Hafsteinn Sölvason fæddist í Reykjavík 17. október 1932. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 26. september 2011.

Hafsteinn var jarðsunginn frá Fossvogskirkju 4. október 2011.

Hafsteinn tengdafaðir minn lést eftir stutta en stranga banalegu mánudagskvöldið 26. sept. sl. Hann átti rúmlega 3 vikur í að verða 79 ára gamall. Hann hafði greinst með krabbamein fyrir hálfu ári og síðustu vikurnar reyndust honum erfiðar en enginn átti þó von á að endalokin yrðu svo snögg. Hafsteinn var heldur ekki maður sem gafst upp, hann var harður af sér og duglegur og ákaflega hraustur. Varð varla misdægurt. En enginn sigrar örlögin eins og við erum reglulega minnt á.

Ég kynntist Hafsteini fyrst heima í Hraunbæ, þar sem fjölskyldan átti fallegt heimili. Hann kom mér fyrir sjónir sem ábyrgur og traustur heimilisfaðir og ég minnist þess að hann vildi vita hvaðan ég væri og hverra manna, því Hafsteinn hafði mikinn áhuga á fólki og sögu. Hann tók mér afskaplega vel frá fyrstu tíð og hefur alltaf reynst okkur Knúti Sölva og fjölskyldunni vel. Það var gott að leita til hans ef eitthvað bjátaði á, því hann var bóngóður.

Minningarnar safnast upp og af mörgu að taka. Flestar tengjast þær góðum stundum þar sem fjölskyldan er saman, börn Hafsteins og Kollu og barnabörn, á ferðalögum, í bústað, í afmælum og á hátíðum. Alltaf voru þau stólparnir sem stóðu upp úr og yngri kynslóðin í kringum þau. Hafsteinn var því gæfumaður í sínu einkalífi, kynntist Kolbrúnu sinni ungur, innan við tvítugt, og saman hafa þau fetað lífsveginn í yfir hálfa öld. Missir Kollu er því mikill og söknuður fjölskyldunnar einnig. Hafsteinn var gestrisinn og vildi hafa börnin sín og barnabörn í kringum sig.

Hafsteinn var mikill verkmaður og allt lék í höndunum á honum. Meðan þau bjuggu í Grundarási átti Hafsteinn stóran bílskúr sem var nánast eins og verkstæði. Þar urðu ófáir bílarnir að glæsivögnum. Einna minnisstæðust er vínrauða Volkswagen-bjallan sem ætluð var heimasætunni á bænum. Hún var nánast eins og Barbiebíll þegar Hafsteinn var búinn að föndra við hana. Þarna var Hafsteinn öllum stundum eftir vinnu, alltaf með einhver verkefni.

Síðar fluttu þau hjónin alla leið suður í Garðabæ, en höfðu alltaf búið innan marka Reykjavíkur. Þá missti Hafsteinn skúrinn svo nú varð að finna eitthvað sem hann gæti haft sér til starfa, fyrir utan vinnuna við tryggingarnar. Þá kom fjölskyldan sér upp sumarbústað austur við Heklurætur, í Landsveitinni. Segja má að það hafi verið mikið gæfuspor því þar undu þau sér vel tengdaforeldrar mínir. Þar var Hafsteinn í essinu sínu, sístarfandi, eftir að uppbyggingu lauk tók við eðlilegt viðhald og svo varð að græða upp hraunlandslagið í kringum bústaðinn. Þarna eru ófá handtök Hafsteins en þau voru unnin af gleði og áhuga. Enda ber bústaðurinn og hans umhverfi vott um þá eljusemi sem þar hefur verið viðhöfð.

Minnismerkin um lífsstarf tengdaföður míns eru því víða og segja má að hann geti því sofnað svefninum langa „sæll af sínum verkum“. En fjölskyldan mun halda því verki áfram og við erum sæl að geta látið allar góðu minningarnar um “afa Haffa“ verma okkur um ókomna tíð. Blessuð sé minning Hafsteins Sölvasonar.

Eygló Eiðsdóttir.

Ég hefði ekki trúað því að það ætti eftir að verða í síðasta skiptið sem ég sæi afa minn þegar við kvöddumst einn eftirmiðdag í ágúst á Garðatorginu. En mikið er ég feginn að hafa framlengt veru mína á Íslandi um nokkra daga og átt þessa stund með afa mínum og ömmu. Afi lá í sófanum og hvíldi sig en var í góðu skapi. Við borðuðum ís, uppáhaldið okkar beggja, og hann reytti af sér sögur eins og honum einum var lagið.

Æskuminningarnar um afa í Grundarási eru svo skýrar. Barnshugurinn var fullur eftirvæntingar þegar heimsækja átti afa og ömmu. Það var sérstaklega bílskúrinn hans afa sem heillaði; þar var Willys-jeppinn, sem afi dekraði við, kassabíllinn, sem vakti aðdáun flestra barna og reiðhjól af öllum stærðum og gerðum. Afi lá vanalega undir bíl og dyttaði að þegar við komum í heimsókn. Hann tók alltaf hlýlega á móti manni og opnaði lítinn ísskáp þar sem hann geymdi súkkulaði í dós, og stundum átti hann jafnvel kók í gleri. Hann spurði síðan oftast hvernig okkur Þrótturum gengi. Sjálfur hélt hann með Ármanni. Það þótti mér óskiljanlegt, þeir voru varla með fótboltalið. En þetta var sjálfsagt málamiðlun því ekki mátti gera upp á milli barnabarnanna.

Afi var einstaklega barngóður og kunni að skemmta barnabörnum sínum. Hann stóð fyrir einhverjum stærstu upplifunum barnæsku minnar. Ég gæti nefnt vélsleðaferðirnar við Rauðavatn og á Hellisheiði, rakettukaupin fyrir gamlárskvöld og klesstu bílana í Skipholti sem vöktu jafnt gleði og spennu. Ég minnist líka með hlýju þegar við tveir fórum í veiðiferð í Þjórsá og komum heim til ömmu færandi hendi.

Hann náði líka að töfra fram undrun mína og hrifningu á táningsaldrinum. Ég gleymi t.a.m. aldrei þegar hann rétti mér lykla að Subaru í einni heimsókninni í Grundarás og spurði: „Langar þig ekki í bíl?“ Hann hafði að sjálfsögðu haldið þessu leyndu fyrir mér þær vikur sem bíllinn var inni í bílskúr og gerður ökufær. Spurningin kom því flatt upp á mig en ég var ekki lengi að svara. Kassabíllinn sem ég var öfundsverður af var nú orðinn alvörubíll. Það voru fáir menntskælingar sem gátu státað af að eiga einn fjórhjóladrifinn á þessum aldri.

Ævintýraheimurinn varð seinna meir sumarbústaðurinn Látalæti í Landsveitinni við rætur Heklu. Þar lék afi við hvern sinn fingur og þar þótti honum best að vera. Þau voru alltaf góð heim að sækja, amma og afi í Látalæti, og heimsóknirnar reyndust gulls ígildi fyrir mig, langþreyttan námsmanninn frá Danmörku. Heimþrá og þreyta hurfu í samvistum við þau, náttúruna og ilminn af nýbökuðu brauði og vöfflum.

Ég kveð afa minn með söknuði en mun alltaf minnast hans og hversu góður, hjálpsamur, tryggur og trúr hann var.

Kári.