Búðarháls Lánið er til 21 árs að fjárhæð um 5,4 milljarðar króna.
Búðarháls Lánið er til 21 árs að fjárhæð um 5,4 milljarðar króna. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Landsvirkjun hefur undirritað lánasamning við SEB AG í Þýskalandi vegna verksamnings sem fyrirtækið gerði um framleiðslu og uppsetningu á véla- og rafbúnaði Búðarhálsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur undirritað lánasamning við SEB AG í Þýskalandi vegna verksamnings sem fyrirtækið gerði um framleiðslu og uppsetningu á véla- og rafbúnaði Búðarhálsvirkjunar. Lánið er til 21 árs að fjárhæð um 45 milljónir Bandaríkjadollara eða að jafnvirði um 5,4 milljarða króna. Í tilkynningu segir að lánið sé á hagstæðum kjörum og að greiðslur jafnra afborgana höfuðstóls hefjist árið 2014.

Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, segir að um sérstaka lánategund sé að ræða, svokallaða verktakafjármögnun. Samningar um slík lán séu gjarnan til lengri tíma og tengdir ákveðnum verkþætti. Framleiðandi vélbúnaðar, eins og í þessu tilfelli frá Þýskalandi, hafi í upphafi milligöngu um mögulega fjármögnun síns hluta framkvæmdanna, með tilvísun í að hún ýti undir útflutning frá landinu.

„Hluti af útboði verkefnisins á sínum tíma var annars vegar að óska eftir tilboði í vélbúnað með uppsetningu og hins vegar möguleikum á fjármögnun tilboðsins,“ segir hann. Í kjölfarið leitaði verktakinn til útflutningssjóðs og kom á sambandi milli Landsvirkjunar og SEB.

ivarpall@mbl.is