Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Vegagerðarmenn á Vestfjörðum hafa sýnt það og sannað að þeir eru fullfærir um að gera vegi um viðkvæm svæði þannig að vel fari."

Margt hefur verið skrafað og skrifað um samgöngur á Vestfjörðum í gegnum árin og eðlilega þurfa Vestfirðingar og reyndar landsmenn allir að fá samgöngur í það horf að sæmilega megi treysta því að komast óskaddaðir um vegi landsins jafnt að vetri sem sumri.

„Teigsskógur“. Nokkuð sem allur þorri landsmanna hafði varla heyrt minnst á hvað þá litið eigin augum og deila menn hart um það hvort leggja megi veg um viðkomandi land og sitt sýnist hverjum. Ég undirritaður varð hins vegar spenntur að sjá fram á að falin náttúruperla opnaðist þarna unnendum fagurrar náttúru, en eðlilega eru menn viðkvæmir fyrir því að vel sé gengið um slíka staði og af fullri virðingu fyrir landinu og hinum viðkvæma gróðri þannig að mikilvægt er að vel takist til í þeim efnum.

Vegagerðarmenn á Vestfjörðum hafa sýnt það og sannað að þeir eru fullfærir um að gera vegi um viðkvæm svæði þannig að vel fari.

„Ásbyrgi“ Við erum heppin að það skuli ekki vera í dag sem til stendur að opna Ásbyrgi fyrir almenning, hætt er við að skammsýnar nefndir og ráð kæmu í veg fyrir að það væri hægt. Framsýnir menn á síðustu öld vildu gera staðinn þannig úr garði að sem flestir gætu notið hinnar fögru og sérstæðu náttúru staðarins þannig að átroðningur væri sem minnstur og lögðu snyrtilegan veg inn dalinn (byrgið). Þannig að í dag njóta ferðalangar þessarar fögru náttúru hvort sem þeir eru bundnir við að sitja í bíl eða geta komist um á eigin fótum.

Þar er vegurinn svo snyrtilega lagður að hann er nánast eins og hluti af náttúrunni

Undirritaður leggur til að nú þegar verði hafin skoðun á því hvort hægt sé að koma á samningi við hlutaðeigandi að lagður verði nettur og snyrtilegur vegur um Teigsskóg. Taka þar með burt þá þröskulda sem vegir yfir hálsana þarna verða fyrir vegfarandann, minnka slysahættu og opna um leið þessa náttúruperlu fyrir þá sem vilja njóta landsins. Að ákvörðun um vegstæði og veggerð þurfa allir hlutaðeigandi að koma, þ.e. heimamenn, landeigendur, hönnuðir Vestfjarðaumdæmis Vegagerðar ríkisins og skógræktarsérfræðingar.

Þarna má ekki fara um með stórvirkar vinnuvélar og ryðja upp vegstæði úr landinu heldur verður að aka allri fyllingu úr námum utan hins viðkvæma svæðis eins og gert var til dæmis í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þar er vegurinn listilega lagður í gegnum viðkvæm skógarsvæði þannig að vegfarendur geta virkilega notið þess fagra umhverfis og gróðurs sem þar er að sjá í hrauninu, sem og vegar sem fellur einstaklega vel að landinu umhverfis.

Ekki má gleyma því að á svona stöðum þurfa að vera stór og góð bílastæði, helst borð og bekkir, ruslagámar, góð upplýsingaskilti sem varða bæði umgengni sem og sérkenni staðarins, Með ósk og von um að Vestfirðingar sem og aðrir landsmenn fái nettan og fallegan veg um Teigsskóg.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri og er áhugamaður um góðar samgöngur fyrir alla landsmenn.