„Það eru iðulega sömu hugmyndirnar sem koma upp um þetta leyti árs og fela í sér að undirbúa heimilið fyrir veturinn,“ segir Halla Bára, innanhússráðgjafi.
„Það eru iðulega sömu hugmyndirnar sem koma upp um þetta leyti árs og fela í sér að undirbúa heimilið fyrir veturinn,“ segir Halla Bára, innanhússráðgjafi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar líður á haustið þykir mörgum gott að fara yfir heimilið og klæða það í vetrarlegri búning sem fylgir myrkri. Þetta er hið sama og þegar við pökkum niður sumarfötunum og förum að klæða okkur í hlýrri föt.

Þegar líður á haustið þykir mörgum gott að fara yfir heimilið og klæða það í vetrarlegri búning sem fylgir myrkri. Þetta er hið sama og þegar við pökkum niður sumarfötunum og förum að klæða okkur í hlýrri föt. „Auðvitað má tala um tískustrauma sem fylgja hausti. En það er hægt að líta framhjá slíku þegar við viljum gera heimilið hlýrra með tilliti til árstíðar,“ segir Halla Bára Gestsdóttir master í innanhússhönnun sem starfar við ráðgjöf á því sviði.

Undanfarið hefur áherslan í innanhússhönnun verið, að sögn Höllu Báru, í þá átt að hvetja fólk til að hafa meira dót í kringum sig, blanda saman gömlu og nýju og á það einnig við um fyrirtæki sem hafa verið þekkt fyrir einfaldleika og naumhyggju.

Ekki fylla skúmaskot

„Þá er ekki átt við að fylla öll skúmaskot af dóti, heldur sækja jafnvel í geymsluna gamla og fallega hluti sem manni þykir vænt um og færu vel í bókahillunni. Einn slíkur hlutur gerir til dæmis mjög mikið inni á minimalísku heimili. Gömlu stytturnar vekja athygli í barnaherberginu, kista fær nýtt hlutverk í stofu og gamla málverkið er flott fyrir ofan hvíta skenkinn. Með því að endurhugsa heimilið á þennan hátt verður það jafnframt persónulegra, kallar fram góðar minningar og kemur heimilisfólki til að líða vel,“ segir Halla Bára og heldur áfram:

„Það eru iðulega sömu hugmyndirnar sem koma upp um þetta leyti árs og fela í sér að undirbúa heimilið fyrir veturinn. Í raun er besta ráðið að gera bara miklu meira úr þeim. Það er hægt að lýsa þessu á þann hátt að kveikja ekki aðeins á einu kerti heldur fleirum. Þannig náum við fram meiri stemmningu og áhrifum.“

Ljós í krukku

Lýsing er grundvallaratriði í myrkri. „Gott er að nota lampa og kerti á annan hátt en við erum vön. Setja lampa á stóran bakka, nokkra kertastjaka með, litla skál og mynd í ramma. Setja lampa á eldhúsborðið ef það stendur upp við vegg, á eldhúsbekkinn þar sem mikið er verið að athafna sig,“ segir Halla Bára sem mælir með því að viða að sér kertastjökum af öllum stærðum og gerðum, nota þá saman og fylla upp í með krukkum! Safna þeim, nota margar saman, setja út í glugga eða fylla heilan bakka.

Heimili í vetrarbúningi snýst mikið til um textíl. Þar má blanda saman ólíkum mynstrum og áferðum. „Það má prjóna púðaver og teppi í sófann, það er ótrúlega fallegt og hægt að velja sjálfur liti og mynstur. Mottur eru líka mikilvægar, þeim má til dæmis púsla saman og hafa tvær, jafnvel þrjár undir sófaborðinu.

Fyrir þá sem eru tilbúnir í smá framkvæmdir og hafa hugsað sér að mála, má benda á að hræðast ekki að nota dökka liti. Þeir kalla fram sterk áhrif og magna upp ljósu litina sem hafa verið ríkjandi í gólfefnum, innréttingum og húsgögnum,“ segir Halla Bára.

Bökunarlyktin bregst ekki

Að lokum er eitt ráð sem aldrei bregst. „Góð matar- og bökunarlykt er stór þáttur í lifandi, áhugaverðu og þar af leiðandi fallegu heimili. Og fyrir utan það hvað er gaman að borða slíkt góðmeti á góðum stað,“ segir Halla Bára. hallabara.com

sbs@mbl.is