Rafbíllinn frá Toyota Motorsport í metakstrinum í Nürburgring þar sem hraðametið féll.
Rafbíllinn frá Toyota Motorsport í metakstrinum í Nürburgring þar sem hraðametið féll.
Brautarmet fyrir rafbíla í hinni gömlu og frægu kappakstursbraut Nürburgring er fallið að nýju. Á dögunum var þar á ferð ofurbíll Toyota, hinn svonefndi TMG EV P001.

B rautarmet fyrir rafbíla í hinni gömlu og frægu kappakstursbraut Nürburgring er fallið að nýju. Á dögunum var þar á ferð ofurbíll Toyota, hinn svonefndi TMG EV P001. Bílnum ók þýski ökuþórinn Jochen Krumbach og var hann 7:47,794 mínútur með Nordschleife-hringinn, sem er 20,832 km.

Mikil bæting

Eldra metið setti franski ökuþórinn Stephane Caillet á Peugeot EX1-rafbíl í vor en það var 9:01,338 mínútur. Bætingin er því mjög mikil eða rúm mínúta. Á sínum tíma bætti Peugeotinn met Mini-rafbíls sem var 9:51,45, sett í fyrra. EX1 var með tvo samtals 340 hestafla rafmótora og komst í 100 km/klst úr kyrrstöðu á 2,5 sek.

EV P001-bíllinn er búinn tveimur rafmótorum, samtals 280 kílóvött og 375 hestafla, sem skila 800 Nm torki og 260 km hámarkshraða. Hann nær 100 km/klst hraða úr kyrrstöðu á aðeins 3,9 sekúndum. Smíðaður úr léttmálum og gerviefnum vegur hann aðeins 970 kíló. Toyota hyggst smíða og selja þennan bíl til keppni á rafbílum þegar á næsta ári.

Sjónarvottar að akstrinum um síðustu helgi segja það hafa verið undarlega tilfinningu að sjá bílinn fljúga framhjá á gríðarlegum hraða og einungis hvin heyrast frá vindinum, auk væls frá dekkjum í beygjum.

agas@mbl.is