Ákall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til mannkyns var birt hér í Morgunblaðinu í gær (h. 4. okt.) Þar telur hann upp brýnustu og mikilvægustu verkefni mannkyns í dag að hans mati í tilefni framboðs hans til stöðu sinnar annað kjörtímabilið í röð. Geta langflestir jarðarbúar skrifað hjartanlega upp á flest af því sem þar var talið upp (nema helst nokkrir harðsvíraðir hægri menn allra landa), s.s. sjálfbæra þróun, bindandi sáttmála gegn loftslagsbreytingum, nýtt kerfi í orkumálum jarðar, meiri mannréttindi, mengun, bætta stöðu kvenna og ungmenna í heimi hér o.fl. o.fl.
En þessi góði maður gleymdi alveg óhreinu börnunum hennar Evu. Hinum stóru blettum á samvisku mannkyns í dag. Blettunum sem yfirgnæfa allt og allt, hvernig sem á það er litið.
Þjáning jarðar eykst með hverju árinu sem líður. Dýrin sem gista þessa jörð með okkur manndýrunum þola sífellt ólýsanlegri þjáningar vegna siðlausrar siðmenningar mannsins. Grátur þessara einstaklinga nær ekki eyrum neinna ráðamanna heimsins. Þeim og þorra þegna þeirra er líka alveg sama, bara ef kjötið á borðum þeirra bragðast vel, og stolnu loðskinnin hlýja þeim vel í kuldanum á leið í tónleikahöllina.
Langljótasti blettur mannkyns í dag er þessi sívaxandi þjáning dýranna okkar vegna. Þrengslabúskapurinn (factory farming), tilraunir á dýrum í tilraunastofum, og hinar afar sársaukafullu veiðar á dýrum í skemmtunarskyni mannsins eru svo ljótur blettur á mannkyni að það er nánast ofar öllum skilningi. – Og því miður: Langflestum jarðarbúum er slétt sama um örlög og þjáningar þessara meðbræðra okkar og systkina.
Næst á eftir helför dýranna eru smánarblettir mannkyns sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna minntist heldur ekki einu orði á. Ekki orð um allar fóstureyðingar heimsins. Lætur nærri að þriðji til fjórði hver jarðarbúi sé myrtur með köldu blóði í móðurkviði. Ekki orð um það. Bág staða kvenna og ungmenna í heiminum hefur m.a. verið lagfærð með því að gefa konum og læknum heimsins það vald frá Guði að drepa alla þá menn og konur í móðurkviði sem ekki voru eða eru velkomnir í þessa krumpuðu siðmenningu. Væri nú ekki nær að laga félagslega stöðu kvenna á einhvern annan hátt en þennan ömurlega? Það myndi ekki standast nein réttarhöld að drepa einhvern mann úti í bæ af því að staða móður hans eða fjölskyldu væri svo bág (?).
Hætt er við að þessum málum væri öðru vísi skipað hefðu bæði jarðarbúar í móðurkviði sem og hin dýrin atkvæðisrétt í öllum almennum kosningum. Hljóðið í frambjóðendum og liðsmönnum þeirra myndi snarlega verða sveigjanlegt ef svo væri, líkt og hjá vinum þeirra Ragnari Reykási forðum. Einnig hjá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
Höfundur er þjóðsagnasafnari og m.a. forseti Músavinafélagsins.