Bjarni Þórðarson
Bjarni Þórðarson
Eftir Bjarna Þórðarson: "Sérhverjar álögur á lífeyrissjóðina fela einfaldlega í sér skerðingu á getu þeirra til þess að greiða lífeyrisþegum elli-, maka- og örorkulífeyri."

Fjármálaráðherra hefur nú kunngert fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012. Enn er gerð tilraun til að vega í þann knérunn sem flestir munu sammála um að sé ósnertanlegur að því er skattheimtu varðar. Sérhverjar álögur á lífeyrissjóðina fela einfaldlega í sér skerðingu á getu þeirra til þess að greiða lífeyrisþegum elli-, maka- og örorkulífeyri nú og til framtíðar. Öllum sem hafa vinnutekjur er gert að greiða tiltekið iðgjald til lífeyrissjóðs til þess að afla sér lífeyrisréttinda þegar starfsævi lýkur. Það sæmir ekki stjórnvöldum að fara síðan inn bakdyramegin og ná þar í einhverja fjármuni og skerða þannig lífeyrisréttindi þessa sama fólks. Þó skal tekið fram að um 20% lífeyrisþega verða ekki fyrir fjárhagslegu hnjaski ef sjóðum þeirra er gert að greiða aukaskatt til ríkisins. Þeir eiga aðild að sjóðum sem njóta ábyrgðar opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Þessir aðilar verða því að fjármagna skattheimtuna með auknum álögum á skattþegnana, m.a. á lífeyrisþegana í svonefndum almennum sjóðum sem og aðra sjóðfélaga þeirra. Þeir sjóðfélagar þurfa hins vegar að þola skerðingu á lífeyrisréttindum sínum jafnframt fyrrgreindri þátttöku í fjármögnun skattheimtunnar. Er hér um að ræða brot á jafnræðisreglunni, Steingrímur?

Stjórnvöld verða nú þegar að viðurkenna þá staðreynd að eignir lífeyrissjóðanna eða tekjur þeirra geta aldrei orðið skattstofn. Það stangast einfaldlega á við heilbrigða skynsemi og réttlætiskennd fólksins. Lífeyrissjóðir eru formlega flokkaðir sem fjármálastofnanir með bönkum, vátryggingafélögum og fleiri fyrirtækjum sem eru rekin á viðskiptalegum forsendum fyrir hluthafa þeirra. Öðru máli gegnir um lífeyrissjóðina sem starfa einungis í þágu sjóðfélaganna. Sjóðunum ber að hámarka lífeyrisréttindi þeirra í samræmi við lög og reglur, sem og samþykktir viðkomandi sjóða. Þess vegna gilda allt önnur lögmál um lífeyrissjóðina en aðrar fjármálastofnanir og í raun eiga stjórnvöld að ganga fram fyrir skjöldu í því að verja lífeyrissjóðina.

Höfundur er tryggingastærðfræðingur.

Höf.: Bjarna Þórðarson