Ólafur Helgi Marteinsson
Ólafur Helgi Marteinsson
Eftir Ólaf Helga Marteinsson: "Samkvæmt sömu upplýsingum hefur fasteignaverð á Siglufirði hækkað um 45% eða úr 62 þús. á hvern fermetra í 90 þús. á fermetra."

Á dögunum skrifaði stjórnarformaður Rauðku ehf. grein í Morgunblaðið. Í lok hennar sneiðir hann að sveitarstjórn Fjallabyggðar og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokknum sem forystuafli í sveitarfélaginu. Stjórnarformaðurinn nefnir til „úrelt vinnubrögð“ og „rangar áherslur“ án þess að styðja mál sitt neinum rökum.

Þetta væri auðvitað ekki svara vert nema af því að í greininni lætur stjórnarformaðurinn að því liggja að með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi haldi sveitarstjórn Fjallabyggðar fasteignaverði á Siglufirði niðri og hafi þannig stórfé af íbúunum. Máli sínu til stuðnings ber hann saman fasteignaverð á Siglufirði og í Stykkishólmi á þessu ári. Vissulega er það sláandi að verð á hvern fermetra íbúðarhúsnæðis í Stykkishólmi er 180 þús. á móti 90 þús. á Siglufirði.

45% hækkun á þremur árum

Það er því miður engin nýlunda að fasteignaverð sé lágt á Siglufirði. Svo hefur verið lengi og liggja til þess margar ástæður sem flestum eru kunnar. Þar vegur eflaust þyngst að íbúum hefur á síðustu 60 árum fækkað úr um 3.000 manns í ríflega 1.000 manns. Ég hygg það sé einsdæmi að sveitarfélag hafi glímt við viðlíka fólksfækkun í svo langan tíma.

Ef litið er til skemmri tíma og horft til þróunar á fasteignamarkaði, sem líklega gefur betri mynd en staðan á einum tímapunkti á þessu ári, þá segir á vef Þjóðskrár Íslands að á árinu 2008 hafi verð á hvern fermetra íbúðarhúsnæðis í Stykkishólmi verið 161 þús. og hefur það því hækkað um 12% frá þeim tíma. Samkvæmt sömu upplýsingum hefur fasteignaverð á Siglufirði hækkað um 45% eða úr 62 þús. á hvern fermetra í 90 þús. á fermetra.

Þessi þróun ætti flestum að vera gleðiefni. Og með þokkalega jákvæðum vilja má draga þá ályktun af þessum samanburði að okkur hafi miðað nokkuð áleiðis á undanförnum árum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Ramma hf. og Primex ehf. og er formaður bæjarráðs Fjallabyggðar.