Kolbrún Þórisdóttir fæddist á Akureyri 15. júní 1929 og lést á Landspítalanum við Hringbraut 20. september síðastliðinn.

Kolbrún var jarðsungin frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 30. september 2011.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um Kollu er smitandi hlátur og jákvæðni. Á góðri stundu hreinlega ískraði í henni þegar hún var að hlæja. Þegar verið var að ræða hin ýmsu mál, sá hún yfirleitt alltaf eitthvað jákvætt við hlutina og var það mjög einkennandi fyrir hennar afstöðu. Hún sagði að það væru nógu margir í því að tala um það neikvæða, hún nennti því ekki. Flest var í huga Kollu „alveg draumur“ eins og hún komst svo oft að orði.

Á fullorðinsárum fór Kolla á myndlistarnámskeið og hafði hún mjög gaman af því að mála. Einnig var hún dugleg að búa til fallega muni úr keramík. Eftir að Kolla fór á Hrafnistu með Alla sínum, tók hún þátt í árlegri sýningu á sjómannadaginn og þá var nú gaman að koma í heimsókn og sjá hvað hún hafði verið að stússa. Í júní sl. hélt Kolla myndlistarsýningu á Hrafnistu. Þegar við ræddum um málverkin hennar og hrósuðum henni, þá sagði hún: „Ég er búin að ákveða það að ég verð fræg í næsta lífi,“ hógvær eins og alltaf, og svo skellti hún upp úr.

Teitur okkar hafði mjög gaman af að fara til Kollu og Alla á Hrafnistu og var það fastur punktur í tilverunni í hverri viku. Gunna og Kolla áttu margar góðar stundir síðustu ár og voru duglegar að fara saman í bíltúr, fá sér að borða saman og vitja ástvina í kirkjugarðinum. „Við skulum athuga hvort það er ekki allt í fína hjá þeim í garðinum,“ sagði Kolla þegar hún vildi fara í garðinn. Þegar heilsan var farin að gefa sig og Gunna spurði hana hvort hún treysti sér til að fara, sagði Kolla: „Ég get það sem ég ætla mér,“ og svo var haldið af stað.

Elsku Kolla, við þökkum þér fyrir allar ánægjulegu stundirnar og lofum þér því að við verðum dugleg að heimsækja Alla Gunn á Hrafnistu. Svo mikið er víst, þú ert orðin fræg.

Ottó og Guðrún.