Guðrún Bæringsdóttir fæddist hinn 24. desember árið 1928 vestur í Hnífsdal. Hún lést á Landspítalanum hinn 28. september síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru þau Bæring Þorbjörnsson og Ólöf Jakobsdóttir. Systkini Guðrúnar eru hálfbróðir hennar Ásgeir Valhjálmsson og alsystkinin Margrét, Kristinn og Ólafur. Kristinn og Ólafur eru fallnir frá. Guðrún ólst upp í Hnífsdal til ársins 1939 en þá flutti hún með fjölskyldu sinni til Ísafjarðar. 16 ára gömul fór hún suður til Reykjavíkur í vist og þar dvaldi hún næstu tvö árin. Á 18. árinu flutti Guðrún síðan til Siglufjarðar. Á Siglufirði kynntist hún eiginmanni sínum, Eysteini Halldóri Einarssyni netagerðarmanni. Þau gengu í hjónaband árið 1949, hinn 16. apríl og hófu búskap sinn á Siglufirði. Þau hjónin Guðrún og Halldór eignuðust þrjú börn.

Elst er María Halldórsdóttir, fædd 4. nóvember árið 1948. Maður hennar er Einar Guðberg Jónsson.

Einar Halldórsson fæddist 8. október árið 1949. Yngstur þeirra systkina er Ólafur Þorbjörn Halldórsson, fæddur 23. janúar árið 1955. Barnabörnin eru 9 og barnabarnabörnin 15. Þau Guðrún og Halldór bjuggu á Siglufirði þar sem Halldór starfaði við netagreð, til ársins 1962 er þau fluttu til Hafnarfjarðar. Þar hafa þau búið síðan. Guðrún vann sem ung kona við sauma og sem saumakona. Er þau bjuggu á Siglufirði rak hún einnig mötuneyti enda mikið um að vera í bænum á þessum árum þegar síldin var og hét. Mest voru það menn sem unnu hjá Halldóri við netagerðina sem voru í mat hjá henni.

Frá árinu 1966 starfaði Guðrún hjá Ragnari Björnssyni og allt þar til er hún varð sjötug. Guðrún var alla tíð létt í lund, hláturmild og glaðleg. Þau hjónin áttu mörg áhugamál saman en þeirra stærst var söngurinn og oft tóku þau lagið saman. Halldór starfaði með Þröstunum eftir að þau fluttu hingað suður. Guðrún tók þátt í því starfi af lífi og sál og var fyrsti formaður kvenfélags Þrasta. Þau ferðuðust líka mikið erlendis hjónin meðan bæði lifðu og höfðu af því mikla ánægju. Halldór lést hinn 16. apríl árið 1979, á 30 ára brúðkaupsdeginum þeirra. Guðrún var kraftmikil, vinnusöm og dugleg kona. Hún var ráðagóð og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Þannig smíðaði hún sjálf hillur og annað til heimilisins ef slíkt vantaði og gekk í þau störf sem þurfti að vinna. Hún var líka mjög viljasterk og meinti það sem hún sagði. Hennar já var já og nei hennar þýddi nei. En um leið var Guðrún með mikla réttlætiskennd. Hún fylgdist líka vel með þjóðmálum allt fram á síðasta dag og hafði á þeim ákveðnar skoðanir.

Umfram allt annað hafði Guðrún mikla gleði af barnabörnum sínum síðustu árin. Hún ljómaði öll þegar þau komu í heimsókn til hennar – enda var hún stolt af hópnum sínum og elskaði þau öll heitt og innilega.

Eftir árið 1999 fór að halla undan fæti hvað heilsu Guðrúnar varðaði. Hún missti smátt og smátt heilsuna og undanfarin fjögur ár hefur hún verið rúmföst. Að lokum fór svo að baráttuþrek hennar var á þrotum.

Guðrún verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma mín, þú varst skemmtileg, ráðgóð og réttlát en þú varst líka þrjósk og stolt. Minningarnar eru margar góðar en minningin sem ég minnist mest er þegar þú og pabbi voruð að skemmta ykkur því þá vildi ég frekar vera með ykkur en að fara út með vinum mínum. Það var sungið af fullum krafti og mikilli innlifun. Ég elskaði að hlusta á ykkur syngja saman og taka þátt með ykkur. Síðustu fimm ár hafa verið þér erfið vegna verkja og vanlíðanar. Ég efast ekki um að það hafi verið fagnaðarfundur hjá þér og pabba þegar þú komst loks í faðm hans aftur, nú veit ég að þér líður vel. Þú fékkst loksins hvíldina langþráðu sem þú hefur beðið eftir. Nú þarf ég að venjast því að fara ekki inn í Hafnarfjörð á föstudögum í heimsókn til að versla fyrir þig og vera þér félagsskapur. Ég mun sakna þín, mamma mín.

