Hljóðeinangrun er með allra besta móti og utanaðkomandi hljóð trufla ekki þegar góðs hljóðkerfis bílsins er notið. C-Class bílinn má fá með mörgum öðrum vélum en þeirri sem prófuð var. Díselvélarnar eru 5 talsins og allt að 230 hestafla og bensínvélarnar eru 4 og allt að 306 hestöfl. Hann má einnig panta beinskiptan eða fjórhjóladrifinn eða í AMG útfærslu með tröllaukinni kraftavél.

Það er þó engin tilviljun að bíllinn sem Askja flytur inn og var prófaður er með þessari 2,2 lítra díselvél, hún dugar honum mjög vel og eyðir ótrúlega litlu. Líklega vænlegasti kosturinn sem í boði er og lág mengunartala hennar setur bílinn í lágan tollflokk og hjálpar til að halda niðri verði bílsins. Það er heldur ekki slæmt til þess að vita að á þessum bíl, með 66 lítra eldsneytistanki má leikandi komast hringinn í kringum landið á einum slíkum. Sem slíkur er hann heldur ekki slæmur kostur fyrir leigubílstjóra sem gegnum tíðina hafa helst valið Mercedes Benz bíla vegna gæða og endingar, en nú líka vegna lítillar eyðslu.

finnurorri@gmail.com

Tölvustýrð fjöðrun og ótal gervi í nýjum Benz

Hringing veit á hressingu

„Þessi útgáfa af Benz er ein sú skemmtilegasta sem ég hef kynnst. Þessi bíll hefur afar margt skemmtilegt til að bera sem við höfum ekki kynnst áður,“ segir Sigurður Pálmar Sigfússon, sölustjóri Mercedes-Benz fólksbíla hjá Öskju. Hann nefnir þar meðal annars að Benz C 220 sé með svonefndan athyglisvara; það er skynji á fyrstu mínútum hverrar ökuferðar hreyfingar og aksturlag, til dæmis þegar og ef menn fara að hægja óeðlilega mikið á ferðinni sakir þreytu.

„Þegar svo er verða stafirnir í mælaborðinu rauðir, skera í augun og það ætti að hreyfa við mönnnum. Og ef ekki, birtist mynd af kaffibolla um leið og hringing heyrist sem vísar til þess að nú skuli ökumaður hvíla sig og fá sér hressingu,“ segir Sigurður Pálmar og bætir við að sér þyki tölvustýrt fjöðrunarkerfi bílsins til mikilla bóta. Þannig sé bíllinn áberandi mjúkur í akstri, til dæmis á malarvegum en stífari á malbikinu. Slíkt sé ótvíræður kostur.

C-útgáfan af Benz er ef til vill líkust kamelljóninu; getur brugðið sér í ótal gervi. Enginn bíll er eins og þegar allir þættir eru teknir inn í breytuna með tilliti til stærðar, vélar, aksturseiginleika, lita og svo framvegis reiknast mönnum svo til að útgáfurnar geti verið um tvær milljónir. „Möguleikarnir eru miklir,“ segir Sigurður sem reiknar með að leigubílstjórar muni í einhverjum mæli velja Benz C 220 sem og aðrir þeir sem gera kröfu um virkilega góðan bíl.

sbs@mbl.is