Össur er hættur að bera þátttöku í hernaði undir utanríkismálanefnd

Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður innti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra eftir því á Alþingi í fyrradag hvort Steingrímur J. Sigfússon hefði verið spurður þegar hernaðaraðgerðir NATO í Líbíu voru framlengdar í annað sinn í september sl. og hvort hann væri þeim samþykkur. Össur sagðist ekki hafa borið málið undir Steingrím en greint frá því í ríkisstjórn að hann hygðist í þriðja sinn samþykkja hernaðinn fyrir hönd Íslands. Vinstri grænir ráðherrar hafi bókað mótmæli í ríkisstjórninni, sem er þá að minnsta kosti í þriðja sinn sem þeir bóka slík mótmæli án þess að á þá sé hlustað.

Tvennt vakti sérstaka athygli í svörum Össurar. Annars vegar það að hann sagðist ekki hafa talið að ákvörðunin í september um að endurnýja umboð NATO til að stunda hernað í Líbíu væri meiriháttar utanríkismál sem þyrfti að ræða í utanríkismálanefnd. Af svörum hans má ráða að ástæðan sé sú að átökin hafi nánast verið til lykta leidd.

Þá hlýtur að vakna sú spurning hversu mikill hernaðurinn þurfi að vera sem NATO stundar í nafni Íslands og annarra aðildarríkja til að Össur telji sig þurfa að bera það undir utanríkismálanefnd. Mun Össur telja sig geta samþykkt að standa að hernaði annars staðar í veröldinni án þess að bera það undir nokkurn mann ef hann telur að umfang hernaðarins verði ekki mikið? Eru Vinstri grænir þeirrar skoðunar að þessi túlkun utanríkisráðherra á umboði sínu og hlutverki utanríkismálanefndar sé ásættanleg?

Hitt sem athygli vakti svarar í raun hluta spurninganna sem velt er upp hér að framan, því að Össur ítrekaði þá afstöðu sína að hann þyrfti alls ekki að ræða þátttöku Íslands í hernaðaraðgerðum við utanríkismálanefnd, hvað þá að taka tillit til sjónarmiða þeirrar nefndar né nokkurs annars.

Um þetta sagði hann orðrétt: „Að því er varðar Líbíu þá tel ég raunar, eins og ég hef fært rök að hér í ræðustól Alþingis, að ég hefði getið tekið þessa ákvörðun, sem að ég tók hina fyrstu [um hernaðinn í Líbíu], án þess að ræða það við utanríkismálanefnd. Það er algjörlega ljóst. Án þess að fara eftir því sem að endilega hefði verið niðurstaða utanríkismálanefndar vegna þess að það er ekkert í lögunum sem segir að ég þurfi að fara eftir því.“

Í ljósi yfirlýstrar afstöðu Vinstri grænna til hernaðar og ekki síst þátttöku Íslands í hernaðaraðgerðum, er með miklum ólíkindum að þeir skuli ekkert hafast að og láti sér lynda að sitja undir aðgerðum utanríkisráðherra og túlkunum hans á umboði sínu til þátttöku í hernaði. Þeir láta sér nægja að bóka mótmæli og er alveg sama þó að ekkert sé með þau gert. Og þegar utanríkisráðherra færir sig upp á skaftið og sér ekki einu sinni ástæðu til að bera málið undir utanríkismálanefnd, þá láta ráðherrar Vinstri grænna sér duga að mótmæla í hljóði á lokuðum fundi og vonast sjálfsagt til þess að enginn verði þess var hvernig með þá er farið. Nú eru þeir hins vegar lentir í því að utanríkisráðherra hefur opinberað leynibókunina.