Undirbúningur U21 árs landsliðið æfði á Hlíðarenda í gær og lagði á ráðin gegn Englendingum.
Undirbúningur U21 árs landsliðið æfði á Hlíðarenda í gær og lagði á ráðin gegn Englendingum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
U21 árs Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

U21 árs

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U21 árs landsliðs karla í knattspyrnu, hefur lokið við að afplána tveggja leikja bann og getur því stjórnað lærisveinum sínum frá hliðarlínunni þegar þeir etja kappi við Englendinga í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvellinum í kvöld. Íslendingar hófu undankeppnina vel með því að leggja Belga að velli, 2:1, á Vodafone-vellinum en í kjölfarið fylgdi 2:0-tap á móti Norðmönnum á Kópavogsvelli, úrslit sem ollu vonbrigðum og gera að verkum að íslenska liðið má vart við því að misstíga sig meira í riðlinum.

„Úrslitin á móti Norðmönnum voru vitaskuld vonbrigði. Mér fannst liðið spila vel í fyrri hálfleik en það dró mikið af því í seinni hálfleik. Það sat greinilega þreyta í mannskapnum enda liðið að spila þriðja leikinn á átta dögum,“ sagði Eyjólfur við Morgunblaðið í gær.

Strákarnir hans Eyjólfs ráðast ekki á garðinn sem hann er lægstur í kvöld en enska liðið er feikilega sterkt þó svo að þrjár af skrautfjöðrum liðsins, Danny Welbeck og Phil Jones úr Manchester United og Kyle Walker, sem skoraði sigurmark Tottenham gegn Arsenal um síðustu helgi, séu ekki til staðar en þeir voru kallaðir inn í A-landsliðið.

Unnum þá síðast

„Englendingar eru með hörkugott lið. Við sáum leik þeirra á móti Aserbaídsjan þar sem þeir voru rosalega öflugir. Þeir eru langbesta liðið í riðlinum en þar með er ekki sagt að við getum ekki veitt þeim keppni. Við unnum þá síðast þegar við mættum þeim á Englandi og vonandi verðum við í jafnmiklu stuði nú og við vorum í þeim leik,“ sagði Eyjólfur.

Leikurinn sem Eyjólfur talar um var spilaður í mars þar sem Íslendingar fögnuðu sigri, 2:1. Hólmar sonur Eyjólfs skoraði sigurmarkið í þeim leik með glæsilegu skallamarki en Hólmar er mættur aftur í slaginn eftir að hafa jafnað sig af meiðslum og innkoma hans ætti að styrkja vörn íslenska liðsins.

Vera þéttir út um allan völl

„Það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að ná í einhver stig í þessum leik fyrst leikurinn á móti Norðmönnum tapaðist. Við förum í leikinn með því hugarfari að reyna að vinna og munum leggja allt í sölurnar. Við verðum að vera þéttir út um allan völl, loka svæðunum vel og leyfa þeim ekki að leika lausum hala. Síðan verðum við að spila vel úr okkar sóknum og reyna að sækja hratt þegar færi gefst á því. Strákarnir eru flestir í góðu standi og tilbúnir í mjög erfiðan leik,“ sagði Eyjólfur.

Eyjólfur varð að gera eina breytingu á leikmannahópi sínum í gær en KR-ingurinn Egill Jónsson meiddist í nára og var Brynjar Gauti Guðjónsson úr ÍBV kallaður inn í hans stað en Brynjar var í hópnum í leikjunum á móti Belgum og Norðmönnum.

Sterka leikmenn vantar í íslenska liðið. Guðlaugur Victor Pálsson, miðjumaður úr skoska liðinu Hibernian, tekur út leikbann og þá er Björn Bergmann Sigurðsson, framherji Lilleström, fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Flautað verður til leiks á Laugardalsvellinum klukkan 18.45 og er óhætt að hvetja allt knattspyrnuáhugafólk til að fjölmenna og styðja við bakið á íslensku strákunum.

Englendingar
» Englendingar hafa aðeins spilað einn leik en þeir unnu stórsigur á Aserbaídsjan, 6:0.
» Í enska liðinu eru leikmenn á borð við Jordan Henderson og Martin Kelly, sem leika með Liverpool, Jack Rodwell úr Everton, Josh McEachran, Chelsea, Nathan Delfouneso, Aston Villa, Alex Oxlade-Chamberlain úr Arsenal og Danny Rose, Tottenham.