Líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær er sú staða nú uppi að búið er að verja tugum milljarða króna í að auka framboð á rafmagni í landinu til að unnt sé að auka framleiðslu og skapa störf. Þrátt fyrir þetta hafa engin störf orðið til.

Líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær er sú staða nú uppi að búið er að verja tugum milljarða króna í að auka framboð á rafmagni í landinu til að unnt sé að auka framleiðslu og skapa störf. Þrátt fyrir þetta hafa engin störf orðið til.

Ástæðan fyrir þessu er að hér á landi er ríkisstjórn sem ítrekað og með ýmsum hætti bregður fæti fyrir byggingu þeirra framleiðslufyrirtækja sem hafa áhuga á og getu til að nota orkuna til atvinnu- og verðmætasköpunar.

Ríkisstjórnin er hins vegar afar áhugasöm um að gera eitthvað annað við orkuna og allra helst auðvitað að gera eitthvað annað en að nýta orkuna.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er til að mynda búin að skapa tugi þúsunda starfa í nokkrum ræðum sem hún hefur flutt á liðnum misserum. Sætir furðu að nokkur skuli vera eftir á atvinnuleysisskrá og að einhver hafi fundist til að lokka til Noregs, burt frá öllum þessum aragrúa starfa.

En vandinn við þessi eitthvað-annað-störf sem fjallað er um í ræðum ráðamanna nú um stundir er að þau eru hvergi til nema þar.

Því miður er það svo að enginn lifir af því að vinna þessi eitthvað-annað-störf og enginn fæðir og klæðir fjölskylduna eða kemur sér upp þaki yfir höfuðið með eitthvað-annað-störfum.

Breytir þá engu hversu margir tugir þúsunda þau eru eða hversu oft þeim er lofað.