Damaskus.

Damaskus. AFP | Háttsettur aðstoðarmaður Bashirs al-Assads, forseta Sýrlands, fagnaði því í gær að Kínverjar og Rússar skyldu beita neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag til að stöðva ályktun um að fordæma valdbeitingu sýrlenskra stjórnvalda gegn mótmælendum og sagði að ákvörðun þeirra „um að standa með fólkinu og gegn óréttlæti“ væri „söguleg“.

Sýrlenska þjóðarráðið, sem stjórnarandstaða landsins myndaði í Tyrklandi á sunnudag þvert á hið pólitíska litróf, sagði hins vegar að með því að beita neitunarvaldi gegn tillögunni, sem Evrópa lagði fram, gætu Kínverjar og Rússar ýtt undir að andstæðingar Assads beittu valdi.

Stjórnvöld á Vesturlöndum hörmuðu og fordæmdu atkvæði Kínverja og Rússa.

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði að þeir sem hefðu beitt neitunarvaldi myndu „hafa það á samviskunni“ og Gerard Araud, sendiherra Frakklands hjá SÞ, sagði að neitunarvaldi hefði verið beitt „gegn arabíska vorinu“.

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði að þrátt fyrir að ályktunin hefði ekki náð fram að ganga myndu Tyrkir ótrauðir beita stjórn Assads þvingunaraðgerðum.

Vitalí Tsjúrkin, sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að „óviðunandi“ væri að í ályktuninni hefði verið hótað ofbeldi.

Sameinuðu þjóðirnar segja að sýrlenskar öryggissveitir hafi myrt minnst 2.700 mótmælendur. Fréttir herma að ellefu sýrlenskir mótmælendur hafi verið myrtir á þriðjudag.

Atkvæðagreiðslan
» Níu ríki greiddu á þriðjudag atkvæði í öryggisráði SÞ með ályktun um að grípa til „markvissra aðgerða“ ef stjórn Sýrlands héldi áfram að beita mótmælendur valdi.
» Kínverjar og Rússar beittu neitunarvaldi. Fjögur ríki sátu hjá.