Manuel Jimenez
Manuel Jimenez
Gríska knattspyrnuliðið AEK í Aþenu, sem Eiður Smári Guðjohnsen og Elfar Freyr Helgason eru á mála hjá og Arnar Grétarsson yfirmaður knattspyrnumála, leitar nú að nýjum þjálfara en félagið tilkynnti í gærkvöldi að Spánverjinn Manuel Jimenez væri hættur...

Gríska knattspyrnuliðið AEK í Aþenu, sem Eiður Smári Guðjohnsen og Elfar Freyr Helgason eru á mála hjá og Arnar Grétarsson yfirmaður knattspyrnumála, leitar nú að nýjum þjálfara en félagið tilkynnti í gærkvöldi að Spánverjinn Manuel Jimenez væri hættur störfum hjá liðinu, aðeins sex mánuðum eftir að hafa gert það að bikarmeisturum.

Jimenez er 47 ára gamall og kom til AEK frá Sevilla. Hann gerði tveggja ára samning við gríska liðið.

Byrjunin á tímabilinu hefur staðið undir væntingum forráðamanna AEK og þá sérstaklega í Evrópudeildinni en liðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í keppninni, 4:1, á útivelli gegn belgíska liðinu Anderlecht og 2:1 fyrir austurríska liðinu Sturm Graz á heimavelli.

Ekki hefur verið ákveðið hver verður eftirmaður Spánverjans en grískir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að Nikos Kostenoglou, fyrrverandi leikmaður liðsins og þjálfari þess 2008, kæmi sterklega til greina.

AEK hefur spilað fjóra leiki í deildinni og uppskeran þar eru þrír sigrar og eitt tap. Eiður Smári hefur komið við sögu í öllum leikjunum og skorað eitt mark en Elfar Freyr hefur ekki verið í leikmannahópi liðsins sem stendur illa að vígi fjárhagslega og skuldar leikmönnum, starfsfólki og Breiðabliki peninga.

gummih@mbl.is