[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Opinber gjöld sem fjármálafyrirtæki greiða eru mun hærri nú en á árunum 2006 til 2007, þegar umsvif íslenska bankakerfisins voru sem mest.

Fréttaskýring

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Opinber gjöld sem fjármálafyrirtæki greiða eru mun hærri nú en á árunum 2006 til 2007, þegar umsvif íslenska bankakerfisins voru sem mest. Miðað við rekstrarhorfur má leiða líkur að því að bankarnir þurfi að bregðast við þessu með auknum vaxtamun og hagræðingu á næstu árum.

Þegar búið er að taka tillit til kostnaðar vegna nýs bankaskatts á launagreiðslur fjármálafyrirtækja þá gera áætlanir Samtaka fjármálafyrirtækja ráð fyrir að fjármálageirinn muni greiða 30,6 milljarða króna í opinber gjöld á næsta ári. Sú áætlun gerir ráð fyrir að álagður tekjuskattur verði sá sami og áætlað er að fjármálageirinn greiði í ár. Til samanburðar má nefna að árið 2006 greiddi fjármálageirinn alls 15,5 milljarða í opinber gjöld og 21,6 milljarða ári síðar. Þróunin skýrist að stærstum hluta af mikill aukningu á ótekjutengdum gjöldum sem eru lögð á fjármálafyrirtæki. Samkvæmt áætlunum SFF mun ríkið innheimta tæpa 18 milljarða í ótekjutengd gjöld af fjármálafyrirtækjum á næsta ári. Þessar álögur hafa hækkað verulega á liðnum árum, en samtals voru 7,4 milljarðar greiddir í slík gjöld í fyrra. Miðað við áætlanir SFF er um að ræða ríflega ferfalda aukningu frá árinu 2007, en þá greiddu fjármálafyrirtæki um 4 milljarða í ótekjutengd gjöld.

Það liggur í augum uppi að ef rekstur banka stendur ekki undir slíkri aukningu gjalda mun áhrifa fyrst og fremst gæta í auknum vaxtamun í fjármálakerfinu – það er að segja að mismunur inn- og útlánavaxta aukist. Á þetta hefur verið bent við umfjöllun Alþingis um lagabreytingar sem hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir fjármálakerfið. Í umsögn Fjármáleftirlitsins um frumvarp um innistæðutryggingar síðasta vetur kemur fram að bankarnir muni bregðast við auknum útgjöldum vegna Tryggingasjóðs innistæðueigenda með því að auka vaxtamun til að verja arðsemi sína. Eðli málsins samkvæmt munu sömu lögmál gilda fyrir aðrar aukningar á útgjöldum.

Stendur reglulegur rekstur undir gjaldahækkunum?

Þetta leiðir til spurninga um hvort horfur um arðsemi í fjármálageiranum á næstu árum standi undir þessum miklu útgjaldahækkunum. Áhyggjur stofnana á borð við Seðlabankann og Bankasýslu ríkisins benda ekki til þess. Það skýrist fyrst og fremst af því að hagnaðartölur stóru bankanna þriggja undanfarið ár hafa að stórum hluta verið bornar upp af endurmati á virði yfirtekinna útlána. Ljóst er að áhrif þessa endurmats eru nú þegar farin að þverra og þar af leiðandi þarf arðsemin af kjarnarekstrinum að standa undir rekstrinum.

Eins og bent er á í síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans nam samanlögð tekjufærsla viðskiptabankanna í fyrra vegna metinnar virðishækkunar yfirtekinna útlána 78 milljörðum, eða tæplega 40% af hreinum rekstrartekjum. Bent er á í skýrslunni að hlutfallsleg áhrif endurmats lána á afkomu bankanna fari minnkandi á næstunni og að þeir verði því að tryggja viðunandi arðsemi. Það er brýnt að mati Seðlabankans, meðal annars vegna þess að rekstrarkostnaður bankanna í fyrra var hár, eða 57% af reglulegum tekjum þegar búið er að leiðrétta fyrir uppfærslu yfirtekinna lána, á sama tíma og þeir þurfi að mæta auknum álögum frá hinu opinbera.

Uppfylla ekki arðsemiskröfu Bankasýslu ríkisins

Í skýrslu Bankasýslunnar um starfsárið 2010 er arðsemi reglulegs rekstrar stóru bankanna reiknuð út; reglulegur kostnaður dreginn frá reglulegum tekjum og niðurstöðunni deilt með meðalstöðu eigin fjár. Í því samhengi sker Íslandsbanki sig frá hinum bönkunum, en arðsemi reglulegs rekstrar hans í fyrra nam 18,4%. Arðsemi reglulegs rekstrar Arion og Landsbankans var hinsvegar mun minni og langt undir arðsemiskröfu Bankasýslunnar. Arðsemin var 7,3% hjá Arion og 5,3% hjá Landsbankanum. Arðsemiskrafan sem Bankasýslan gerir á bankana er tæplega 11%.