Ráðamenn Kópavogs átta sig nú á ógn er hag bæjarins stafar af fötluðum og öldruðum. Þar komast þau ekki upp með neitt múður. Ferðaþjónusta fatlaðra í Kópavogsbæ er skýrasta dæmið. Hún var boðin út. Að bjóða einstaklingi að gera út á fólk sem getur ekki séð um sig, er á verulega gráu svæði. Siðleysið er næsti bær við. Það segir sig sjálft, að maður með slíka starfsemi ætlar að græða. Boðið er upp á lokalausn á vanda sveitarfélaga vegna ábyrgðar þeirra á þeim sem ekki geta séð um sig sjálf.
Borgarstjórinn, sem illu heilli var kosinn, gat orðið vinsæll hefði hann valið til aðstoðar skilningsríkt fólk sem áttaði sig á skelfilegu álagi sem fylgir fötlun. Nú glymur að spara, oftast frá valdhöfum. Ekkert um að hagræða og jafna laun, eða endurskoða lífeyrisgreiðslur til opinberra starfsmanna. Nú skal sækja verklagsreglur hundrað ár aftur í tímann eins og líkja má framkomu stjórnar Kópavogsbæjar við í þjónustumálum fatlaðra. Þar eru ferðir samnýttar á gróflegan hátt, öndvert við Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík sem er til fyrirmyndar og undanfarandi borgarstjórum til sóma. Að Reykjavíkurborg íhugi að fara á hið lága plan Kópavogsstjórnar í ferðaþjónustumálum fatlaðra og spara á kostnað þessa fólks, mun örugglega stórskaða svokallaða vinstri flokka. Núverandi borgarstjóri rústaði eigin möguleikum sem stjórnmálamaður, um leið og hann tók til máls. Úr tók þó steininn þegar hann lét glepjast og réð Dag B. Eggertsson, sem talar út í eitt um ekki neitt. Fyrir utan Stellu Víðisdóttur, formann velferðaráðs, hefur hann minnstan skilning á vanda fatlaðra og er þeim meira en gagnslaus. Að bjóða út Ferðaþjónustu fatlaðra og vega þannig að lífskjörum þeirra sem verst eru settir, er ekki stórmannlegt. Fyrir mína líka þýddi það viðbótarfrelsissviptingu.
Við sem getum ekki séð um okkur sjálf nema að litlu eða öngvu leyti, erum manneskjur með andlegar og líkamlegar tilfinningar. Stjórn Kópavogsbæjar skilur það ekki. Ég skora á ráðamenn borgarinnar að meta mannúð meira en peninga. Á því græðist mest, því þá hagnast allir. Mannúð og vit geta vel átt samleið. Hjá þeim sem finnur að sér þrengt og líður illa, magnast veikindi og kostnaður eykst. Eins og nú hagar til væri best að setja gamla fólkið í fangelsi og glæpamenn á elliheimili! Þá fengi gamla fólkið aðgang að baði, tölvu, sjónvarpi o.s.frv. Allt starfsfólk talaði íslensku og enginn stæli frá þeim. Þeir sem vildu, gætu stundað nám, smá vinnu og gamla fólkið fengi greitt í stað þess að þurfa að borga háan hluta af ellilífeyrinum sínum. Bubbi Morthens og aðrir góðir kæmu svo til að skemmta á aðfangadag!
Afbrotafólkið fengi þá kaldan mat, engan pening og væri einmana.
Starfsfólkið talaði allt að 10 ólík tungumál og enga íslensku og afbrotafólkið þyrfti að slökkva ljósin kl. 20 og fengi að fara í bað einu sinni í viku. Félagar úr Harmonikufélagi Reykjavíkur kæmu til að skemmta þeim á sjómannadaginn.
ALBERT JENSEN,
trésmiður.
Frá Alberti Jensen