Bannað? Sitt sýnist hverjum um frjálst flæði menningar á netinu.
Bannað? Sitt sýnist hverjum um frjálst flæði menningar á netinu. — Morgunblaðið/Júlíus
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is „Á margan hátt er eins og við séum í miðju stormsins einmitt í dag, og ég held að þegar litið verður til baka eftir 20 ár þá verði þessi tími álitinn mjög kaotískur og um leið spennandi.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

„Á margan hátt er eins og við séum í miðju stormsins einmitt í dag, og ég held að þegar litið verður til baka eftir 20 ár þá verði þessi tími álitinn mjög kaotískur og um leið spennandi. Við stöndum á vissum tímamótum og mun hafa áhrif á hvernig hagkerfið þróast hvaða ákvarðanir verða teknar og hvaða fyrirkomulag haft á hugverkaréttindum,“ segir María Rut Reynisdóttir.

María stýrir You are in Control-ráðstefnunni (YAIC) sem haldin verður í fimmta skipti dagana 10. til 12. október. Ráðstefnan fer fram í Hörpu en um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem skoðar samband tölvutækninnar og skapandi greina. Meðal fyrirlesara má nefna Jane Pollard, Ralph Simon og Iain Forsyth en dagskráin er blanda fyrirlestra, vinnustofa, pallborðsumræða og listviðburða.

Á allt að vera opið?

Einn af hápunktum YAIC verður væntanlega á þriðjudaginn þegar Robert Levine, rithöfundur og blaðamaður, og Mathias Klang, lektor í lögfræði, takast á um hvaða leið á að fara í höfundarréttarmálum á listasviðinu. „Um leið og netið ýtir undir samskipti milli skapandi greina hafa komið í ljós brestir í kerfinu. Robert hefur gagnrýnt þá frístefnu sem virðist ætla að verða ofan á á netinu, þar sem öll menning á að flæða um hindrunarlaust, listamenn eiga helst að gefa sköpunarverk sín en fá tekjur sínar með öðrum leiðum. Mathias tekur hinn pólinn í hæðina og saman munu þeir taka þátt í rökræðum við gesti í sal,“ segir María. „Það má alveg búast við að það hitni í kolunum í þessari umræðu enda eru höfundarréttarmál það viðfangsefni sem stafræna byltingin hefur neytt fólk til að endurskoða og aðlaga breyttum atvinnuháttum.“