Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Gestir Eyvindarstofu geta gætt sér á útilegumannamat og lifað sig inn í líf Fjalla-Eyvindar og Höllu. Eyvindarstofa verður opnuð á Blönduósi næstkomandi laugardag.
Eigendur veitingastaðarins Pottsins á Blönduósi eru að innrétta Eyvindarstofu á efri hæð hússins. Stofan verður rekin í tengslum við veislusal.
Útbúa Eyvindarhelli
„Þetta kom upphaflega til af því að ég rak ferðaþjónustu á Hveravöllum en þar voru heimkynni Eyvindar og Höllu um tíma. Við vorum að vinna að hugmynd um uppbyggingu gestastofu þar með aðkomu ríkisins. Það gekk hægt, og raunar er enn ekkert farið að gerast, svo ég ákvað að líta mér nær,“ segir Björn Þór Kristjánsson sem rekur veitingastaðinn Pottinn með konu sinni, Söndru Kaubriene.Ekki er full lofthæð í hluta rýmisins og því kom upp hugmyndin að nýta það pláss fyrir Eyvindarhelli. Reynt er að ná upp stemningu hálendisins og hveranna. Sögunni um Fjalla-Eyvind er miðlað með myndefni og textum.
Sérstök upplifun
Matur er borinn fram á diskum og skálum sem gerð eru í stíl handverks Eyvindar, að vísu ekki úr tágum heldur leir, en Fjalla-Eyvindur var rómaður fyrir hagleik sinn.Matseðillinn er líka óvenjulegur og tekur mið af sömu hugsun. Aðalrétturinn er léttsaltaður lambaskanki. Hrár silungur er settur út í súpuna. Eftirrétturinn er rúgbrauðskaka með rjómaís og rabarbaragraut. Allt eru þetta þjóðlegir réttir sem Eyvindur og Halla gætu hafa lifað á í heimkynnum sínum á hálendinu. Silung hafa þau sótt í vötnin og soðið brauð í hverum. Að vísu eru lömbin keypt af bændum en ekki tekin ófrjálsri hendi úr sumarhögum. Þá tekur veitingamaðurinn fram að annar matur sé í boði fyrir þá sem ekki vilja útilegumannafæði.
„Við viljum geta sinnt hópum sem nú fara í gegnum Blönduós, veitt þeim sérstaka upplifun. Einnig getum við nýtt aðstöðuna fyrir fundi og boðið hana fyrir hvataferðir,“ segir Björn Þór um markmiðið með framtakinu.
SKIPSTJÓRI Í FJÖLÞÆTTUM VEITINGAREKSTRI
Eins og að vera á vertíð
„Þetta er eins og vertíð. Maður dregur saman seglin þegar vertíðin er búin,“ segir Björn Þór Kristjánsson veitingamaður. Auk Pottsins og Eyvindarstofu rekur hann kaffihúsið Við árbakkann, félagsheimilið á Blönduósi og sumarhótel í Húnavallaskóla. Áður rak hann ferðaþjónustuna á Hveravöllum í nokkur ár.Björn Þór var lengi skipstjóri, mest á rækjutogurum á fjarlægum miðum, og neitar því ekki að sú reynsla nýtist sér. Hann er með talsvert á þriðja tug starfsmanna á sumrin, heldur fleiri en voru á togurunum, en minna er að gera á vetrum og þá eru um tíu starfsmenn.
„Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf. Maður hittir margt fólk og það eru engir tveir dagar eins,“ segir Björn.