Mamma, þú ert elskuleg mamma mín,

mér finnst gott að koma til þín.

En mamma, gaman væri að vera stór.

Þá vild' ég stjórna bæði hljómsveit og kór.

(Freymóður Jóhannsson.)

Þín dóttir,

María.

Elsku amma mín.

Fráfall þitt kom ekki mjög skyndilega, enda aldur hár og þú farin að kröftum eftir langa og farsæla ævi.

Með þér er enn ein rósin fölnuð og fallin.

Blómagarður okkar er fátækari nú en áður.

Fyrir mér varst þú ætíð glaðvær og hláturmild, hreinskilin og þrjósk, handlagin og vinnusöm...g skemmtilega stríðin.

Það sem situr fastast í minningunni, alveg frá barnsaldri, þau jól sem við áttum saman, að við bræðurnir gátum ekki beðið eftir ömmu og gjöfunum hennar.

Þú virtist alltaf vita hvað okkur langaði í, hvað okkur fannst spennandi og sást til þess að það tæki okkur í hið minnsta korter að opna þær...kassi...ofan í boxi...ofan í kassa...og allt rækilega fest með límbandi og fyllt með gömlum dagblöðum o.s.frv.

svo hlóst þú dátt, á meðan við rembdumst við að rífa utan af þessu öllu saman, alveg að pissa í okkur af spenningi og vorum ávallt í skýjunum með það sem þú gafst okkur.

Megi þú hvíla í friði og ég bið að heilsa afa.

Komið er að kveðjustund,

Nú heldur þú á annan fund,

Til okkar ei aftur mun vakna,

Þín, ég mun ávallt sárt sakna.

Kveðja.

Ingólfur.

Elsku amma.

Þú varst yndislega kona, lífsglöð og ég man alltaf eftir þér hlæjandi. Ég man eftir því að ég var alltaf hjá þér þegar ég var lítil og ég man eftir því að þú söngst fyrir mig úr söngvabók sem þú áttir, og ég var fljót að finna mér uppáhaldslag sem er og var dansi dansi dúkkan mín. Ég veit að ég á eftir að syngja þetta lag fyrir mín börn þó að ég sé ekki besta söngkonan en ég mun gera það í minningu um þig.

Ég man líka eftir þeim degi sem ég var hjá þér og við vorum á leiðinni í afmælisveislu og ég var ekki beint í veislufötunum þannig að þú fórst með mig úti í búð og fannst á mig rauðan bol og svo fannstu efni heima hjá þér og saumaðir á mig pils. Ég var ekkert smá glöð með þessi nýju föt.

Alltaf þegar ég hugsa um það þegar ég var lítill og heima hjá ömmu brosi ég því þetta eru góðar minningar um okkur saman.

Þú varst frábær amma og þú munt alltaf vera hjá mér.

Þín verður sárt saknað.

Guðrún Albertína

Einarsdóttir.

Elsku langamma.

Þú varst yndisleg langamma og varst alltaf tilbúin að hjálpa okkur að láta það gerast sem við krakkarnir vorum braska við.

Ég man svo greinilega eftir því að þú safnaðir frostpinnaspýtum fyrir okkur krakkana til þess að við gætum búið til alls kyns bílabrautir út um allt gólf hjá þér.

Við fengum líka að tæma allar eldhússkúffur af sleifum og þess háttar til að stækka brautina enn frekar.

Alltaf passaðir þú svo að eiga kókómjólk og kleinur fyrir okkur bílabrautasmiðina.

Ég man líka svo vel eftir þegar ég var að syngja með barnakór Grafavogskirkju sem kom fram í sjónvarpinu, að þú varst svo stolt af mér að þú tókst ljósmynd af sjónvarpinu með mér í því til að sýna mér að þú hefðir verið að horfa.

Svo vildir þú að ég ætti myndirnar, sem ég á enn og mun varðveita.

Aldri mun ég gleyma þér, elsku langamma mín...hvíldu í friði.

Þín,

Íris Ósk.