Lífsþreyta Henning Mankell hefur skrifað síðustu bókina um Kurt Wallander.
Lífsþreyta Henning Mankell hefur skrifað síðustu bókina um Kurt Wallander.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Henning Mankell. Útgefandi Mál og menning. 472 bls.

Kurt Wallander lögregluforingi er orðinn sextugur. Sumir er sprækir og glaðir á þeim aldri en ekki Wallander. Að segja að honum líði ekki vel er vægt til orða tekið. Wallander er sykursjúkur og er orðinn gleyminn. Ekki er betur komið fyrir ýmsum öðrum persónum bókarinnar. Fyrrverandi eiginkona Wallanders er sífull og gömul ástkona hans er fársjúk. Góðu fréttirnar eru reyndar þær að Wallander er orðinn afi en á móti kemur að tengdafaðir dóttur hans hverfur og síðan hverfur tengdamóðirin einnig. Grunur leikur á að bæði séu látin. Þannig að Wallander hefur litla ástæðu til að vera hress. Hann hefur vitanlega rannsókn þar sem ýmislegt óvænt kemur í ljós.

Mankell er góður höfundur, um það þarf ekki að deila. Tilvistarþunginn í þessari bók er hins vegar með slíkum ósköpum að erfitt er annað en að fórna höndum með reglulegu millibili. Stöðugar hugleiðingar Wallanders um skelfinguna sem fylgir því að eldast og vita af nálægð dauðans verða endurtekningarsamar. Það getur ekki verið svona slæmt að vera sextugur. En málið reynist flóknara en maður ætlar í byrjun og Mankell heldur ótrauður áfram að leggja píslir á söguhetju sína. Þetta gerir hann af svo miklu kaldlyndi að manni stendur ekki alveg á sama. Það er merkilegt hvað þessi höfundur er vondur við aðalpersónu sem hefur fært honum frægð og frama. Sakamálið sjálft er flókið og alveg ágætlega spennandi, næstum hressilegt miðað við annan drunga, og heldur lesandanum vel vakandi. Mankell hefði mátt veita því meira rými um leið og hann hefði betur dregið úr yfirþyrmandi lífsþreytu Wallander.

Hinn flinki Henning Mankell er ekki upp á sitt allrabesta í þessari bók. Hann er hins vegar það góður höfundur að þegar hann er bara í meðallagi miðað við eigin getu þá er hann samt betri en flestir aðrir norrænir sakamálahöfundar.

Vart þarf að taka fram að bókinni lýkur á þann hátt að aðdáendur Wallander eru líklegir til að finna fyrir votti af tilvistarþunglyndi.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir