Spengilegur Frá því Benjamín festi kaup á Salatbarnum fyrir um hálfu öðru ári hefur hann lést um nærri kíló á mánuði. Hann segist í dag ekki getað hugsað sér máltið með engu grænu.
Spengilegur Frá því Benjamín festi kaup á Salatbarnum fyrir um hálfu öðru ári hefur hann lést um nærri kíló á mánuði. Hann segist í dag ekki getað hugsað sér máltið með engu grænu. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Heimþráin rak Benjamín Friðriksson kokk og eiganda Salatbarsins frá sæluríkinu Danmörku og aftur til Íslands.

Heimþráin rak Benjamín Friðriksson kokk og eiganda Salatbarsins frá sæluríkinu Danmörku og aftur til Íslands. Hann var svo heppinn að selja eignir sínar fyrir bankahrun, og hafði fjölskyldan búið bæði í Svíþjóð og Danmörku í nokkur ár þegar ekki varð lengur við heimþrána ráðið. Hann segist ekki sakna góða veðursins suður í Evrópu. „Ég vil miklu frekar vera uppi á fjöllum og finnst það ótrúleg tilfinning að vera í íslensku náttúrunni. Erfitt er að finna annan eins stað eins og Ísland, þar sem maður getur jafnvel gengið fram á heitar lindir uppi á heiði og slakað á í notalegu baði á eftir góða göngu.“

Benjamín festi kaup á Salatbarnum í Faxafeni í febrúar 2010. Veitingastaðurinn er rótgróinn, með um 15 ára sögu. Benjamín segist ekki vera hollustuóður matreiðslumaður, og hafa gaman af smjöri, rjóma og öðru góðgæti, enda alinn upp af kokkum. Hins vegar langaði Benjamín til að vera sjálfs sín herra og Salatbarinn áhugaverð fjárfesting, enda hefur það orðið raunin að viðskiptin ganga hreint ágætlega. „Salan er að vaxa jafnt og þétt og við fáum til okkar fjölda matargesta frá heimilum, skólum og fyrirtækjum allt um kring.“

Reksturinn hefur svo haft þá ánægjulegu aukaverkun að Benjamín hefur lagt af nærri 18 kíló og fær varla nóg af hollu grænmetinu. „Ég er breyttur maður, þökk sé baunaspírunum,“ segir hann og hlær. „En reyndar er það alveg svakalegt hvað maður getur orðið háður því að borða grænmeti þegar á annað borð er komist á lagið. Mér finnst það hreinlega ekki lengur boðleg máltið ef ekki er mikið af grænu á diskinum.“

Benjamín segir margt í rekstrinum orðið meira krefjandi. Hráefniskostnaðurinn hækkar og skattarnir líka, og Benjamín óttast hvað geti gerst ef hugmyndir stjórnmálamanna um hækkaðan virðisaukaskatt á matsölu verða að veruleika. Hann hefur náð að efla söluna með nýbreytni eins og veisluþjónustu þar sem hópar geta leigt staðinn, látið elda ofan í sig þrírétta matseðil og komið með eigið vín. „Síðan er iPodinum einfaldlega stungið í samband við græjurnar og nóg pláss til að dansa. Það er gaman að vinna þessi kvöld því gestirnir mæta í góðu ásigkomulagi enda þurfa þeir ekki að vera í kappi við barinn.“ ai@mbl.is