Þorbjörg Elín Fríðhólm Friðriksdóttir fæddist 6. október 1951 í Kópavogi. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 15. desember 2010.

Foreldrar Þorbjargar voru Friðrik Björnsson, rafvirkjameistari í Sandgerði, f. 2. mars 1927, d. 17. janúar 2004 og Þórhildur Sigurðardóttir hárgreiðslukona, f 10. júlí 1927. Þorbjörg ólst að mestu upp hjá systur Þórhildar, Erlu Fríðhólm Sigurðardóttur, f. 6. nóvember 1922, og eiginmanni hennar Hallbirni Bergmann Elímundarsyni, f. 21. október 1918, d. 21. mars 2009. Mjög kært var milli Þorbjargar og þeirra hjóna og leit hún á þau sem sína aðra foreldra. Hún var þó jafnframt alltaf í mjög nánum tengslum við foreldra sína og systkini.

Systkini Þorbjargar eru Steinunn Fríðhólm, f. 17. ágúst 1948, Sigurður Sævar Fríðhólm, f. 18. desember 1949, Jón Fríðhólm, f. 10. nóvember 1954, Friðrik Þór, f. 12. nóvember 1961, Fanney, f. 7. nóvember 1964 og Heiður Huld, f. 6. maí 1967.

Þorbjörg giftist 18. desember 1971 eftirlifandi eiginmanni sínum, Rúnari Þórarinssyni, starfsmanni IGS á Keflavíkurflugvelli, f. 27. maí 1950. Rúnar er sonur hjónanna, Þórarins Árnasonar, f. 24. maí 1924, og Vagnbjargar Jóhannsdóttur, f. 1. september 1925, d. 3. maí 2005.

Börn Þorbjargar og Rúnars eru: 1) Erla Björg, f. 14. nóvember 1970, kennari, búsett í Sandgerði, gift Egil Aagaard-Nilsen, f. 13. desember 1964, sölumanni í heildverslun. Börn þeirra eru Anja Rún, f. 23. nóvember 1991, Hélène Rún, f. 19. desember 1994 og Daníel, f. 7. febrúar 2002. 2) Hallbjörn Valgeir, f. 13. júní 1981.

Þorbjörg ólst upp í Kópavogi. Hún lauk grunnskólaprófi frá Kópavogsskóla og stundaði nám við Húsmæðraskólann á Blönduósi 1968. Hún hóf starfsferil sinn í Kron á Hlíðarvegi í Kópavogi fjórtán ára gömul. Hún vann síðan mestan hluta ævi sinnar við verslunarstörf og var m.a. verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Suðurnesja í Garðinum í sjö ár. Þorbjörg endaði starfsferil sinn hjá Veitingaþjónustu IGS, Keflavíkurflugvelli, árið 2005, en þá varð hún að hætta störfum vegna veikinda sinna.

Þorbjörg og Rúnar stofnuðu sitt fyrsta heimili í Reynihvammi 9 í Kópavogi á efri hæðinni hjá Erlu og Hallbirni. Þau bjuggu á Reykjavíkursvæðinu til ársins 1981 en byggðu sér svo hús í Sandgerði og hafa búið þar síðan.

Þorbjörg var ötul í félagsstarfi og var m.a. í kvenfélaginu Hvöt, Sandgerði til marga ára, vann nefndarstörf fyrir sveitarfélagið og var heiðruð á 1. maí fyrir störf sín í þágu verkalýðsins fyrir Verslunarmannafélag Suðurnesja. Hún var mikil jafnaðar- og baráttukona með sterka réttlætiskennd. Þegar veikindi Þorbjargar leiddu til þess að hún þurfti að styðjast við öndunarvél nánast daglega stóð hún fyrir söfnun til kaupa á nýrri öndunarvél, því samviskan nagaði hana fyrir að einoka einu vélina sem fyrir var.

Útför Þorbjargar fór fram í kyrrþey hinn 21. desember 2010 að ósk hinnar látnu.

Elsku besta mamma mín. Í dag hefðirðu fagnað þínum sextugasta afmælisdegi. Ég hef ekki treyst mér til að setjast niður og skrifa þér þessa kveðju fyrr en nú. Þín er svo sárt saknað. Þú varst einstök manneskja og við vorum svo náin. Þegar þú fórst missti ég ekki aðeins móður heldur einnig mikinn trúnaðarvin. Ég gat rætt um allt við þig og þú dæmdir aldrei. Það var líka sama hversu veik þú varst og ég reyndi að hlífa þér fyrir mínum áhyggjum og erfiðleikum, alltaf vissirðu þegar eitthvað amaði að. Það gekk ekkert að reyna að fela það fyrir þér.

