Leyft verður að veiða 31.000 rjúpur í ár. Eru það ríflega helmingi færri rjúpur en gefið var leyfi fyrir að veiða í fyrra. Skýrist það af verri stöðu rjúpnastofnins. Með því að deila ráðlagðri veiði á fjölda skráðra veiðimanna undanfarin ár má þannig gera ráð fyrir um sex rjúpum á hvern veiðimann.
Veiðitíminn verður styttur úr átján dögum í níu daga og dreifist á fjórar helgar í október og nóvember. Þetta er samkvæmt ráðleggingum Náttúrufræðistofu um rjúpnaveiði árið 2011 sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra féllst á og tilkynnt var um í gær.
Áætlaður veiðistofn rjúpunnar var 850.000 fuglar í fyrra og mátti þá veiða 75.000 fugla. Í ár er áætlaður veiðistofn aðeins 350.000 fuglar. Stofninn er í niðursveiflu og má búast við að hann nái lágmarki á árabilinu 2015 til 2018.
Áfram verður sölubann í gildi á rjúpu og rjúpnaafurðum og ákveðið svæði á Suðvesturlandi verður áfram friðað fyrir veiði. ingveldur@mbl.is
SKOTVÍS