„Ég auglýsti svo í Mogganum eftir gömlum leikföngum og fékk fullan kassa frá konu sem ég þekkti ekki neitt. Fleiri fylgdu í kjölfarið,“ segir Guðbjörg Ringsted í Leikfangasafninu.
„Ég auglýsti svo í Mogganum eftir gömlum leikföngum og fékk fullan kassa frá konu sem ég þekkti ekki neitt. Fleiri fylgdu í kjölfarið,“ segir Guðbjörg Ringsted í Leikfangasafninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útlendingum sem hingað koma finnst í senn óvenjulegt og áhugavert að börn á Íslandi hafi einu sinni leikið sér með leggi, horn, völur og skeljar.

Útlendingum sem hingað koma finnst í senn óvenjulegt og áhugavert að börn á Íslandi hafi einu sinni leikið sér með leggi, horn, völur og skeljar. Börnum finnst gömul tréleikföng skrýtin en fullorðnir Íslendingar staldra við þegar þeir sjá til dæmis heimagerða dúkku sem er með höfuð úr Fimo-leir, taubúk og í heimaprjónuðum fötum. Það lítur hver sínum augum á silfrið,“ segir Guðbjörg Ringsted myndlistarkona sem stendur að Leikfangasafninu við Aðalstræti á Akureyri. Það var í sumar vinsæll viðkomustaður ferðamanna fyrir norðan – en mörgum finnst sem þeir geti þar horfið á vit barnæskunnar.

Hugmyndin að leikfangasafninu er sótt til sambærilegs safns í Borgå í Finnlandi sem Guðbjörg heimsótti fyrir nokkrum árum.

„Þar sá ég dúkku svipaða og ég átti sem barn og bíl eins og bróðir minn hafði átt. Hugsaði þá með mér að sjálf ætti ég heima eitthvað af dóti, nú þyrfti ég bara að safna meiru og í framhaldinu gæti orðið til leikfangasafn! Ég auglýsti svo í Mogganum eftir gömlum leikföngum og fékk fullan kassa frá konu sem ég þekkti ekki neitt. Fleiri fylgdu í kjölfarið. Vinkonur mínar hafa gefið mér leikföng, ég hef fengið sendingar víða að af landinu. Og eftir því sem safnið spyrst út berst meira hingað. Mér telst svo til að á því rúma ári síðan ég opnaði hafi ég fengið leikföng frá um þrjátíu manns,“ segir Guðbjörg.

Friðbjarnarhús, þar sem leikfangasafnið er til húsa, er í næsta nágrenni við Nonnahús; æskuheimili jesúítaprestsins Jóns Sveinssonar sem lagði heiminn að fótum sér með ævintýrabókum sínum þar sem bernskuslóðir hans birust lesendum sem heillandi veröld. Bækurnar voru gefnar út víða um veröld í milljónum eintaka og eru enn lesnar í talsverðum mæli. „Ég held að börn lesi ennþá Nonnabækurnar, en einu sinni léku börn sér með leggi og skeljar og heimasmíðuð leikföng,“ segir Guðbjörg sem rifjar upp að um miðja 20. öldina, þegar iðnaður var burðarvirki í atvinnulífi Akureyrarbæjar, hafi þar meðal annars verið starfræktar leikfangasmiðjur sem framleiddu barnagull sem seld voru um allt land.

Helmingi stærri dúkkuvagn

„Vinsælustu leikföngin núna eru líklega tölvuleikir. Samt eru líka til leikföng sem ekki breytast og eru sígild eins og púsl, bangsar, dúkkur og fleira slíkt. Yngstu börnin eru kannski mest með slík leikföng en þau eldri í tölvuleikjunum,“ segir Guðbjörg og bætir því við að þegar ömmur og afar komi í safnið rifji þau sína bernsku upp með leikföngunum og sama megi um foreldrana segja. Börnunum birtist hins vegar framandi veröld.

„Það er ekki mikið af leikföngum hér sem ég átti sjálf sem barn. En þó nokkur og þar á meðal trédúkkuvagn sem var framleiddur hjá Reykjalundi og dúkka úr harðplasti í honum. Sá vagn fölnaði við hlið eðalvagns sem ein stelpan í götunni heima fékk úr siglingu, helmingi stærri en trévagninn. Auðvitað er metingur meðal barna um fallegustu leikföngin rétt eins og hinir fullorðnu eru sjálfsagt líka í heilbrigðri samkeppni sín í millum um annað. Leikföngin endurspegla lífið.“ sbs@mbl.is