Elsku mamma, þú varst þekkt fyrir að vera dugnaðarforkur í vinnu. Ég man eftir því þegar ég vann með þér í Samkaupum, þá töluðu bæði viðskiptavinir og samstarfsfólk okkar um konuna sem var alltaf brosandi. Það varst þú. Ég sé þig fyrir mér koma askvaðandi út af lagernum með bros sem lýsti upp alla búðina. Jafnvel síðustu stundirnar sem við áttum saman á spítalanum voru fylltar af gleði og hlátri. Við gátum alltaf hlegið þótt mér fyndist dónabrandararnir þínir stundum óviðeigandi.

Þegar þú fórst leið mér eins og stór hluti af mér hefði horfið. Þú varst límið sem hélt þessari litlu fjölskyldu saman. Þú varst mjög réttsýn og með sterka réttlætiskennd. Ef þér fannst brotið á einhverjum varstu tilbúin að verja rétt hans fram í rauðan dauðann. Ég sé það í dag og finn hversu mikið af þér fylgir okkur systkinunum. Við höfum sama eldmóð og þú í starfi og ég er þér svo einstaklega þakklátur. Ég sé það nú að það er ekki hluti af mér sem er horfinn heldur er það hluti af þér sem lifir með mér. Þann hluta mun ég varðveita og rækta enda eru það mínar bestu hliðar. Stuttu eftir að þú kvaddir okkur kom tímabil sem ég vissi ekki hvernig ég ætti að takast á við lífið án þín. Þú varst eins konar öryggisnet sem var svo gott að vita af. Það var sama hvað bjátaði á; ég vissi að ég gat alltaf leitað til þín og þú minntir mig á það daglega. Ef ég lendi á krossgötum eða finn þörfina til að leita til þín þá set ég mig í stellingar og hugsa til þín og hvað þú myndir ráðleggja mér eða segja. Ég veit að þú fylgist með mér og ég hugsa hvert skref sem ég tek með tilliti til þess hvað þér myndi finnast um það. Ég veit vissulega að þú ert ekki sammála öllu en við vorum það heldur ekki alltaf.

Kæra móðir mín, ég er enn að glíma við sorgina og söknuðinn en ég hef einsett mér að gera þig stolta og rækta í mér þau manngildi sem þú hafðir. Umhyggja þín til annarra var eftirtektarverð. Það lýsir sér vel í þátttöku þinni í uppeldi lítils stráks á Indlandi sem þú talaðir alltaf um sem bróður minn. Það var einstakt hvað þú varðst spennt þegar þú fékkst bréf frá honum og rakst á eftir mér að koma í heimsókn til að lesa bréfið fyrir þig. Svo þegar hann var kominn til manns tókstu við stelpu. Þá átti ég skyndilega aðra systur.

Ég á þér svo margt að þakka og ég vildi að ég gæti talið það allt upp. Það fer um mig sérstök tilfinning að skrifa þessi orð til þín og mér líður eins og ég sé að tala við þig og ég tími varla að hætta þótt ég glími við að halda aftur af tárunum. Minning þín mun lifa áfram. Mér hefur tekist að sigrast á eigingirninni og sætt mig við að loks fékkstu friðinn og hvíldina sem þú þurftir. Ég mun ávallt sakna þín og halda í heiðri minningu þína og þau gildi sem þú kenndir mér. Hvíl í friði, elsku mamma.

Hallbjörn Valgeir Rúnarsson.

Elsku móðir mín. Nú eru liðnir níu mánuðir síðan þú fórst og það er núna fyrst sem ég treysti mér til að setjast niður og skrifa mína hinstu kveðju til þín. Sorgin og söknuðurinn er svo mikill að flesta daga kenni ég til. Mér finnst það svo skrítið að geta ekki talað við þig, að fá ekki daglega símtalið: Hæ, hvað er að frétta?

Þó svo að ég hafi vitað það í langan tíma að veru þinni hér væri senn að ljúka var það mér mikið áfall þegar það gerðist. Ég trúði því til hinstu stundar að þú myndir rífa þig upp úr þessu eins og svo oft áður. Í eigingirni minni hefði ég svo gjarnan viljað fá ein jól í viðbót.

Þó svo að þú hafir verið rúmliggjandi í eitt og hálft ár varstu samt sem áður miðja og stoð litlu fjölskyldunnar þinnar. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvernig þú hélst okkur öllum saman fyrr en þú varst farin og ég tekin við hlutverki þínu.

