[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norrænir músíkdagar verða settir í kvöld með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu kl. 19.30. Á efnisskránni er m.a.

Norrænir músíkdagar verða settir í kvöld með tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu kl. 19.30. Á efnisskránni er m.a. konsert fyrir harmónikku og fiðlu eftir finnska tónskáldið Uljas Pulkkis, en einleikarar eru Minna Pensola á fiðlu og og Janne Rättyä á harmónikku. Hljómsveitarstjórn er í höndum Martyn Brabbins. Þá verður frumflutt nýtt tónverk eftir ungt íslenskt tónskáld, Einar Torfa Einarsson, sem pantað var sérstaklega fyrir Norræna músíkdaga.

„Við búum svo vel á Íslandi að eiga svona frábæra hljómsveit sem er til í að taka þátt í þessari hátíð með okkur. Það er mjög sérstakt,“ segir Pétur Jónasson, listrænn stjórnandi Norrænna músíkdaga. Bendir hann á að engin sinfónísk verk hafi verið flutt á Norrænum músíkdögum þegar þeir voru haldnir í Kaupmannahöfn á síðasta ári og sama verði upp á teningnum þegar hátíðin verði haldin í Stokkhólmi á næsta ári. Segir Pétur mikið ánægjuefni hversu mikinn áhuga stjórnendur Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi á nýrri tónlist.

Að tónleikum loknum verður boðið upp á dagskrá í Silfurbergi með gjörningum eftir Andrus Kallastu, Per Magnus Lindborg og Þuríði Jónsdóttur þar sem tölvu- og margmiðlunartækni er nýtt til hins ýtrasta til að skapa nýstárlegan hljóðheim og einstaka upplifun. Flytjendur eru Rein Laos leikari, Sverrir Guðjónsson kontratenor og Ólöf Nordal myndlistarkona. Dagskráin í Silfurbergi hefst kl. 22.00.