Bólusetning Árlega greinast um 1.700 konur á Íslandi með forstigsbreytingar í leghálsi og 14-17 konur með leghálskrabbamein. Bólusetning við HPV-veirunni er talin geta komið í veg fyrir um 70% leghálskrabbameins.
Bólusetning Árlega greinast um 1.700 konur á Íslandi með forstigsbreytingar í leghálsi og 14-17 konur með leghálskrabbamein. Bólusetning við HPV-veirunni er talin geta komið í veg fyrir um 70% leghálskrabbameins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.

Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

„Heilbrigðisyfirvöld misstu þarna af góðu tækifæri til að nánast útrýma okkar útbreiddasta kynfærasjúkdómi, sem eru kynfæravörtur,“ segir Kristján Oddsson kvensjúkdómalæknir, en í síðasta mánuði var á vegum sóttvarnalæknis hafin almenn bólusetning stúlkna í 7. og 8. bekk grunnskóla gegn HPV-veirunni sem er algeng meðal ungs fólks.

Margar tegundir eru til af HPV-veirunni og geta sumar valdið frumubreytingum í leghálsi og jafn-vel leghálskrabbameini síðar.

Um mitt ár 2010 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um að veita fé í bólusetningar gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini. Bólusetning fer fram á heilsugæslustöðvum með efninu Cervarix og fá stúlkurnar þrjár sprautur á sex til tólf mánaða tímabili.

Tapað tækifæri til útrýmingar

Kristján segir að bóluefnin Cerv-arix og Gardasil vinni bæði gegn 60-70% tilfella af leghálskrabbameini. Það þýði að 30-40% kvenna séu óvar-in gegn meininu.

Bólusettar konur þurfi því enn að fara í krabbameinsleit svo að hægt sé að greina meinið á frumstigi.

Gardasil vinni hins vegar einnig gegn kynfæravörtum, en áætlað er að 500-800 ný tilfelli þeirra greinist hér á landi árlega.

Hefði ekki átt að fara í útboð

Í þingsályktunartillögu Alþingis hafi einnig verið talað um að verja gegn HPV-smiti en heilbrigðisyfirvöld hafi hugsanlega gert mistök með því að bjóða út bólusetningu. Útboð sé nauðsynlegt ef sambærileg vara sé á markaði en hún sé ekki til í þessu tilfelli og aldrei hefði því átt að fara í útboð.

„Talið er að um 12% kvenna undir 45 ára fái kynfæravörtur. Þetta þýð-ir um 250 stúlkur í hverjum ár-gangi,“ segir Kristján. Að minnsta kosti jafnmargir karlmenn fá kynfæravörtur. Þótt sjúkdómurinn sem slíkur sé ekki alvarlegur geti hann valdið einkennum svo sem sviða og brunatilfinningu á kynfærum. Þá sé andleg vanlíðan oft mikil.

„Ég held að mörgum læknum þyki siðferðilega erfitt að mæla með notkun Cervarix þegar hægt hefði verið að nota Gardasil sem veitir mun víðtækari vörn,“ segir Kristján.

HPV-BÓLUSETNING

Mikill verðmunur á efni

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir hefur umsjón með framkvæmd bólusetningar stúlkna gegn HPV (Human Papilloma Virus). Þegar spurt er hvað hafi ráðið vali á bóluefni segir hann að horft hafi verið á verndina gegn leghálskrabba. Farið hafi verið í útboð og þar metnir ýmsir þættir. Horft hafi verið til varna gegn kynfæravörtum en verðmunurinn hafi gert útslagið. Þegar spurt er hvort ekki hefði verið hagkvæmara að nýta Gardasil og koma jafnframt í veg fyrir útbreiðslu vartnanna segir Haraldur það hafa verið metið „en verðmunurinn var þvílíkur að það dugði ekki til“. Hann segist ekki geta nefnt tölur en annað bóluefnið hafi verið 70% ódýrara en hitt.