Ég held að það líði ekki sá dagur að mér verði ekki hugsað til þín, að ég sakni þín og finnist það svo ósanngjarnt að þú skulir vera farin. Ég hugsa um börnin mín sem fá ekki að njóta þín lengur. Daníel sem átti hug þinn og hjarta og saknar þín svo óendanlega mikið. Hann segir ekki margt en það koma tímar sem hann orðar söknuð sinn og hugsanir.

Við vorum ekki alls fyrir löngu stödd við lítinn læk. Það var snjór úti og stráin stóðu upp úr snjónum við lækjarbakkann. Daníel sat við bakkann og bjó til snjóbolta, stakk stráum í gegnum boltana og fleytti þeim á lækinn, hann sagði að þeir væru handa þér. Ég er viss um að þann dag sast þú á himnum og brostir í gegnum tárin.

Í dag er merkilegur dagur sem við systkinin erum ákveðin í að halda hátíðlegan. Þú hefðir fyllt þinn sjötta tug á þessum merkisdegi. Af því tilefni höfum við efnt til tónleika í þínu nafni, þar sem ágóðinn rennur til söfnunarinnar sem þú stóðst svo hetjulega fyrir.

Elsku mamma mín til hamingju með daginn – ég vona að allt himnaríki haldi upp á daginn með þér.

„I love you“.

Þín dóttir,

Erla Björg.

Ég horfi í undrun á heiminn og þig

á hönd þína og ljósa kinn.

Þú komst til mín, barn mitt, á kyrrlátri stund.

Og ég kyssti þig, ljúfur minn.

Og andlit þitt var eins og viðkvæmt blóm

sem vex upp í himininn.

Það var eins og guð hefði vitjað mín,

ég veit ekki hvað það er

en ekkert í heiminum öllum er til

sem ann ég heitar en þér.

Þig aldrei ég undir brjóstum bar

en ég ber þig í hjarta mér.

(Gunnar Dal)

Þín fóstra,

Erla Sigurðardóttir.

Amma mín,

Þú barst mér í draumi um daginn

Þú sagðir ekki neitt.

Þú ert mér huggun í harmi,

ó hve ég sakna þín heitt.

Nú á ég þig í draumi

og í minningum mínum ég geymi þig.

Amma mín,

ég veit að þú verður ei ein á himni,

því Lúsý mín, hún gætir þín.

Faðir þinn opnum faðmi bíður eftir dóttur sinni.

Þú verður ávallt mín.

Þín ömmustelpa,

Hélène Rún.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Elsku yndislega systir okkar.

Í dag hefðir þú orðið 60 ára. Andlát þitt fyrir 10 mánuðum var engan veginn tímabært. Þú duglega kona, sem ekkert aumt máttir sjá og alltaf settir þú aðra en sjálfa þig í forgang. Stórt skarð var höggvið í systkinahópinn okkar þó svo að við værum ekkert alltaf að hittast þá var samband okkar alltaf innilegt og ástríkt. Í veikindum þínum síðustu árin sýndir þú svo sannarlega hversu dugleg þú varst.

Komst á fót söfnun til styrktar Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem þú afrekaðir að safna fyrir ytri öndunarvél fyrir lungnasjúklinga, söfnunin gekk svo vel að fullt var í afgang sem nýttist til annarra góðra hluta. Prjónarnir voru hluti af þér og mikið af þér tekið þegar þú gast ekki prjónað sjölin þín og sjónvarpssokkana lengur vegna veikindanna. Síðustu vikuna af ævi þinni hrakaði mömmu svo að hún ákvað að fylgja þér og ert þú í faðmi hennar og pabba núna.

Þú safnaðir póstkortum í mörg ár og á hverju ári var takmarkið að slá út fyrra metið frá árinu áður. Það var skrítið að fara til útlanda eftir fráfall þitt og senda ekkert kort, best hefði nú samt verið að hafa bara bréfalúgu við leiðið þitt og getað sent þér þau áfram, þér hefði ekki þótt það leiðinlegt. Elsku stóra systir, við segjum að lokum „love you“ eins og þú sagðir svo oft þegar þú kvaddir að loknu símtali. Minning þín er ljós í lífi okkar.

Þínar „litlu“ systur,

Fanney og Heiður Huld.

HINSTA KVEÐJA
Amma mín, ég elska þig svo mikið og ég vildi alls ekki að þú myndir deyja. Þú varst alltaf svo góð við mig. Afi saknar þín mikið.
Þinn
Daníel.