Þorvaldur Björnsson fæddist í Húnavatnssýslu 27. mars 1935. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 19. september 2011.

Útför Þorvaldar fór fram frá Áskirkju 30. september 2011.

Þegar ég kom til starfa við tónmenntarkennslu í Breiðagerðisskóla fyrir fimmtán árum var þar fyrir annar tónmenntarkennari, hann Þorvaldur Björnsson. Ég hafði þá þegar séð hann við ýmis tilefni, spila leikandi létt á harmonikkuna með Þjóðdansafélagi Reykjavíkur á sýningum þess og við orgelið í kirkjunni á Bessastöðum.

En þarna stóð ég haustið 1996, nýútskrifaður kennari, og hitti þá þennan svipfallega, hlýlega samstarfsmann. Þannig kom hann mér fyrir sjónir þá og alltaf síðan. Hann tók mér fagnandi, var tilbúinn að aðstoða og ráðleggja óreyndum kennara og diskútera við mig tónlist og kennslu frá ýmsum sjónarhornum. Það kom fyrir að mér þótti næsta nóg um, þegar hann fór að útskýra fyrir mér í smáatriðum eðlisfræðina á bak við tónlistina, því hann var sannarlega einstaklega vel að sér hann Þorvaldur.

En fyrst og fremst minnist ég Þorvaldar sem mikils og hógværs tónlistarmanns, píanóleikara og harmonikkuleikara sem aldrei sagði nei. Það var engin samkoma, engin ferðalög hjá starfsfólkinu án söngs við undirleik hans, hann virtist alltaf vera til í að spila dálítið fyrir okkur. Sem minn nánasti vinnufélagi var hann mér mikilvægur og kær og margar stundir skemmtum við okkur saman í tónlistinni, í leik og starfi. Þetta er aðeins önnur hliðin, því hann var einnig smíðakennari skólans og sameinaði þessa tvo þætti með smíði hljóðfæra sem eru einstök. Þegar Þorvaldur hætti kennslu við skólann vegna heilsubrests saknaði ég vinar í stað.

Á kveðjustund vil ég þakka fyrir að hafa eignast svo góðan samstarfsmann. Allar mínar minningar um Þorvald Björnsson eru bjartar og hlýjar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ég sendi kæra samúðarkveðju til fjölskyldunnar.

Sigrún Erla Hákonardóttir.

Kveðja frá Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík

Fallinn er frá góður félagi, Þorvaldur Björnsson, kennari og hljóðfæraleikari. Margs er að minnast þegar kynnin af Þorvaldi eru rifjuð upp. Fyrst koma í hugann tónlistarhæfileikar hans en ekki síst háttvísi hans og ljúfmennska. Hann var frekar dulur við fyrstu kynni, en hvers manns hugljúfi þegar betur var gáð. Var ekkert að trana sér fram en fljótur að bregðast við ef til hans var leitað.

Þorvaldur heillaðist snemma af harmonikunni og til er saga af því þegar hann á öðru ári heima í Bjarghúsum í Vesturhópi var að leika sér með lóðakrók úr prjónavél. Drengnum varð fótaskortur og krókurinn stakkst inn með öðru auganu. Nú voru góð ráð dýr. Krókinn varð að fjarlægja. Til að bjarga málum var fenginn harmonikuleikari til að spila fyrir unga manninn á meðan. Það dugði. Það heyrðist ekki æðruhljóð. Stráksi hlustaði sem dáleiddur. Þorvaldur fékk tilsögn á orgel um fermingu og fljótlega eignaðist hann sína fyrstu harmoniku og lék á skemmtunum í sveitinni og því hélt hann áfram eftir að hann kom til Reykjavíkur. Hann var rómaður dansspilari, með meitlaðan takt og áherslur. Hann var ágætis lagahöfundur, án þess að flíka því mikið. Þorvaldur starfaði lengi sem organisti í Bessastaða- og Garðakirkju.

Árið 1985 var Þorvaldur fenginn til að stjórna hljómsveit F.H.U.R. Þetta átti eftir að reynast mikið gæfuspor fyrir félagið, því með honum kom ljúflingurinn hún Kolla, sem stóð við hlið hans og vann líka með kaffikonunum. Hann stjórnaði hljómsveit félagsins í rúman hálfan annan áratug og tókst oft að ná ótrúlegum árangri, ekki síst með tilliti til þess að hljómsveitarmeðlimir voru ákaflega misjafnir að getu og kunnáttu. Hann náði sínu fram með lagni. Hans áherslur voru léttleiki því harmonikan er hljóðfæri gleðinnar.

Þorvaldur var potturinn og pannan í tónlistarlífi félagsins um árabil og ólatur að miðla til okkar hinna. Auk þess að stjórna hljómsveitinni var hann gjaldkeri félagsins í nokkur ár. Óteljandi eru þau skipti sem Þorvaldur kom fram fyrir hönd félagsins, á dansleikjum og öðrum skemmtunum innanlands sem utan. Öll framkoma hans einkenndist af virðingu fyrir félaginu og sjálfum sér. Sem ferðafélagi var hann stórkostlegur, athugull og gamansamur. Hann var hafsjór af fróðleik á ferðalögum félagsins enda víðlesinn, minnugur og kom sífellt á óvart. Þorvaldur sá lengi um hljóðfæraleik fyrir Þjóðdansafélag Reykjavíkur sem leiddi til samstarfs við Félag harmonikuunnenda í Reykjavík. Hann vildi veg félagsins sem mestan og stjórnaði hljómsveitinni á fimm landsmótum eða þar til heilsubrestur fór að hafa áhrif á líf hans um aldamótin. Hann missti heilsuna allt of snemma og urðu síðustu árin honum ákaflega erfið, þar sem mikið mæddi á eiginkonunni, Kolbrúnu Steingrímsdóttur. Hann var gerður að heiðursfélaga Félags harmonikuunnenda í Reykjavík árið 2005. Félagið saknar vinar og afbragðs félaga og sendir Kolbrúnu og fjölskyldunni einlægar samúðarkveðjur.

Elísabet H. Einarsdóttir

og Friðjón Hallgrímsson.