Galdrakarl Will Oldham er listamaður fram í kynlega fingurgóma.
Galdrakarl Will Oldham er listamaður fram í kynlega fingurgóma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Will Oldham, sem hljóðritar oftlega undir nafninu Bonnie 'Prince' Billy, varð Íslandsvinur mikill eftir vel heppnaðar hljómleikaheimsóknir hingað um og upp úr 2000.

Will Oldham, sem hljóðritar oftlega undir nafninu Bonnie 'Prince' Billy, varð Íslandsvinur mikill eftir vel heppnaðar hljómleikaheimsóknir hingað um og upp úr 2000. Stutt var þá síðan þrekvirkin I See a Darkness (1999) og Ease Down the Road (2001) höfðu komið út og jafnframt stutt í það þriðja, Master and Everyone (2003). Okkar maður eignaðist harðsnúinn hóp aðdáenda hérlendis um þetta leyti og varð jafnframt aðdáandi okkar um leið, átti eftir að vinna með hérlendu fólki og fór svo að Valgeir Sigurðsson (Gróðurhúsið/bedroom community) stýrði upptökum á plötu hans frá 2006, The Letting Go.

Ein Íslandstengingin til fylgir þessari nýjustu plötu prinsins, temmilega langsótt þó, en plötuna vann hann náið með Shahzad Ismaily sem vann og náið með Ólöfu Arnalds að Innundir skinni.

Altént, Bonnie Prince Billy nafnið var í upphafi notað er Oldham hallaði sér í kántríáttir en það hefur ekki endilega verið reyndin á fjöldamörgum plötum hans undir þeim hatti síðasta áratuginn. Wolfroy Goes to Town snertir þó nokkuð á þeim flötum, minnir dálítið á hina afslöppuðu (á köflum aðeins of afslöppuðu) plötu Beware (2009) en einnig á meistarastykkið hljóðláta Master and Everyone. Platan er eiginlega eins og afkvæmi þessara tveggja platna, hún er ekki eins ofurlágvær og Master... en að sama skapi er meira bit í henni en á Beware. Platan ber þá með sér sterka heild, ekkert lag er öðru ofar og hún rúllar örugglega áfram. Vert er þá að geta söngkonunnar Angel Olsen sem ljær nokkrum lögum undurblíða en um leið sérkennilega rödd. Oldham er auðheyranlega við tónlistarlega hestaheilsu og er það vel, enda hefur þessi hæfileikamaður mikið að gefa þegar hann er vel „tengdur“.

Arnar Eggert Thoroddsen

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen