Hlutfall milli ríkistryggðrar skuldabréfaútgáfu og skuldabréfaútgáfu einkaaðila í kauphöll hefur umturnast eftir hrun, að sögn Magnúsar Harðarsonar, yfirmanns viðskiptasviðs Kauphallarinnar.

Hlutfall milli ríkistryggðrar skuldabréfaútgáfu og skuldabréfaútgáfu einkaaðila í kauphöll hefur umturnast eftir hrun, að sögn Magnúsar Harðarsonar, yfirmanns viðskiptasviðs Kauphallarinnar.

Fyrir hrun voru skuldabréf ríkisins og Íbúðalánasjóðs 41% af útgefnu markaðsvirði og fyrirtækjaskuldabréf 53%. Nú eru ríkistryggð bréf 79% og fyrirtækjaskuldabréf 8%. Það sem eftir stendur er frá öðrum útgefendum.

Hann segist eiga von á því að fyrirtæki sæki í skuldabréfaútgáfu í auknum mæli á næstunni, m.a. muni ýmis fyrirtæki huga að útgáfu þegar endurskipulagningu lýkur. „Það er augljóst að fjárfesta þyrstir í fleiri fjárfestingarmöguleika á íslenskum fjármálamarkaði. Við teljum að það séu mikil tækifæri fyrir fyrirtæki á skuldabréfamarkaði, ekki síður en hlutabréfamarkaði,“ segir hann.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu hafa sex fyrirtæki gefið út áætlun um skráningu á hlutabréfamarkað. Magnús segist vonast til þess að 2-3 félög verði komin inn í Kauphöll fyrir áramót.

Morgunblaðið greindi einnig frá því á þriðjudag að Íslandsbanki hefði fengið leyfi frá Fjármálaeftirlitinu til þess að gefa út sértryggð skuldabréf. Verður þar um að ræða fyrstu nýju útgáfu banka í kauphöll frá hruni, en nokkrir fagfjárfestingasjóðir hafa gefið út ný bréf á þeim þremur árum sem síðan eru liðin. ivarpall@mbl.is